Hallfridur.is

© 2012 Hallfríður Ragnheiðardóttir

Ljóðið Triptych sigraði í ljóðasamkeppninni
Ljóðstafur Jóns úr Vör 2012

Um samkeppnina

Triptych

Sakramenti

Einhver hefur saumað útlínur drekans með hárfínum rauðum þræði, líkt og grun, eða
skugga, í rautt silkið.

Það er um tvo kosti að velja: að segja já við hinu óumflýjanlega og hefja gullgerð en
hafna því ella og búast til varnar.

Há-karlinn hefur verið brytjaður í örsmáa, rauðleita teninga. Ég þigg bita úr silfurskálinni.

Lausnarorð

Hann elskar mig og ég elska hann, glæpamann, morðingja. Við hittumst á torginu og hann
vefur mig örmum. “Hvernig hefurðu það, ELSKAN?” Orðið kemur eðlilega og átakalaust út
fyrir varir mínar. Við höldum hvort yfirum annað, elskendur frá upphafi vega, og
hringsólum hlið við hlið innan um óljósan fjöldann.

Hver var sá guð sem skapaði okkur að skilja?

Opinberun

Fríkirkjan stóð þar sem ég stend nú. Við erum mörg við þessa messu. Horfum í vesturátt og
sjá, skyndilega fyllist tjörnin og húmdökkur himinninn yfir af blóðroða. Fagnandi teyga ég
hina gullnu veig meðan býðst. Svo er hún jafnskyndilega horfin.

Eftir lifir grunur um gljásvartan flygil undir ísnum á vatni við veginn.

Triptych
Tónlist eftir Jón Inga Herbertsson

Sonur minn hefur heiðrað mig með að semja tónlist við ljóðið mitt sem hlusta má á hér:

Spjallað við Kolbrúnu Bergþórsdóttur í tilefni af Ljóðstafnum

birt í Morgunblaðinu 20. febrúar 2012

Viðtalið:

Hallfríður J. Ragnheiðardóttir fékk nýlega Ljóðstaf Jóns úr Vör fyrir ljóðið Triptych í árlegri ljóðasamkeppni lista- og menningarráðs Kópavogs. „Ég hef ekki fengist markvisst við ljóðagerð en þegar til baka er litið sé ég að leit mín að skáldinu hefur verið löng. Ekki hvað síst hefur þetta verið glíma við að losna undan ofurvaldi rökhugsunarinnar,“ segir Hallfríður sem er bókmenntafræðingur og draumaþerapisti. „Það má segja að leitin hafi hafist markvisst eftir að ég lauk MA prófi í íslenskum bókmenntum árið 1995. Ég skrifaði lokaritgerðina mína hjá Matthíasi Viðari Sæmundssyni sem lagði til að ég tæki fyrir tiltekið þema í þjóðsagnararfinum út frá sjónarhorni jungískrar sálfræði. Þarna urðu straumhvörf í lífi mínu. Mig langar til að geta þess hér að leiðsögn Matthíasar á námsárunum var mér afar mikilvæg og hana fæ ég seint fullþakkað.

Ég heillaðist umsvifalaust af Jung. Til þessa hafði ég ekki veitt draumum mínum athygli en á þessum tímamótum bókstaflega flæddu þeir yfir mig. Að loknu prófi gerðist ég meðlimur í draumahópi undir leiðsögn jungísks sálfræðings úti í New York þar sem ég var búsett á þessum tíma. Svo gerðist það eina nóttina að Þorsteinn frá Hamri birtist mér í draumi og gaf mér silfurmen og silfurlyklahring. Ég hef sagt Þorsteini þessi sögu og leyfi mér þess vegna að deila henni hér. Þarna áttaði ég mig á því að leitin að skáldinu væri leynt og ljóst hafin. Á námsárunum hafði ég skrifað ritgerð um ljóðabók Þorsteins, Vatns götur og blóðs, sem hafði djúp áhrif á mig. Allar götur síðan hefur Þorsteinn verið Skáldið í mínum huga.

Auk Þorsteins skapaði annað skáld sér sess í draumum mínum en það var Emily Dickinson. Eitt ljóða hennar talaði sérstaklega sterkt til mín en það fjallar um lítið maríuvandarblóm sem reyndi að vera rós og mistókst. Það var svo ekki fyrr en undir vetur sem þetta litla fjólubláa villta blóm náði að blómstra. Dickinson hitti mig í hjartastað með þessu ljóði, bæði vegna þess ég skynjaði í sjálfri mér þessa viðleitni til að laga mig að því sem mér hafði verið innprentað fremur en að leggja mig fram um að finna mitt sanna sjálf og eins hins að blómið blómstraði seint og leitin að minni rödd, mínum sannleika, hafði verið löng. Kannski vakti þetta ljóð Dickinson með mér von.

Sharon Olds er annað bandarískt skáld sem hafði djúp og ekki síst frelsandi áhrif á mig, einkum með bók sinni The Wellspring sem kom út árið 1996, einmitt á þeim árum sem ég var að byrja að vinna markvisst með sjálfa mig í gegnum drauma.

Auðvitað er fjöldinn allur af öðrum skáldum sem hafa heillað mig en ég nefni þessi þrjú sérstaklega vegna þess að þau skiptu sköpum fyrir mig. Að þau skyldu skapa sér sess í draumum mínum sýnir hve djúpstæð áhrif þau höfðu á mig.“

Hvernig lítur þú á drauma?

Persónuleg reynsla hefur kennt mér að draumar mínir eru leiðsegjandi afl sem hjálpar mér að finna mína eigin rödd og hljóðfall í lífi og leik. Draumarnir eru að mínu viti skáldskaparvíddin í tilverunni. Samband mitt við þá ljær daglegu lífi mínu dýpt og merkingu sem augu mín væru ella ekki opin fyrir. Þar eð vökuvitund okkar er afar takmörkuð leitast draumarnir við að miðla okkur einhverju sem við erum okkur ómeðvituð um en værum betur sett með að vita. Þeir örva þannig skapandi hugsun og greiða fyrir sjálfsþekkingu og þroska. Ég tel að gildi drauma verði ekki ofmetið.

Árið 2007 ákvað ég að verða mér úti um réttindi til að vinna með drauma og útskrifaðist sem draumaþerapisti tveimur árum síðar frá Institute for Dream Studies í Charleston í Suður Karólínu.

Af hverju ákvaðstu að senda ljóð í ljóðsamkeppni?

„Ég var að glugga í blaðið yfir morgunkaffinu þegar ég rak augun í auglýsingu um samkeppnina. Eitthvað hitti í mark og ég reif hana út. Hún lá síðan á vinnuborðinu mínu í tvo daga áður en ég dró fram drög sem ég átti í möppu og til varð þetta ljóð. Ég ákvað að láta slag standa og senda það í keppnina. Ljóðið Triptych er samsett úr þremur ljóðmyndum sem kallast á. Sú fyrsta ber yfirskriftina “Sakramenti”, önnur nefnist “Lausnarorð” og sú þriðja “Opinberun”.

Hvaða máli skiptir þig að fá verðlaun eins og þessi?

„Þessi verðlaun hafa mikilvæga þýðingu fyrir mig. Þau gefa mér vísbendingu um að ég sé að nálgast langþráð markmið að einhverju leyti og eru mér hvatning til að halda nú áfram á þessari braut og sjá hvað úr verður.“

Hér var upphafið. Verkefni úr ritlistarnámi veturinn 1986-1987. Við áttum að setja saman ferskeytlur. Útkoman varð þetta ljóð ort út af málverkinu Tree Peonies eftir Yün Show-p´ing (1633-1690). Ég kallaði það Tilbrigði við Bóndarósarunnann:

Um litfagurt silkið af léttúð sig breiddi
sú látlausa vorsins prýði
og hugann með töfrum úr heimi burt seiddi
frá hvunndagsins lýjandi stríði

í hlustunum draumþýðar hljóðpípur óma
með hljómi af fjarlægum toga
á gljáfægðan koparinn gullnum slær ljóma
af glaðbeittum kertaloga

og krónunnar fíngerðu blöðin bleik
í brókaði næfurþunn myndast
sem mjúklega í dunandi dansins leik
um dáfagran meyjarfót vindast

er horfið er aftur að hversdagsins önn
í huganum minningin bærist
það víst er ei ofsagt um list, sé hún sönn,
að sálirnar á henni nærist.

Ég hafði nýverið séð myndina í Metropólitan safninu í New York og hrifist af henni. Við hlið hennar gaf að líta þetta ljóð listamannsins:

A modest spring beauty with songs and flutes in the boudoir
Copper trays and silver candles reflect the flowery cushion
In diaphanous gown of brocade, pieced and cut on the loom
Newly arrived, this one dances marvelously in the palm of my hand

Vængir

 

er að mála mynd: haf

á þröngu sundi milli ávalra hæða

teygja sólgulir vængir sig hátt til himins

 

mjóir vængir

 

út til jaðranna rennur

himinblámi saman við gras-

grænan tón svo úr verður blágræn brydding

 

seilist inn í myndina

 

þen vængina út með fingurgómunum

dúnfjaðrir bifast í blíðum andvara

 

sæl

dvel ég við

þessa fullkomnun

 

en þegar ég sný mér að bakgrunninum

er andríkið þrotið

ég lent í öng

 

birtist þá málverkarekki

mér á vinstri hönd

 

ég rís upp frá verki, dreg út eina mynd og sjá:

þarna sigla gulir vængir á lygnum sæ

innan um báta og skip

 

ég renni augum til lands

 

niður hlíðarnar flóa vatns­litir glóa næfurþunnir í lækjum í taumum mjúkir

margtóna renna saman skiljast að gefa allt til kynna mosa lyng blóm

 

gríp andann á lofti

 

í brjósti ómar af streng…

inn­blástur? uppgjöf?

 

draumurinn horf­inn.

 

Leiðsla

Leiðir mig svartklædda
yfir malbikað breiðstrætið
svartur hundur

blóðugur var
um lendar aftan

stefnir niður

undir borg gnæfandi turna
skrölta stálormar

situr á trékassa gömul kona
klædd ljósum rykfrakka spæjarans
á höfðinu skupla, hvít með rauðu rósamynstri

þögul, fjarræn, útlagi
hvað vill hún mér?

skynja tign hennar
sjálfstæði
vald

renni grun í hafrótið ólgandi í brjósti

var það hún sem í fyrndinni sökktist í sæ
söng mannkyni ódauðlegt kvæði
sá svikin sem leiddu til falls?

spæjari af guðs náð
það var hún

fálát, fjarræn
hvað vill hún mér?

hjartanu blæðir
streyma tár þess sem sveik
á mála hjá kúgaranum, ég

fyrir mína sök er hún
útlagi í undirheimum, ég
ofan jarðar ei nema til hálfs –

lýstur eldingu í hátimbruð vé
reist á fölskum grunni

læt grímuna fjúka
frjáls!

veit hvað hún vill, ég

spenni beltið á ljósa rykfrakkanum á leið minni upp tröppurnar.

Leiðsla birtist í Stínu, tímariti um bókmenntir og listir, í apríl 2013.

Þrjú ljóð

Vakning

Líkt og logandi sverð
rýfur sársauki
svefn
seyðingur í
lendum

ískaldar sefa hendur
heitan kvið

lekur niður læri
niðdimmt myrkur

seytlar höfgi í limi
vakir vitund

hlustar

hver galar?
ég?

í morgunroðans gullnu skímu
döggvuð skapahár

blasir við úr hellismunna
aurskriða
í fjalli.

Innblástur skógarguðsins

vakinn af “Úranusi” í tónverki Gustavs Holst, Pláneturnar

Hrifin inn í dimman skóg
þýtur í laufi

þungstígt skekur bjarndýr grund
fetar fimlega úlfur

berskjaldað ólmast hjarta
í konubrjósti

rásar um æðar
eldforn ótti
þrymur í eyrum

ósköp

vekja af svefni
djarfhuga dís

bendi ýviðarbogann
legg þrá mína á streng

skýst sem örskotsleiftur
upp gegnum glundroðans dyn
silfurskært tónstef

málar mynd:

fikrar sig mót ljóssytri um laufþak
varfærnislega, veikburða
vekur djúpar kenndir
smáblóm rautt
sem blóð við rætur hins sígræna trés.

Meistarinn

Ég bíð hans í Oak Room,
barnum á Plaza,
þögull strengur
í brjósti
þíða
vakna tár
veit ekki hvers er von
veit bara að hann kemur.

Birtist í dyrunum hvít hempa, fínofin, með keltneskri bryddingu í háls. Hann er þá prestur! Leita að augunum… þau horfa á mig mildilega, brún. Og hárið? vafalaust grátt… en myndin skreppur undan stjórn minni, hárið reynist dökkt, hann ungur.

Brosandi geng ég til móts við hann með útrétta
hönd. Hann tekur báðar hendur mínar
í sínar, við drögumst hvort að öðru
kyssumst djúpum kossi

og

ég renn inn í brjóst hans
eins og gegnum
opnar dyr.

Síðar kemst ég að raun um að hvíta skikkjan
með keltnesku bryddingunni er gervi
Fíflsins í Shapeshifter Tarot,
kolbíts sem sést ekki fyrir.

Nú stend ég hamskiptingur á brún hengiflugs
horfi á heiminn með augum Fíflsins og
hef ekki hugmynd um hvað bíður.

“Þrjú ljóð” birtust í Stínu, tímariti um bókmenntir og listir, í apríl 2014.

Lífstréð


Í þögulli frummynd liggur upphaf minnar innri veru. Einn daginn laust henni í hug mér sem eldingu af himni. Ég var ekki að því spurð hvort ég vildi hýsa hana, leiða hana, útlending, út í minn heim. Ég reyndi að bægja henni frá mér. Hún átti til að skapa mér vandræði, vekja upp í mér blygðun. Þá gerði ég að henni hróp og skipaði henni að hypja sig. Hún hamraði á því sem ég sneri blindu auga að, uns ég skildi að blygðuninni hafði verið plantað í mig að utan. Erindi hennar var að leiða mér sannleikann fyrir sjónir. Þar kom að ég óttaðist að týna henni í myrkviðum hugans. Svo lærði ég að treysta henni. Við verðum æ samstilltari, ég skynja það glöggt. Verkefni mitt er að sjá henni borgið niður úr krónunni svo hún fái fest rætur í jörð.

1. Krónan

Toppurinn á lífstrénu mínu er ekki prýddur engli
ekki stjörnu
heldur hug-
mynd:

Ég er ein úti. Í myrkri. Uppi á vegg. Sé ofan í kassa. Einhver liggur þar í fósturstellingu. Ég er reið út í þá sem drepa. Skynja návist úlfsins. Feta mig áfram með fimi dýrsins.

Maður og dýr. Líf og dauði. Myrkur og ljós. Inni og úti. Uppi og niðri. Hugurinn einn og allt í senn. Kvikur sem kvikasilfur.

Óhrædd mun ég koma aftur þegar nótt er dimm og tunglið nýtt. Og aftur. Þar til ég fæ losað mig úr vítahring reiðinnar með skilningssverðinu.

2. Viska

Á efstu greinina hægra megin hengi ég mynd af hringlaga gíg í grónu fjalli. Í gígnum hvílir kyrrlát tjörn í grænklæddu móðurskauti. Auga, sem drekkur í sig logandi himin. Ílát, sem í andrá getur umturnast í eldspúandi óargadýr. Sálarspegill skaparans. Úr þeim brunni dregur skáld sinn óð.

Í forgrunni slær blóðroða vaknandi dags á gullker: eilíft, óbreytanlegt

3. Skilningur

Vinstra megin raða ég níu gullbikurum á altari vaxandi tungls. Hér rætist óskin. Meðgöngunni lýkur þegar ég hef meðtekið að ástin í sinni margvíslegu mynd leitast við að beina mér á vit sjálfrar mín. Þegar reynslan hefur kennt mér að það tjáir ekki að streitast gegn eigin eðli. Þegar ég veit að í viðhorfi mínu liggur lykill að paradís.

Í forgrunni situr gyðja á blómguðu engi, komin að falli.

4. Náð

Fyrir neðan viskuna hengi ég hófsemina. Regnbogagyðjan hellir úr gullbikar vitundarinnar ofan í silfurbikar tilfinninganna og úr silfurbikarnum ofan í gullbikarinn… Til að upplifa náðina, þarf flæðið að vera óhindrað, blandan í jafnvægi, eins og lýsandi litróf bogans sem rennur inn sálarkima áhorfandans og lyftir anda hans í hæðir eina örskotsstund. “Sjáðu!” segir Íris og bros hennar geislar í gegnum tárin, “hér er öllum litbrigðum gert jafnhátt undir höfði. Notir þú alla strengi gígju þinnar mun fagnaðarfull harmonía standa þér til boða hverja stund.”

Ó, að unnt væri að ryðja hindrununum úr vegi með vitneskjunni einni saman!

Hve freistandi að láta undan þránni og hve erfitt að þagga skynseminnar ráðríku rödd! Í glímunni þenjum við bogann uns lausnin skýst upp í hugans heiðbjarta hvolf og við horfum niður af tindi fjallsins.

5. Kraftur

Á himni teikna stjörnur naut, frumkraft krýndan niði og nýju. Í fornri sögu tók hið himneska tákn á sig jarðneska mynd er gjöful Gefjun dró með plógi sínum Sól úr sjávardjúpi.

Svo á jörðu sem á himni.
Spegilmynd.

Þá var tjaldið dregið frá og grænklædd birtist Jörð á uppljómuðu sviði. Áar og eddur byggðu hana þrám sínum og frumstæðum hvötum: hjálparhellum sem leiða á gæfunnar vit, forynjum sem leggja stein í götu. Þunguð af möguleikum lifir hún og hennar annarlega þjóð enn í draumum dauðlegs manns þar sem lífsins drama vindur fram fyrir innri sjónum. Í þeirri leiksýningu situr Sannleikurinn í hásæti og bregður upp spegli. Erum við hetjan eða skúrkurinn?

Hér er þrautin þyngst: að kyssa þursinn og taka hinn útskúfaða í sátt.

Ég hræddist nautið. Það birtist mér í draumum. Fyrst sem kálfur og vakti mér ugg. Síðar braust það risastórt, rautt og gljáandi, upp úr jörðinni fyrir augum mér. Ég lagði á flótta… hrökk upp af martröð; það stóð við rúmstokkinn minn og bjóst til að sleikja andlit mitt, blíðlega, líkt og ég væri þess nýborna afkvæmi.

Auðhumla.
Urus.

Draumurinn opnaði augu mín. Eins og hugtakið maður er úruxi tegundarheiti. Þótt dáðþyrstar hetjur hafi útrýmt hinu villta dýri, er sköpunarkraftur frummóðurinnar fjarri því útdauður.

Að fordæmi ástargyðjunnar, sem ævaforn stjörnuspeki setti yfir nautsmerkið, ber mér stýra reginkraftinum sem í mér býr í frjósaman farveg en bægja honum ekki frá mér. Hún hefur kennt mér að gagnkvæmt aðdráttarafl hins tamda og hins ótamda er forsenda sköpunar. Að meðgangan þarf að hafa sinn gang. Náttúran. Ekki viljinn.

6. Fegurð

Þær hanga milli himins og jarðar
þögull skari

ég þekki þær

englarnir, sem prýða jólatréð í metrópólítan-
safninu og sveifla reykelsi í gullkerjum
yfir reifabarni við rætur þess,
voka nú vængstýfðir
yfir soga-
mýri

hér ómar ekkert heims um ból

uppnám ríkir á jörðu en ó-
hagganlegur hangir
meyjaskari yfir
mýrinni

fólk þustir út á nökkvavog æsku minnar
straumurinn stefnir upp
í óbyggt holtið

að ofan berst hvorki lúðrablástur né lofgjörð
þar ríkir skekjandi þögn

ég sest undir stein
með nestiskörfu
í hópi vina

áður en kirkjan í holtinu reis
eftir að ég fermdist

bergði á blóði krists
tekin í fullorðinna tölu

þögnin sem grúfir yfir mýrinni
afhjúpar það sem allir vita
en fæstir vilja sjá

ákall hennar frá örófi alda
í myndir grópað

eins og nú

blóðið sem hríslaðist um legháls þinn
fermingarárið forðum
var náttúrugjöf

brísingamenið
dýrast djásna
bitbein guða
rægt og niðrað
sökkt í sálardjúp

fullorðinsvígsla í raun

í rauðanum lykill að launhelgum
aflvaki á andans þroskabraut

þær vísa gullna veginn
meyjarnar yfir mýrinni, í
gegnum sannsögult hjartað

óttaslegnir hlýða vogabúar ágengu kalli

altarisgangan er endursviðsett
sakramentis neytt við stein í
holti undir himinhvolfi.

7. Sigur

Fyrir neðan visku og náð
syngur völvan, for-
dómalaus, rök-
lausan óð

kairos

opnast gátt í varnarmúr
faðmast stríðandi öfl
tengd órofa böndum.

8. Vegsemd

Huglæg vera í efnislegum líkama
plægir sínar innri lendur
þrautseig, þolinmóð.

Veit að í myrku holdi blunda frjóangar
sem ástríðan ein fær laðað fram
í fyllingu tímans.

Veit að sönn vegsemd á rætur í jarðvegi sjálfsins.

9. Grundvöllur

Dýfi mér í djúpið í
rauðum bol!

Rubedo.

Í vöggu hvílir
friðsæll
angi

í brjósti
svellur
ást

löngun
að leggja
mér að hjarta

rjúfa álög, vekja af
svefni unga
rós.

10. Óðal

Ung varð ég viðskila við mig
loksins fundin

úr ólgu komin á
kyrran sæ

heim.

Í bók sinni Fyrir augliti birtir Úlfar Þormóðsson umsögn um Lífstréð: „Fékk tímaritið stínu. Þar er skáldskapur eftir Hallfríði J. Ragnheiðardóttur, sérfræðing minn í draumheimum. Eftir að hafa lesið hann skrifaði ég henni þetta… Nú sit ég og horfi á hringiðuna, á forsíðu stínu. Í vímu eftir að hafa lesið Lífstréð. Mig sundlar, mildilega, notalega. Hugsa öðruvísi en ég gerði áður en ég las. Þetta er merkilegur skáldskapur. Góður skáldskapur sem þú færir lesendum stínu. Takk. Takk fyrir.

Hamskipti

Örninn

brýst um í fanginu á mér

 

ég finn hjarta hans

hamast í brjósti mínu

neyti allra krafta til að halda honum niðri

 

vil ekki sleppa

aldagamalli

heift

 

þú komst skríðandi, þurs,

þjófur á nóttu

vei!

 

Upp rennur dagur

lít í auga

eldhaf

 

bráðnar í brjósti

dropar úr kviku

hríslast lækir

um limi

 

losa takið

blandast hugir

hefjast til flugs

 

horfi um öxl

sé mynd mína

ganga inn í eldinn

 

fram undan tindfjöll

með veiðivötn blá

yfir himinninn

heiður.

Brunnurinn

Pelíkani stingur hvössu nefi í sitt hvelfda brjóst

við fætur hans ungi, agnarsmár,

með galopinn gogg

 

mynd

grópuð í gull

á sjálfblekjungnum

milli fingra minna

 

á borðinu bíður

óskrifað blað

eftir hjarta-

blóði

 

úr pennanum rennur

rauðbrúnt blek

byttan brunnur í

brjósti mínu

 

aur-

gelmir

hin helga lind

 

ymur í eyrum

 

allt er þar eitt

aur og gull, ormur og háfleygur

haukur, serðir máni sól

vekur völunnar

vísa blóð

 

í hjartanu grætur gullveig

geirum stungin, marg-

brennd norn

 

nálæg, þó órafjarlæg, aldir skilja að

líkami minn hennar harpa í

sælu og í kvöl

 

hún mín þrá og dauðans ótti

á milli okkar gullinn strengur

grafinn djúpt í sál og sögu

                             

hún er mín innri vera, vala

velspá, hædd og hrakin

í viðjar bundin

þráir lausn.

 

Þori ég að

          skera’ á hnútinn,

                    opna dyrnar

                              hleypa’ henni út?

 

Þori ég að

vera

ég?

Integrating Medusa


Perseus with the Head of Medusa
The Metropolitan Museum of Art in New York
artist: Antonio Canova (1757–1822)

What does Medusa mean to you?

Having been ravished by the ocean in a dream, I have come to see her as a sister. This is to acknowledge what she has come to mean for me.

Medusa lost
her maidenhead
by sharing a bridal bed
with Poseidon, ruler of tides.

As he came upon her,
unawares, in
her temple, her
sacred grove, the
sky reflected their union,
his invisible member a black
void, encircled by snakes of blood,
a mystery in the depths of her womb.

Ring of return.

Perseus came to patriarchy’s
rescue, taking the mortal
maiden’s head by
sword.

Her gift, the sun reflected in her
eyes, became his booty, he
claimed it as his image
a master to be
adored.

Desired by god and feared by man,
Medusa is every woman’s shadow
seeking integration

ring after bloody ring

she strives to reunite in consciousness that
which was severed apart, calling for
the sacrifice of her
old self become
petrified.

Unbeknownst to her
divined by her aggressors
she is guardian of the lost vessel
brimming over with poetry, a
healing elixir the whole of
creation yearns for.