Hallfridur.is

Skírnarherbergið

Þau nema staðar fyrir framan Bartólómeusarkirkjuna á rölti sínu upp Park Avenue. Hún dáist að mjúkum línum hennar og fínlegu mósaík-mynstrinu á kúplinum. “Svo massíf og jarðræn mitt í þessu óskáldlega umhverfi ferkantaðra turnhýsa,” hugsar hún. “Eins og dýr sem liggur fram á lappir sínar í lífvana skógi!” Af einhverjum ástæðum kemur henni sfinxinn í hug. Hún brosir góðlátlega að sjálfri sér og býst til að snúa þessum fjarstæðukenndu hugdettum til síns heima, en þá rifjast upp fyrir henni að í Egyptalandi stóðu sfinxar vörð við hlið helgra staða… 

            “Eigum við að líta inn?”

            Uppástunga hans kemur henni á óvart. Venjulega var það hún sem átti frumkvæði að slíkum heimsóknum. Hún hikar. Morgunsólin hellir geislum yfir iðandi mannlífið og hana óar hálfpartinn við að fara inn í dimmt guðshúsið. En þá man hún eftir draumnum…

            Í svölu anddyrinu skrafa tvær afgreiðslustúlkur saman í lágum hljóðum. Inni fyrir gengur karlmaður rösklega til verks, færir til stóla og undirbýr daginn. Ein árrisul sála situr kyrrlát á bekk. Hún staldrar við og virðir fyrir sér steinda gluggana sem glóa í skuggsýnni kirkjunni. Svo gengur hún rakleitt að lítilli kapellu nær altari sem kölluð er skírnarherbergi. Hún finnur eftirvæntinguna byggjast upp í sér, líkt og hún óttist að þetta sé allt saman misskilningur. Það er því ekki laust við að henni létti þegar hún stígur yfir þröskuldinn og sér að myndin er þarna á sínum stað, síðasta kvöldmáltíðin, höggvin í ljósan stein. Hún fær sér sæti og reynir að lifa sig inn í martröðina sem

Freyja

Skírnarherbergið í St. Bart's, NY.
Ljósm. J. I. Herbertsson.

sótti að henni nóttina sem hún birtist henni í draumi:

Hún var inni í St. Bart’s og virti fyrir sér síðustu kvöldmáltíðina sem var byrjuð að molna. Sjálf var kirkjan auðnuleg, líkt og fokhelt hús. Píanó stóð á miðju gólfi. Annað var þar ekki að sjá fyrir utan spýtur og drasl. Maður kom inn, illúðlegur á svip, með úfið dökkt hár. Hann var tötralegur til fara, í ljósum hnésíðum kyrtli og sandölum sem voru reimaðir upp á leggina. Utangarðsmaður. Hann þreif formálalaust í hana og ætlaði að draga hana út með sér. Hún spyrnti á móti af öllum kröftum… og þá áttaði hún sig á að hún var í samskonar sandölum og hann. Þetta voru átök upp á líf og dauða. Hún var komin í gólfið og ríghélt sér í píanófótinn

Þótt hún hefði komið í Bartólómeusarkirkjuna þegar hana dreymdi drauminn, mundi hún ekki eftir að hafa séð þessa mynd. Þegar hún síðar gerði sér ferð þangað með drauminn í huga, fannst henni nánast ótrúlegt að myndin skyldi raunverulega vera þar. Hún hafði greinilega séð hana án þess að sjá hana.

            Í tuttugu ár hefur þessi ráðgáta blundað innra með henni: Hvaða erindi átti þessi mynd inn í drauminn hennar? Og hver var þessi úfni, dökkleiti óvinur? Þótt við fyrstu sýn mætti virðast sem hann væri djöfull kristinnar kirkju, hafði hún verið þess fullviss í draumnum að hann væri utangarðsmaður. Og þarna vildi hann draga hana út úr guðshúsinu sem sýnilega var verið að gera róttækar umbætur á.

             Í sjónhending sér hún hve sanna mynd draumurinn dró upp af togstreitunni á milli vaxandi meðvitundar hennar um nauðsyn þess að leggja að baki úrelta og ófrjóa heimsmynd og óttann við að yfirgefa öryggið í hinu kunnuglega. “Hve óralangt er síðan þessum fræjum var sáð!” hugsar hún.

            Í þetta sinn grandskoðar hún þessa litlu kapellu sem undir yfirbragði friðsældar og helgi geymir sögu svika, ofbeldis og kúgunar skráða í marmara og stein. Á miðju gólfi stendur engill og heldur á stórri marmaraskál í formi hörpudisks. Hann er niðurlútur, líkt og hann forðist að lyfta augum upp á hina helgu mynd sem hann stendur frammi fyrir.

Freyja

Skírnarherbergið í St. Bart's, NY.
Ljósm. J. I. Herbertsson.

Hörpudiskurinn vekur upp í henni djúpar kenndir og kallar fram í huga hennar málverk Botticellis, Fæðing Venusar, sem sýnir gyðjuna rísa upp af hörpuskel og leitast við að hylja nekt sína fyrir ágengu augliti áhorfandans. Auðmýktin í fasi engilsins beinir athygli hennar að rómaðri hlédrægni Venusar hjá Botticelli. “Eins og feimin ungmeyja,” hugsar hún. Og það rennur upp fyrir henni hve blygðun gyðjunnar er í hrópandi mótsögn við máttugt hlutverk hennar.

Fæðing Venusar eftir Sandro Botticelli (c. 1486). Uffizi-safnið, Flórens.

Gat það verið tilviljun að Jesú skyldi fórnað á degi Venusar eins og Rómverjar nefndu sinn föstudag? Hún sér nú það sem hún hafði ekki áttað sig á þegar hana dreymdi drauminn, að innri leyndardómur konunnar var sviðsettur á Golgötuhæð og upphafinn í karllægt táknmál. Blæðandi sköp urðu sár á síðu karls og út af þeirri rifu fæddist kirkjan sem brúður Krists. Hún lítur í kringum sig. Það er sem henni opnist sýn inn í þögnina sem rís upp af fjarveru gyðjunnar í þessum helgidómi.

            Hún beinir athygli sinni aftur að lágmyndinni og minnist fermingarathafnarinnar þegar hún tók í fyrsta sinn þátt í hinu kirkjulega borðhaldi. Kjólklæddur prestur lagði bragðlausa oblátu á tungu hennar sem tákn fyrir líkama hans sem hafði fórnað sér fyrir syndir hennar og bar bikar með blóði hans að vörum hennar. Þar með var innsigluð upptaka hennar í fullorðinna tölu. Hún var þrettán ára. Og þrettán ára var hún þegar blóð draup úr skauti hennar í fyrsta sinn. Blóð sem var hjúpað vandræðalegri þögn. Þrettán. Óhappatala hermd upp á vísindakonuna sem var höfð útundan í ævintýrinu um Þyrnirósu. Boðflennu sem boðaði dauða dyggðugrar ungmeyjar sem allir unnu hugástum.

            Hún finnur andófið stíga upp í sér. Myndinni af hinni blygðunarfullu Venus skýtur aftur upp í huga hennar og hún áttar sig á að heimsmyndin sem ól síðustu máltíðina af sér er að leysast upp í undirvitund hennar. Hér í skírnarherberginu stendur engill með hörpuskel í miðju rýmisins en í draumnum hennar slagharpa. Músík. Óðurinn í verunni. Við hann er þrá hennar bundin, sáluhjálp hennar komin undir samstillingu við hann, sem var, er og verður. Ekki undir fyrirheitinu um eilíft líf fyrir tilverknað villimannlegrar krossfestingarinnar sem liggur í loftinu á molnandi lágmyndinni. Draumurinn sýnir henni að hennar innri helgidómur harmónerar ekki við þann sem Biblían og kristin kirkja hafa úthlutað henni. Hennar helgidómur er í endursköpun.

            Hún gengur út frá því að engillinn með hörpuskelina sé skírnarfontur, enda á miðju gólfi hér í skírnarherberginu. Hörpuskelin sem bar Venus á land var táknrænt móðurlíf, myndgerving hafsins sem ól hana og sá henni borgið í höfn. Hún er ímynd óþrjótandi uppsprettu ástar og frjósemi sem nærir rætur sköpunarverksins. Hún er harpa hafsins, músíkin sem býr í sérhverjum einstaklingi og hann þráir að tileinka sér. Hún er hennar eigið hljóðfall sem uppeldi og innræting hafa haft að engu væri það úr takti við viðtekinn sannleika og valdboð ríkjandi menningar.

            Togstreitan í draumi hennar sýnist í fljótu bragði dæmigerð fyrir átök góðs og ills sem hafa sett mark sitt á sögu mannkyns frá ómunatíð. Henni fannst maðurinn illúðlegur og skynjaði hann sem óvin. En hvað fannst honum um hana? Af hverju vildi hann toga hana út úr helgidómnum?

            Þarna hékk hún í píanófætinum, líkt og hann væri akkeri hennar og björg, og hún vaknaði upp af martröð án þess að átökin væru leidd til lykta. Allt í einu slær það hana hve fætur og fótabúnaður voru áberandi í draumnum. Fyrst rak hún augun í sandala mannsins sem, eins og klæðnaður hans allur, voru út úr öðrum tíma. Tímaskekkja. Svo kom á daginn að hún var í samskonar sandölum. “Fæturnir,” hugsar hún, “tengja mig við jörðina og rætur mínar. Til að geta staðið með sjálfri mér þarf ég að hafa góða jarðtengingu.” Þarna leiddi óvinurinn henni fyrir sjónir að hún stóð ekki í fæturna gegn vilja hans. Hún lá á gólfinu og ríghélt sér í píanófótinn.

            Kannski helgaðist áherslan á fæturna í draumnum hennar í og með af því að skírdagur dregur nafn af því að Jesús þvoði fætur lærisveina sinna undir borðum þetta kvöld? Stórir og sterklegir fætur engilsins sem heldur á hörpuskálinni draga að sér athygli hennar. “Afskaplega jarðneskir fætur á vængjaðri veru,” verður henni hugsað. Svo hvarflar að henni að hörpudiskurinn sem hann réttir fram sé skálin sem Jesús notaði við fótaþvottinn… og rifjast þá upp fyrir henni frásögnin af Maríu Magdalenu sem laugaði fætur Jesú með

María Magdalena kyssir fætur hins krossfesta Jesú. Brot úr ítölsku málverki frá 14. öld.

tárum sínum. Þannig lærði hún söguna ung, þótt henni sé það kunnugt nú að menn greinir á um hvort “bersynduga konan” í guðspjallinu sé í raun María Magdalena sem er af sumum talin hafa verið ein af lærisveinum Jesú, sú sem stóð honum næst og hafði dýpstan skilning á boðskap hans.

            Hún man eftir að hafa séð mynd af Maríu Magdalenu þar sem hún rígheldur um krossinn við fætur Jesú, líkt og hún sjálf um píanófótinn… og þá lýstur í huga hennar atviki úr bernsku sem hefur ásótt hana í gegnum ævina:

Það er komið píanó á heimilið. Hún nýtur þess að klóra sig í gegnum nóturnar í æfingaheftinu og upplifa töfrana sem fylgja því að heyra þessi svörtu tákn umbreytast í lag við áslátt fingra sinna. Hún er að leika sér með krökkunum í götunni á sólríku sumarsíðdegi þegar pabbi hennar kemur heim úr vinnunni. Hún flýtir sér inn og sest við píanóið. Pabbi hennar liggur með dagblaðið í sófanum. Hana langar til að sýna honum hvers hún er megnug. Hún er ekki komin langt inn í lagið þegar hann lætur blaðið síga yfir andlitið á sér og andvarpar biðjandi: “Ahh! Þú átt að æfa þig á meðan ég er í vinnunni!” Hún er ekki fyrr staðin upp með vonbrigðin í hjartanu en litli bróðir hennar kemur í dyrnar. Það lifnar yfir föður þeirra sem nú leggur blaðið frá sér og segir við son sinn: “Ætlarðu að spila fyrir pabba?”          

Hjartað í henni tekur kipp. Í geðshræringu augnabliksins áttar hún sig á að utangarðsmaðurinn sem leitaðist við að slíta hana frá píanófætinum var einum þræði fulltrúi fyrir þessa bernskuminningu sem hún hefur ríghaldið í en þarf að gera upp við og sleppa. Jesús er sagður hafa rekið illa anda út úr Maríu Magdalenu og var ekki Jesús utangarðsmaður á sinni tíð? Svo virðist sem í draumnum hennar slái saman hinum lægsta, útskúfaða, og ástmeginum æðsta í einni persónu. Þegar allt kom til alls, reyndist hinn illúðugi andstæðingur vinur í raun. Hann hefur leitt henni fyrir sjónir togstreituna sem hefur hindrað hana í að finna sinn innri samhljóm.

            “Kannski Guð sé óður í orðsins fyllstu merkingu,” segir hún kankvís þegar þau ganga út í sólskinið á ný og rölta áfram upp götuna.

            Hann horfir á hana spurnaraugum.

Skírnarherbergið birtist í Stínu, tímariti um bókmenntir og listir, í nóvember 2017.