Hallfridur.is

Tenglar í efni síðunnar:

Hópar og námskeið

Tarot

Hver ert þú? Þetta er spurning sem Réttlætið í tarot beinir til okkar. Tarot er litríkur og spennandi miðill sem getur vakið okkur til meðvitundar um hvað í okkur býr og vísað okkur veginn til skapandi lífs.

Hlé verður gert á tarot-kennslu um óákveðinn tíma.

Tarot-spilin tala til þess sem ígrundar þau úr djúpum stað, líkt og goðsögur, ævintýri og draumar. Þau eru spegilmyndir sem sýna innri gerð okkar, erkitýpur eða sammannleg heðgunarmynstur sem eru okkur ásköpuð. Þessar táknmyndir geta gert okkur meðvituð um vannýtta hæfileika og krafta sem í okkur búa og glæða jafnframt skilning á að við erum hluti af heild. Við erum öll á ferðalagi til aukins þroska og sjálfsskilnings þótt leiðirnar sem við rötum inn á, meðvitað eða ómeðvitað, séu einstaklingsbundnar.

Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðu vali, getur tarot hjálpað okkur að vega og meta aðstæður og komast að farsælli niðurstöðu. Margir óttast að spilin taki af þeim ráðin og segi fyrir um váleg tíðindi sem ekki verði undan komist. Því fer fjarri. Tarot getur þvert á móti eflt frjálsan vilja okkar með því að varpa ljósi á hegðunarmynstur sem hefta blómgun okkar og þroska. Hvort sem okkur finnst lögn vera jákvæð eða neikvæð, er undir okkur sjálfum komið að láta jákvæð skilaboð verða að veruleika en líta á hitt sem hittir okkur illa fyrir sem verðuga lexíu og víti til varnaðar. Við erum smiðir eigin gæfu.

Draumar

Þann 15. janúar 2018 fer ég af stað með draumanámskeið. Þetta verða 6 skipti, tveir tímar í senn annan hvern mánudag. Fjöldi þátttakenda takmarkast við 5. Námskeiðið verður haldið að Lindargötu 37, íbúð 503. Gjaldið er kr. 24.000.

Persónuleg reynsla hefur kennt mér að draumar mínir eru leiðsegjandi afl sem hjálpar mér að finna mína eigin rödd og hljóðfall í lífi og leik. Draumarnir eru að mínu viti skáldskaparvíddin í tilverunni. Samband mitt við þá ljær daglegu lífi mínu dýpt og merkingu sem augu mín væru ella ekki opin fyrir. Þannig örva þeir skapandi hugsun og greiða fyrir sjálfsþekkingu og þroska.

Draumar leitast ávallt við að miðla okkur einhverju sem við erum okkur ómeðvituð um. Reynslan hefur sýnt að farsælt er að vinna með þá í hópum. Tregða til að breyta inngrónum hegðunarmynstrum, jafnvel þótt þau stríði gegn blómgun okkar og þroska, er rík í mannsins eðli. Við snúum því hæglega blindu auga að vísbendingum draumanna um að við þurfum að breyta einhverju í lífssýn okkar og umgengni við sjálf okkur og aðra. Þar eð við erum flest að fást við áþekk vandamál, getur hópur komið auga á það sem dreymandinn sjálfur lítur framhjá.

Draumavinna er raunverulegt ævintýri. Hún gengur út á að finna hnossið sem hetjur og kolbítar arfsagnanna leituðu í villtri náttúru og framandi löndum. Hún gengur út á að finna okkur sjálf.

Svo ég geri stuttlega grein fyrir hvernig við munum nálgast draumavinnuna, þá gætum við þess að túlka ekki drauminn fyrir dreymandann heldur gegnir hópurinn raunverulega ljósmóðurhlutverki sem felst í að spyrja dreymandann spurninga og hjálpa honum þannig að höndla erindi draumsins. Slíkri lausn fylgir jafnan geðshræring. Eitthvað hittir í mark, og þar með hefur draumurinn náð að hreyfa við dreymandanum og hrinda af stað endurskoðunarferli.

Draumur er afar persónuleg og náin upplifun. Það er því grundvallarskilyrði að fullkomið traust og gagnkvæm virðing ríki í hópnum. Þátttakendur fjalla ávallt um draum annars út frá sjónarhóli sinnar eigin reynslu og fylgja tilraunum til túlkunar úr hlaði með “ef þetta væri minn draumur…” Hversu ljós sem þeim virðast skilaboð draumsins, ber þeim að varast að þröngva túlkun sinni upp á dreymandann. Alla jafnan getum við komið auga á algild og sammannleg þemu í draumum en tilfinningarnar sem þeim eru samofnar eru persónulegar og sprottnar úr sértækri reynslu dreymandans, og það eru umfram allt tilfinningarnar sem knýja á um umbreytingu og þroska persónuleikans. Á meðan slíkar umbreytingar eiga sér stað og einstakir meðlimir prófa sig áfram í nýju mynstri, getur hópurinn veitt þeim ómetanlegan stuðning.

Þeir sem hafa áhuga hafi samband í síma 897-4612 eða sendi tölvupóst á hallfr@simnet.is.

Draumar

Laugardaginn 28. febrúar 2009 stóð ég fyrir vinnustofu sem bar yfirskriftina Draumar og tarot – tvær greinar á sama meiði. Hér að ofan getur að líta frábæran hóp hugmyndaríkra kvenna sem tóku þátt í þessu verkefni með mér. Dagskráin hljóðaði sem hér segir:

1. Fyrirlestur: Draumar og tarot – tvær greinar á sama meiði.

2. Við byrjum á að virkja ímyndunaraflið og förum á stefnumót við tarot-tromp eða drauma-fígúru. Aldrei að vita hvaða launmál kunna að afhjúpast á þeim samfundum!

3. Við munum kanna hvernig við getum notað tarot til að hjálpa okkur að höndla skilaboð
draumanna okkar.

4. Kaffihlé.

5. Loks drögum við saman kjarnann úr upplifun dagsins með því að búa til okkar eigið
“drauma-tarot” spil
og skiptum okkur að því búnu upp í smærri einingar til að spá í spilin okkar.

 

Að neðan sjáum við nokkur spilanna sem urðu til í þessari líflegu vinnustofu:

Speglun
Lífsins dans
Endurfæðing sjálfs
Ljónshjarta