Hallfridur.is

Hvernig Wang-Fô var bjargað

eftir Marguerite Yourcenar

óbirt þýðing mín úr Austrænum smásögum

Marguerite Yourcenar: úr Lapham's Quarterly

Gamli málarinn Wang-Fô og lærisveinn hans Ling reikuðu eftir vegum konungsríkisins Han.

              Þeim miðaði hægt, því að Wang-Fô nam staðar á nóttunni til þess að virða fyrir sér stjörnurnar, á daginn til þess að horfa á skordýrin. Farangur þeirra var léttur, því að Wang-Fô hreifst af ímynd hlutanna en ekki af hlutunum sjálfum og honum þótti enginn hlutur í heimi eftirsókarverður til eignar, að undanskildum penslum, krúsum með lakki og bleki frá Kína og ströngum af silki og hríspappír. Þeir voru fátækir, því að Wang-Fô lét myndirnar sínar í skiptum fyrir skammt af hirsikornsúpu og kærði sig kollóttan um peninga. Ling lærisveinn hans, hokinn undan þunga poka sem var úttroðinn af skissum, beygði bak sitt lotningarfullur eins og hann bæri sjálft himinhvolfið, því að þessi poki var í augum Lings fullur af snæviþöktum fjöllum, ám í vorleysingum og ásjónu tunglsins að sumri.

              Ling var ekki í heiminn borinn til að flakka um landið í fylgd gamals manns sem sölsaði undir sig morgunroðann og náði rökkrinu á vald sitt með vélum. Faðir hans var víxlari; móðir hans var einkabarn jaðekaupmanns sem hafði ánafnað henni eigur sínar með formælingum af því að hún var ekki sonur. Ling hafði vaxið upp á heimili þar sem auðurinn útilokaði alla tvísýnu. Þessi vandlega verndaða tilvera hafði gert hann að litlum bógi: hann var hræddur við skordýr, þrumur og ásjónu dauðra. Þegar hann var fimmtán ára fékk faðir hans honum konu; hann valdi hana afar fagra, því að hugmyndin um hamingjuna sem hann færði syni sínum gerði honum léttbærara að hafa sjálfur náð þeim aldri sem þarfnast síns nætursvefns. Eiginkona Lings var fínleg sem reyr, barnsleg sem mjólk, mild sem munnvatn, sölt sem tár. Eftir brúðkaupið dóu foreldrar Lings af einskærri tillitssemi og sonur þeirra varð einn eftir í eirrauðu húsinu ásamt sinni síbrosandi ungu konu og plómutré, sem bar bleik blóm á vori hverju. Ást Lings á þessari hjartahreinu konu mátti líkja við ást á spegli sem aldrei glatar gljáa sínum, á verndargrip sem ávallt heldur mætti sínum. Hann fór á tehús eins og tískan bauð og sýndi hóflegan áhuga á fimleikamönnum og dansmeyjum.

              Og svo var það um síðkvöld að Wang-Fô var borðnautur hans á krá nokkurri. Gamli maðurinn hafði drukkið til þess að öðlast betri tilfinningu fyrir því hvernig mála skyldi drykkjumann; höfuð hans hallaðist út á hlið, eins og hann leitaðist við að mæla fjarlægðina milli handar sinnar og bolla. Hrísgrjónavínið losaði um tunguhaftið á þessum fámælta handverksmanni og Wang talaði þetta kvöld eins og þögnin væri veggur og orðin litir til að þekja hann. Fyrir tilstilli hans kynntist Ling fegurðinni í andlitum drykkjumannanna milduðum af gufunni sem stafaði af heitum drykkjunum, dýrlegum brúnum lit kjötsins sem mislangar eldtungurnar höfðu leikið um, töfrandi rósrauðum blæ vínblettanna sem voru á víð og dreif um dúkana eins og visnuð krónublöð. Skyndilega þeytti vindhviða upp glugganum; regnið steyptist inn í herbergið. Wang-Fô hallaði sér út um gluggann til að láta Ling dást að bláleitri ristu eldingarinnar; Ling varð frá sér numinn og ótti hans við þrumuveðrið hvarf á samri stundu.

              Ling greiddi reikning gamla málarans: þar sem Wang-Fô var bæði án aura og hælis bauð hann honum auðmjúklega gistingu. Þeir fylgdust að heimleiðis; Ling hélt á lukt; bjarminn sem hún gaf frá sér endurspeglaði óvænta elda í pollunum. Þetta kvöld komst Ling að því sér til undrunar að veggirnir á húsinu hans voru ekki rauðir eins og hann hafði haldið, heldur voru þeir á lit eins og appelsína sem er byrjuð að skemmast. Í húsagarðinum tók Wang-Fô eftir fínlegu formi runna sem enginn hafði veitt athygli áður og líkti honum við unga konu með slegið hár til þerris. Í ganginum fylgdist hann hugfanginn með ferðalagi maurs eftir sprungum í veggnum og óbeit Lings á smádýrum hvarf eins og dögg fyrir sólu. Þá skildi Ling að Wang-Fô hafði skenkt honum nýja sál og nýja skynjun og hann vísaði gamla manninum fullur virðingar til sængur í herberginu þar sem faðir hans og móðir höfðu andast.

              Árum saman hafði Wang-Fô dreymt um að mála prinsessu frá fornri tíð leika á lútu undir víðitré. Engin kona var nógu óraunveruleg til þess að geta verið honum fyrirmynd en það gat Ling, af því að hann var ekki kona. Síðan talaði Wang-Fô um að mála ungan prins skjóta af boga við rætur stórs sedrustrés. Enginn samtímamaður var nógu óraunverulegur til þess að geta verið honum fyrirmynd, en Ling lét sjálfa eiginkonu sína sitja fyrir undir plómutrénu í garðinum. Síðan málaði Wang-Fô hana í álfabúningi meðal skýja hnígandi sólar og unga konan grét, því að það var fyrirboði dauða. Eftir að Ling fór að taka myndirnar sem Wang-Fô málaði af henni fram yfir hana sjálfa, visnaði ásjóna hennar eins og blóm sem stendur óvarið gegn heitum vindi og regni sumarsins. Morgun einn fannst hún hengd í greinum hins rósrauða plómutrés: endarnir á treflinum sem þrengdi að hálsi hennar bylgjuðust saman við hárið; hún sýndist ennþá grennri en venulega og ósnortin eins og hinar fögru meyjar sem fornu skáldin lofsungu. Wang-Fô málaði hana í síðasta sinn, því að hann var svo hrifinn af þessum grænleita blæ, sem ásjóna hinna dauðu fær á sig. Ling lærisveinn hans muldi litina og sá starfi krafðist slíkrar einbeitingar að hann gleymdi að fella tár.

              Ling seldi smám saman þræla sína, jaðesteinana og fiskana úr gosbrunninum til að sjá meistara sínum fyrir krúsum með purpuralitu bleki sem kom frá Vesturlöndum. Þegar húsið var orðið tómt yfirgáfu þeir það og Ling lokaði dyrum fortíðarinnar að baki sér. Wang-Fô var orðinn leiður á borg þar sem andlitin opinberuðu honum ekki framar neinn leyndardóm ljótleika eða fegurðar og meistarinn og lærisveinninn reikuðu saman eftir vegum konungsríkisins Han.

              Orðstír þeirra barst á undan þeim í þorpin, að hliðum virkjanna og inn í anddyri musteranna, þar sem áhyggjufullir pílagrímarnir leita skjóls í rökkrinu. Menn sögðu að Wang-Fô byggi yfir mætti til þess að ljá málverkum sínum líf með því að bæta ögn af lit í augun í lokin. Bændurnir komu til þess að grátbiðja hann um að mála fyrir sig varðhund og aðalsmennirnir vildu fá hjá honum myndir af hermönnum. Prestarnir tignuðu Wang-Fô sem vitring; alþýðan óttaðist hann sem galdramann. Wang var himinlifandi yfir þessum skiptu skoðunum sem gerðu honum kleift að nema umhverfis sig svipbrigði þakklætis, ótta og dýrkunar.

              Ling betlaði matar, vakti yfir svefni meistarans og greip tækifærið til þess að nudda á honum fæturna þegar algleymi hrifningarinnar gagntók hann. Í dagrenning, þegar gamli maðurinn var ennþá sofandi, fór hann í leit að látlausu landslagi sem leyndist handan reyrþykkna. Á kvöldin, þegar meistarinn kastaði penslum sínum vonsvikinn til jarðar tíndi hann þá saman. Þegar Wang var dapur og talaði um háan aldur sinn, benti Ling honum brosandi á sterklegan stofn gamallar eikar; þegar Wang var kátur og sagði kímnisögur, lést Ling auðmjúklega hlusta  á hann.

              Dag nokkurn, um sólsetursbil, komu þeir í úthverfi keisaraborgarinnar og Ling leitaði að gistihúsi þar sem Wang-Fô gæti hvílst um nóttina. Gamli maðurinn vafði sig inn í tötra og Ling lagðist upp að honum til að hlýja honum, því að þetta var rétt í vorbyrjun og það var ennþá frost í moldargólfinu. Þegar dagaði glumdu þung skref í göngum gistihússins; það gat að heyra hræðslulegt hvísl gistihússeigandans og skipanir hrópaðar með grófu orðbragði. Það fór hrollur um Ling þegar hann minntist þess að kvöldið áður hafði hann stolið hrísgrjónaköku handa meistara sínum. Þar sem hann efaðist ekki um að nú ætti að taka sig höndum, velti hann fyrir sér hver myndi hjálpa Wang-Fô að vaða yfir næsta fljót á degi komanda.

              Hermennirnir komu inn með ljósker. Birtan sem sytraði í gegnum marglitan pappírinn varpaði ýmist rauðum eða bláum bjarma á leðurhjálmana þeirra. Bogastrengir sveifluðust um axlir þeirra og hinir grimmustu ráku fyrirvaralaust upp öskur án sýnilegrar ástæðu. Þeir tóku harkalega um hnakka Wang-Fôs, sem gat ekki stillt sig um að benda á að liturinn á ermunum þeirra færi ekki vel við litinn á skikkjunum.

              Studdur af lærisveini sínum fylgdi Wang-Fô hermönnunum hnjótandi eftir ójöfnum vegunum. Vegfarendur, sem hópast höfðu saman, hæddust að glæpamönnunum tveim, sem þeir töldu víst að verið væri að leiða á höggstokkinn. Hermennirnir svöruðu öllum spurningum Wangs með ógurlegri grettu. Hann verkjaði í hendurnar sem voru reyrðar saman. Örvæntingarfullur horfði Ling brosandi á meistara sinn og sýndi þannig á viðkvæmnislegri hátt en með tárum að honum var grátur í hug.

              Þeir komu að dyrum keisarahallarinnar. Fjólubláir veggir hennar teygðu sig til himins eins og rökkurbreiða um hábjartan daginn. Hermennirnir létu Wang-Fô fara gegnum endalausa sali, ferkantaða eða hringlaga og táknaði lögun þeirra ýmist árstíðirnar, höfuðáttirnar, karllæga eða kvenlæga náttúru, langlífi eða forréttindi valdsins. Hurðirnar snerust á ási og gáfu frá sér ákveðinn tón; var fyrirkomulag þeirra með þeim hætti, að farið var í gegnum allan tónstigann þegar gengið var eftir höllinni endilangri frá austri til vesturs. Allt beindist að því að gefa til kynna ofurmannlegt vald og kænsku og það mátti skynja að hinar minnstu skipanir sem væru gefnar á þessum stað, hlytu að vera óhagganlegar og hræðilegar eins og viska forfeðranna. Að lokum varð loftið þynnra; þögnin varð svo djúp að jafnvel pyntaður maður hefði ekki þorað að æpa.

              Þetta var salur án veggja, loftið borið uppi af þykkum súlum úr bláum steini. Handan við marmarsúlurnar breiddi sig garður og sérhvert blóm sem átti athvarf í lundum hans var af sjaldgæfri tegund, aðfluttri frjá fjarlægum löndum. En ekkert þeirra ilmaði, því að menn óttuðust að góð anganin kynni að trufla hugleiðslu hins himneska dreka. Af virðingu fyrir þögninni sem hugsanir hans hrærðust í, hafði engum fugli verið hleypt inn í salinn, jafnvel býflugurnar höfðu verið reknar út. Geysihár veggur aðskildi garðinn frá umheiminum til þess að vindurinn sem blæs um hundshræ og líkin á vígvellinum næði ekki að leika um ermi keisarans.

              Hinn himneski herra sat í hásæti úr jaðesteini og hendur hans voru hrukóttar eins og á öldungi þó hann væri ekki nema rétt liðlega tvítugur. Skikkjan hans var blá til að tákna veturinn, græn til að minna á vorið. Andlit hans var fagurt en svipbrigðalaust eins og spegill sem komið hefur verið fyrir of hátt og endurspeglar aðeins stjörnurnar og óhagganlegan himininn. Hann hafði sér á hægri hönd ráðherra hinna fullkomnu unaðsemda, til vistri ráðgjafa réttlátra pyntinga. Þar eð hirðmenn hans, sem stóðu í röðum meðfram súlunum, lögðu við eyrun til þess að nema hvert orð sem bærist af vörum hans, hafði hann tamið sér að tala ávallt lágum rómi.

              –  Himneski dreki, sagði Wang-Fô og laut honum í virðingarskyni, ég er gamall maður, ég er fátækur, ég er veill. Þú ert eins og sumarið; ég er eins og veturinn. Þú átt tíu þúsund líf; ég á bara eitt, og því fer senn að ljúka. Hvað hef ég gert þér? Hendur mínar, sem aldrei hafa unnið þér mein, hafa verið bundnar.

              – Þú spyrð mig hvað þú hafir gert mér, gamli Wang-Fô? sagði keisarinn.

Rödd hans var svo hljómfögur að hún vakti  löngun til að gráta. Hann lyfti hægri hendinni, sem vegna endurskins frá jaðehellum hallargólfsins sýndist sægræn eins og djúpsjávarjurt, og Wang-Fô, gagntekinn af lengd grannra fingranna, reyndi að rifja upp fyrir sér hvort hann hefði ef til vill málað lélega mynd af keisaranum eða forfeðrum hans og ætti skilið að deyja fyrir. En það var þó heldur ólíklegt, því að fram til þessa hafði Wang-Fô lítið verið við hirð keisaranna, hann hafði meira dálæti á kofum bændanna eða, þegar hann var í borgum, hverfum gleðikvennanna og kránum meðfram árbökkunum þar sem burðarkarlarnir körpuðu sín á milli.

             – Þú spyrð mig hvað þú hafir gert mér gamli Wang-Fô? endurtók keisarinn og sveigði grannan hálsinn í áttina að gamla manninum sem hlýddi á hann. Ég mun segja þér það. En þar sem eitur annarra nær ekki að smjúga inn í okkur nema gegnum opin okkar níu, þá verð ég, til þess að gera þér skiljanlegt hverja sök þú hefur unnið, að leiða þig eftir stígum minninga minna og segja þér gjörla frá lífi mínu. Faðir minn hafði komið fyrir safni mynda eftir þig í leyndasta herbergi hallarinnar, því hann leit svo á að hlífa bæri persónunum í málverkunum við að koma fyrir augu almúgans þar eð þær gætu ekki litið undan í návist hans. Það var í þessum vistarverum sem ég ólst upp, gamli Wang-Fô, því að umhverfis mig hafði verið skipulögð einangrun svo að mér mætti auðnast að vaxa upp í einsemd. Til þess að hlífa hreinleika mínum við aurslettum mannssálarinnar var  hinni úfnu öldu framtíðarþegna minna haldið í fjarlægð og það mátti enginn ganga fyrir dyrnar á herberginu mínu af ótta við að skuggi þess manns eða þeirrar konu teygði sig alla leið til mín. Þeir fáu gömlu þjónar sem mér höfðu verið fengnir létu sjá sig eins lítið og unnt var; tíminn virtist ganga í hringi; litirnir í myndunum þínum lifnuðu að morgni og dofnuðu að kveldi. Á nóttunni, þegar ég gat ekki sofið horfði ég á þær, og í næstum tíu ár horfði ég á þær allar nætur. Á daginn, þegar ég sat á teppi sem ég kunni munstrið á utan að og hvíldi tóma lófana á gulum silkiklæddum hnjánum, dreymdi mig um þá gleði sem framtíðin bæri í skauti sér. Ég gerði mér heiminn í hugarlund, landið Han í miðju, líkt hinni tilbreytingarsnauðu, íhvolfu sléttu handarinnar þar sem örlagalínur hinna fimm fljóta grafa sér braut. Allt í kring sjórinn, þar sem skrímslin verða til, og lengra burtu fjöllin sem bera uppi himinhvolfið. Og til þess að geta gert mér allt þetta í hugarlund studdist ég við myndirnar þínar. Þú lést mig halda að sjórinn væri jafn hrífandi og víðáttumikil vatnsbreiðan í verkunum þínum, svo blár, að steinn sem félli í hann, hlyti að breytast í safír; að konurnar opnuðust og lokuðust eins og blóm, líkt og verurnar sem berast eins og feykt af vindinum eftir trjágöngum garðanna þinna og að ungu grannvöxnu hermennirnir, sem standa vörð í landamæravirkjunum, væru sjálfir örvar sem gætu smogið í gegnum hjarta manns. Sextán ára sá ég dyrnar sem höfðu lokað mig frá heiminum ljúkast upp: ég fór út á svalir hallarinnar til þess að horfa á skýin, en þau voru ekki eins falleg og í rökkurmyndunum þínum. Ég bað um burðarstólinn minn: ekki hafði mig órað fyrir aurnum og grjótinu á vegunum sem ég hristist eftir um héruð keisardæmisins, án þess að finna garðana þína með gnægð kvenna sem líkjast ljósflugum, kvennanna þinna sem hafa líkama sem eru sjálfir garðar. Grýttar fjörurnar hafa vakið hjá mér óbeit á hafinu; blóð hinna pyntuðu er ekki eins rautt og granateplin í myndunum þínum; óværan í þorpunum hindrar mig í að sjá fegurð hrísgrjónaakranna; mér stendur stuggur af holdi lifandi kvenna, eins og það væri dautt kjöt hangandi á krókum slátrarans, og mér mér býður við grófum hlátri hermanna minna. Þú laugst að mér, Wang-Fô, gamli svikari: heimurinn er ekki annað en hrúga af ósamstæðum blettum sem hefur verið slett út í tómið af geggjuðum málara og sífellt mást út af tárum okkar. Konugsríkið Han er ekki fegurst konungsríkja og ég er ekki keisarinn. Það er ekki þess virði að ríkja yfir neinu öðru keisaradæmi en því sem þú átt aðgang að, gamli Wang, eftir vegi hinna þúsund kúrfa og tíu þúsund lita. Þú einn ríkir í friði yfir fjöllum þöktum snæ sem getur ekki bráðnað og breiðum af narsissum sem geta ekki dáið. Og það er þess vegna, Wang-Fô, sem ég hef leitast við að finna þér viðeigandi refsingu, þér sem með fjölkynngi þinni hefur vakið hjá mér óbeit á öllu sem ég á og þrá eftir því sem ég mun aldrei eignast. Og til þess að loka þig inni í eina svartholinu sem þú átt ekki afturkvæmt úr, hef ég ákveðið að láta brenna úr þér augun, vegna þess að augu þín, Wang-Fô, eru töfradyrnar tvær sem ljúka upp fyrir þér konungdæmi þínu. Og þar eð hendur þínar eru vegirnir tveir, sem með tíu hliðargötum vísa þér leiðina að innsta kjarna ríkis þíns, hef ég ákveðið að láta höggva af þér hendurnar. Hefurðu skilið mig, gamli Wang-Fô?

              Þegar lærisveinninn Ling heyrði þennan dóm upp kveðinn, þreif hann skörðóttan hníf úr belti sínu og stökk á keisarann. Tveir verðir gripu hann. Sonur himinsins brosti og bætti við um leið og hann andvarpaði:

              – Og ég hata þig líka, gamli Wang-Fô, vegna þess að þú hefur kunnað að öðlast ást annarra. Drepið þennan hund.

              Ling tók stökk fram á við til að forða því að blóð hans setti blett á skikkju lærimeistarans. Einn hermannanna lyfti sverði sínu og höfuðið á Ling losnaði frá hálsi við hnakkagrófina líkt og afskorið blóm. Þjónarnir báru jarðneskar leifar hans á brott og fullur örvæntingar dáðist Wang-Fô að fallega rauða blettinum sem blóð lærisveins hans myndaði á grænum steinflísunum.

              Keisarinn gaf merki og tveir geldingar þerruðu augu Wang-Fôs.

              – Hlustaðu á mig, gamli Wang-Fô, sagði keisarinn, og þurrkaðu burt tárin, því að nú er ekki tímabært að gráta. Augu þín verða að vera skýr, tár þín mega ekki bregða skýi fyrir þá skammvinnu birtu sem þau eiga eftir að njóta. Því það er ekki einungis af hefndarhug sem ég óska eftir dauða þínum; það er ekki bara af grimmd sem ég vil sjá þig þjást. Ég hef aðrar áætlanir á prjónunum, gamli Wang-Fô. Á meðal þeirra verka þinna sem eru í minni eigu er ein gullfalleg mynd þar sem fjöllin, árósarnir og sjórinn endurspeglast, að vísu í óendanlega smækkaðri mynd, en óvefengjanlegri en sjálfar fyrirmyndirnar, líkt og verur sem spegla sig í kúptu gleri hnattar. En þessari mynd er ólokið, Wang-Fô, og meistaraverk þitt er á frumstigi. Vafalaust hefurðu, þar sem þú sast og málaðir í afskekktum dal, komið auga á fugl sem flaug hjá, eða barn sem elti þennan fugl. Og goggur fuglsins eða kinnar barnsins hafa fengið þig til að gleyma bláum brám báranna. Þú hefur ekki lokið við kögrið á möttli sjávarins, né hár þörunganna á klettunum. Wang-Fô, ég vil að þú helgir þær ljóssins stundir sem þú átt ólifaðar því að ljúka við þessa mynd sem mun geyma síðustu leyndardóma langrar lífsreynslu þinnar. Það er engum vafa undirorpið að hendur þínar, sem svo brátt verða afhöggnar, munu skjálfa á silkinu og óendanleikinn smjúga inn í verk þitt um þá ógæfuþrungnu pensildrætti. Það er heldur engum vafa undirorpið að augu þín, sem svo brátt verða blinduð, munu uppgötva tengsl við yrkisefnið á mörkum mannlegrar skynjunar. Slík er áætlun mín, gamli Wang-Fô, og ég get neytt þig til að framkvæma hana. Ef þú neitar, læt ég brenna öll verk þín áður en þú verður blindaður og væri þá líkt á með þér komið og föður sem væri búið að svipta voninni um afkomendur vegna þess að allir synir hans hefðu verið drepnir. Raunverulega geturðu fullt eins litið svo á að þessi síðasta skipun sé einungis sprottin af góðmennsku minni, því að ég veit að silkið er eina ástmeyjan sem þú hefur nokkru sinni sýnt blíðuhót. Að færa þér pensla, liti og blek til að auðga síðustu stundir þínar, jafnast því á við að veita manni, sem bíður lífláts, gleðikonu að ölmusu.

              Keisarinn lyfti litla fingri og tveir geldingar komu lotningarfullir með ófullgerða málverkið þar sem Wang-Fô hafði dregið upp mynd hafs og himins. Wang-Fô þerraði tár sín og brosti, því að þessi litla skissa minnti hann á æsku hans. Þarna bar allt vitni hreinleika sálar sem Wang-Fô gat ekki lengur státað af en það vantaði samt eitthvað, því að þegar Wang hafði málað þessa mynd hafði hann ekki virt fyrir sér  nógu mörg fjöll, né heldur nógu mikið af klettum baða nektar lendar sínar í sænum, og hann hafði ekki drukkið í sig nógu mikið af dapurleika rökkursins. Wang-Fô valdi einn af penslunum sem þræll nokkur bar honum og tók að breiða bláan lit af miklu örlæti yfir hið ófullgerða haf. Geldingur sem sat á hækjum sínum við fætur hans muldi litina; hann var svo klaufalegur við þennan starfa að Wang-Fô saknaði nú Lings lærisveins síns meir en nokkru sinni fyrr.

              Wang byrjaði á að brydda með rósbleikum blæ skýjavæng sem hvíldi á fjalli. Síðan bætti hann litlum gárum á hafflötinn, en þær virtust einungis auka á rósemi vatnsins. Jaðehellurnar gerðust undarlega blautar en Wang-Fô var altekinn af verki sínu og tók ekkert eftir því að hann sat og málaði í vatni.

              Veigalítill báturinn hafði aukist að vöxtum undir pensli meistarans og fyllti nú út í forgrunn silkistrangans. Taktföst áratök bárust skyndilega úr fjarska, hröð og lífleg eins og vængjablak. Hljóðið nálgaðist, fyllti mjúklega út í salinn, hljóðnaði síðan og droparnir titruðu, kyrrir, hangandi á árablöðum ræðarans. Rauðglóandi járnið, sem ætlað hafði verið augum Wang-Fôs, var fyrir löngu kólnað á eldi böðulsins. Hirðmennirnir stóðu nú í vatni upp að öxlum og tylltu sér á tær, því að þeim var samkvæmt hirðsiðum fyrirboðið að hreyfa sig úr stað. Lokst náði vatnið upp að hinu keisaralega hjarta. Þögnin var svo algjör að heyra hefði mátt tár falla.

              Það var ekki um að villast, þetta var Ling. Hann var í gömlu hversdagsskikkjunni sinni og rifan á hægri erminni, sem honum hafði ekki gefist tóm til að gera við um morguninn áður en hermennina bar að garði, var enn á sínum stað. En hann var með óvenjulegan rauðan trefil um hálsinn.

              Wang-Fô ávarpaði hann blíðlega án þess að líta upp frá málverkinu:

              – Ég hélt þú værir dáinn.

              – Á meðan þú ert ennþá lifandi, sagði Ling fullur lotningar,  hvernig hefði ég átt að geta dáið?

              Og hann hjálpaði meistaranum um borð í bátinn. Jaðeloftið endurspeglaðist í vatninu þannig að Ling virtist sigla inni í helli. Hárfléttur hirðmannanna sem nú voru komnir á kaf bylgjuðust á vatnsborðinu eins og slöngur og fölt andlit keisarins flaut eins og lótusblóm.

              – Horfðu á, lærisveinn minn, sagði Wang-Fô þunglyndislega. Þessir ógæfusömu menn munu farast, ef það hefur þá ekki þegar gerst. Mig grunaði ekki að það væri nóg vatn í sjónum til að drekkja keisara. Hvað eigum við að gera?

              – Óttastu ekki, meistari, muldraði lærisveinninn. Þeir munu brátt standa á þurru og ekki einu sinni muna eftir því að svo mikið sem ermin þeirra hafi vöknað. Keisarinn einn mun geyma í hjarta sér vott af sjávarseltu. Þetta fólk er ekki skapað til að farast inni í málverki.

              Og hann bætti við:

              – Sjórinn er fagur, vindurinn notalegur, sjávarfuglarnir búa sér hreiður. Meistari minn, við skulum halda til landsins sem liggur handan hafsins.

              – Förum, sagði gamli málarinn.

Wang-Fô greip um stjórnvölinn og Ling lagðist á árar. Árahljóðið fyllti út í salinn á ný, ákveðið og reglubundið eins og hjartsláttur. Vatnsborðið lækkaði smám saman umhverfis stóra þverhnípta klettana sem aftur urðu að súlum. Brátt glitraði aðeins einstaka pollur þar sem dældir voru í jaðególfið. Klæði hirðmannanna voru þurr, en á skikkjukögri keisarans voru ennþá nokkrir löðurhnoðrar.

              Silkistranginn, sem Wang-Fô hafði lokið við, lá á lágu borðinu. Bátur fyllti út í forgrunninn. Hann fjarlægðist smám saman og mjótt kjölfarið máðist á kyrrum sjónum. Nú þegar var ekki unnt að greina andlit mannanna tveggja sem sátu í bátnum. En rauður trefill Lings sást þó enn og skegg Wang-Fôs blakti í vindinum.

              Áraglamið minnkaði, hvarf síðan á vit fjarlægðarinnar. Keisarinn hallaði sér fram á við, bar hönd fyrir augu sér og horfði á bát Wangs fjarlægjast en hann var nú einungis ógreinilegur depill í fölu rökkrinu. Gullin móða sté upp og breiddi sig yfir sæinn. Að lokum sveigði báturinn fyrir klett sem lokaði minni úthafsins; skuggi sjávarhamars féll á hann; kjölfarið máðist af auðum haffletinum og málarinn Wang-Fô og lærisveinn hans Ling hurfu að eilífu út á þetta jaðebláa haf sem Wang-Fô var að enda við að skapa.

um Marguerite Yourcenar

Þýðingin á sögunni um Wang-Fô og lærisvein hans Ling var hluti af BA-verkefni í frönsku árið 1985. Tvær aðrar sögur úr sama safni, Síðasta ást Genghis prins og Maríukirkja svalanna, birtust í Tímariti máls og menningar (1985) og Teningi (1986). 1988 voru fjórar sögur til viðbótar teknar til upplestrar á Rás 1. Flutti ég þá formála og læt glefsur úr honum fylgja hér á eftir.

Á einum stað  í sögunni segir að Ling hafi áttað sig á að Wang-Fô hafði skenkt honum nýja sál og nýja skynjun. Þegar ég set söguna inn á vefsíðuna mína nú tæpum fjórum áratugum eftir að ég gaf mig á vald verkum Marguerite Yourcenar, átta ég mig á hve áhrif hennar ristu djúp í vitund minni og hugsun. Í ársbyrjun 1990 samdi ég ljóð út af draumi sem ég kallaði Vængi (sjá Ljóð) og sýnist bera þess merki að töfrarnir í málverki gamla meistarans hafi orkað sterkt á mig.

Marguerite Yourcenar fæddist í Brussel þ. 8. júní 1903. Móðir hennar, belgísk að uppruna, lést þegar telpan var tíu daga gömul og ólst hún upp hjá föður sínum, frönskum heldri manni, í heimalandi hans. Eins og títt var um heldrimannabörn á þessum tíma, gekk Marguerite Yourcenar ekki í skóla, heldur naut tilsagnar einkakennara á heimili sínu. En drýgstan þátt mun faðirinn, Michel de Crayencour, hafa átt í mótun stúlkunnar. Hún lýsir honum þannig: „Faðir minn var óendanlega frjáls maður, ef til vill frjálsari en nokkur annar sem ég hef kynnst. Hann gerði nákvæmlega það sem hann vildi og hafði löngun til. Allt annað lét hann lönd og leið. Hann var fremur félagi en faðir, félagi sem rökræddi við mig gríska heimspeki eða Shakespeare á löngum gönguferðum, eða hann sagði mér frá minningum sínum og sér eldri manna og opnaði mér þannig sýn til tveggja kynslóða á undan minni, vinur sem skoðaði með mér kirkjur og fornmenjar eða ræddi við mig um dýr, hesta og hunda.“ Hann byrjaði að lesa með henni latínu þegar hún var tíu ára og grísku tveimur árum síðar. Ekki féllu allar kennsluaðferðir föðurins í jafn góðan jarðveg. Sumarið 1914 voru þau stödd á Englandi, höfðu flúið Norður Frakkland sakir stríðsins, og hugðist faðirinn nú kenna telpunni ensku. En bókin sem hann hafði valið til kennslunnar reyndist vera Handbók Markúsar Aurelíusar í enskri þýðingu – skemmtilegur fyrirboði að vísu, þar

eð þessi rómverski keisari átti eftir að koma við sögu í hennar síðar – en auðvitað allt of tyrfið rit fyrir ellefu ára barn sem ekki kunni orð í ensku, enda flaug Markús Aurelíus út um gluggann eftir tvær kennslustundir. Þetta sama sumar stóð Marguerite Yourcenar í fyrsta sinn frammi fyrir Hadríanusi á British Musem, bronsstyttu sem veidd hafði verið upp úr Thames-á öldinni áður af keisaranum sem síðar átti eftir að lifa og hrærast í vitund hennar um mjög langa hríð.

 Faðir hennar lést þegar hún var tuttugu og fimm ára. Hann var síðar gerður ódauðlegur í Skjalasafni Norðursýslu sem er annað bindi minningabóka Yourcenar og kom út 1977. Frá blautu barnsbeini hafði hún verið nær stöðugt á faraldsfæti með föður sínum og eftir fráfall hans hélt hún uppteknum hætti, dvaldist langdvölum á Ítalíu, í Sviss, Austurríki og Grikklandi. Til Bandaríkjanna hélt hún í byrjun síðari heimsstyrjaldar og hugðist dvelja þar vetrarlangt en ílentist og bjó þar alla tíð síðan, á eynni Monts-Déserts úti fyrir ströndum Maine-fylkis.

Fyrsta bók hennar kom út þegar hún var átján ára, ljóðabálkur byggður á goðsögninni um Íkarus. Goðsögnin átti í henni sterk ítök. „Hún var,“ svo notuð séu hennar eigin orð, „leið til að nálgast hið algilda. Til að reyna að draga fram hið varanlega í manninum, eða svo notað sé stórt orð, hið eilífa.“ Kemur þetta ljósast fram í verkum hennar frá því fyrir stríð. Í smásagnasafninu sem hér verður lesið úr, Austrænum smásögum frá 1938, endurspeglast glöggt þetta dálæti höfundar á goðsögninni. Þar fyrir utan hneigðist hún almennt til að finna yrkisefnum sínum stað í fortíðinni… Fjarlægð í tíma var að hennar mati nauðsynleg til að sjá viðfangsefnið í sem skýrustu ljósi.

Þótt yrkisefnin hafi verið stór í sniðum, bar Marguerite Yourcenar ekki síður ótakmarkaða virðingu fyrir þessu smálega sem okkur er svo gjarnt að kalla hversdaglegt í daglegu lífi. Hún hnoðaði sitt brauð og fóðraði fugla og íkorna umhverfisins – en dýrin áttu í henni einlægan bandamann, eins og reyndar lífið allt, og hún var óþreytandi við að beita sér í þágu þess hvarvetna sem henni þótti það fótum troðið. Flestum finnst okkur víst að sleif sé sleif, en þannig staðnæmdist hún aldrei við yfirborð hlutanna. Tæki hún sér trésleif í hönd, leiddi hún hugann óðar að handverksmanninum sem hafði teglt hana, að trénu sem hún var gerð af, að náttúrunni. Allt var hluti af heild og hvað öðru tengt.

Yourcenar fór ótrauð sínar eigin leiðir. Bókmenntastefnur og tískur lét hún sem vind um eyru þjóta, og víst er að ekki skrifaði hún með vinsældir heimsins í huga. Hún hafði að vísu eignast sinn dygga hóp aðdáenda fyrir stríð, en það var ekki fyrr en með Endurminningum Hadríanusar sem hún hlaut almenna hylli. Þegar hún var innt eftir því hvort hún hefði búist við að sú bók fengi jafn góðar viðtökur og raun varð á, svaraði hún því til að hún hefði ekki vænst þess að tíu manns læsu bókina. „Ég vænti þess aldrei,“ sagði hún, „að fólk lesi bækurnar mínar, af þeirri einföldu ástæðu að ég hef það ekki á tilfinningunni að þorri fólks hafi mikinn áhuga á því sem ég er að fást við.“

Þann 6. mars 1980 var Yourcenar kosin í Frönsku akademíuna og var hún fyrst kvenna til að taka sæti í þessari þrjú hundruð og fimmtíu ára gömlu stofnun. Hún andaðist 17. desember 1987, áttatíu og fjögurra ára að aldri.

 Mig langar til að enda þessa stuttu kynningu á hennar eigin hugleiðingabrotum um dauðann sem er að finna í samtölum sem hún átti við bókmenntagagnrýnandann Matthieu Galey og út koma á bók árið 1980 undir heitinu Með opnum augum: „Fyrir mitt leyti, held ég að ég myndi kjósa að deyja með fullri meðvitund, úr sjúkdómi sem þróaðist nógu hægt til að dauðinn tæki sér smátt og smátt bólfestu í mér og næði að þróast þar til fullnustu […]. Til að fara ekki á mis við þessa síðustu reynslu, andlátið. Hadríanus talar um að deyja með opnum augum. Og það er í þeim anda sem ég lét Zénon (söguhetju L´Oeuvre au noir) upplifa dauða sinn. Mér finnst það smánarlegt að ræna nokkurn mann dauða sínum. […]. Ég finn aftur á móti til væntumþykju og virðingar í garð þess fólks sem undirbýr dauða sinn.”

Og hún veltir fyrir sér hvað hún myndi vilja sjá fyrir sér á hinstu stundu og skal hér fátt eitt talið: “Kannski goðaliljurnar á Mont Noir eða fjólurnar í Connecticut að vori; appelsínurnar sem faðir minn festi svo kænlega á greinarnar í garði suður við Miðjarðarhaf; kirkjugarð í Sviss þar sem allt er að hruni komið undir rósum; annan snævi þaktan milli hvítra birkitrjáa, og enn aðra sem ég kann ekki einu sinni að staðsetja, enda skiptir það engu þegar allt kemur til alls.

Rómantísk mynd úr garði Marguerite Yourcenar
tekin í pílagrímsför til Monts-Déserts