Hallfridur.is

Nautið og gyðjan

fantasía með fræðilegu ívafi [1]

í minningu Matthíasar Viðars Sæmundssonar

Þrír keisarar og naut

Nótt eina árið 2000 dreymdi mig tvo drauma:

Ég er á sendinni strönd og geng fram á basar þar sem ég sé standa hlið við hlið þrjár hvítar brjóstmyndir af Sesari, allar steyptar í sama mót.

 Ég stend við gólfsíðan glugga í Valhöll (á Þingvöllum) og sé hvar risastórt rauðbrúnt naut brýst upp úr jörðinni fyrir utan. Í uppnámi augnabliksins tek ég eftir hve feldur þess gljáir. Ég tek til fótanna og sendist upp á herbergið mitt með nautið á hælunum. Ég á mér ekki undankomu auðið. Það stendur við rúmstokkinn minn og býst til að sleikja andlit mitt blíðlega þegar ég vakna upp af martröð.

Átta árum áður hafði ég skrifað B.A.-ritgerð um Drauga í nútíð og fortíð undir handleiðslu Matthíasar Viðars Sæmundssonar. Lokakaflinn í þeirri ritgerð fjallaði um Þorgeirsbola og hvatti Matthías mig til að fylgja efninu eftir. Þótt ég hafi ekki látið af því verða á sínum tíma, hefur boli aldrei verið langt undan og trúlega vissi ég að fyrr eða síðar myndi ég takast á við hann. Þegar ég svo fór á Matthíasarþing á sumarsólstöðum 2014, fann ég að stundin var komin.

Matthías var helgimyndabrjótur í bestu merkingu orðsins og í þann farveg sýnist mér draumarnir mínir falla. Lifandi náttúrukrafti er teflt gegn steinrunninni ímynd keisarans. Reynslan hefur kennt mér að draumar einnar nætur hneigjast til að hverfast um sama þema. Þeir varpa ljósi frá mismunandi sjónarhornum á vandamál sem ég er leynt eða ljóst að fást við. Þótt draumarnir hér að ofan endurspegli umfram allt mín innri átök, sýnast þeir jafnframt skírskota til þeirrar veraldlegu og goðsögulegu fortíðar sem menningin sem mótaði mig hvílir á. Keisarinn er fulltrúi fyrir karllæga menningu. Í draumnum er hann þríeinn. Nautið sé ég aftur á móti sem persónugerving kvenlægrar kraftuppsprettu sem menning mín hefur niðrað og bælt.

Lokaatriði draumsins tengdi ég umsvifalaust við Auðhumlu sem sleikti hrímsteina og skapaði þannig hinn fyrsta mann:

Hún sleikti hrímsteinana er saltir voru. Og hinn fyrsta dag er hún sleikti steina kom úr steininum að kveldi mannshár, annan dag mannshöfuð, þriðja dag var þar allur maður. Sá er nefndur Búri.[2] 

Nafnið mitt ýtir undir þessa túlkun því það þýðir ‚steinn‘ og ‚hin elskaða‘ og ástúðlegt var dýrið sem ég þóttist þó vita að væri naut. Þótt þessi texti Snorra væri mér nákunnugur, hafði áherslan sem þar er lögð á höfuðið umfram aðra líkamsparta ekki vakið sérstaka athygli mína, svo sjálfsagt hefur mikilvægi þess sem aðsetur vitsmuna verið í mínum huga. Ekki vefengdi ég heldur þá staðhæfingu að fyrsta vitundarveran sem er leidd fram á veraldarsviðið væri karlmaður, þótt lesa mætti á milli línanna að hann hefði átt sér uppalanda í móður sem gerði úr honum hugsandi (hár) vitundarveru (höfuð) og kom honum til manns. Draumarnir mínir leiða mér fyrir sjónir hve hugsunarlaust ég hef samsamað mig viðhorfum þeirrar karllægu menningar sem ég fæddist inn í. Þrjú steinhöfuð í mynd Sesars standa fyrir huglægt yfirvald sem er steinrunnið og ófrjótt. Nautið sleikir vanga mína, sem voru eflaust stokknir söltum tárum af tilvistarlegri kreppu, og lætur mér skiljast að þörf sé á ummyndun úreltrar hugmyndafræði. Martröðin bendir til að innri vera mín hafi reynt til þrautar að fá mig til lags við nýja sýn en ég verið hrædd við að sleppa taki á inngrónu mynstri. Hún knúði mig til að hlusta.

En hér hlaut fleira að búa undir. Auðhumla var kýr en dýrið í draumi mínum var naut, á því lék enginn vafi. Þorgeirsboli vildi greinilega minna á sig. Hvers vegna hafði ég ekki hlustað á hvatningu kennarans og gert eitthvað með efnið sem ég átti um Þorgeirsbola? Við hvað var ég hrædd? Sagnir af Þorgeirsbola flokkast undir „Uppvakningar eða sendingar“ hjá Jóni Árnasyni og sýnist mér auðsætt að draumasjálfið leiki sér bæði með þjóðsöguna og goðsöguna til að hnykkja á erindi sínu. Eins og galdramaður þurfti að sleikja náfroðuna af vitum draugs sem hann hafði sært upp úr gröf sinni, gerir nautið sig líklegt til að sleikja andlit mitt. Ég hlaut að leggja þann skilning í drauminn að mikilvægur þáttur í eðli mínu væri í dásvefni.

Uppistaðan í Þorgeirsbola var að sögn flegið kálfshöfuð. Þeir sem hafa skoðað grafíska mynd af æxlunarfærum kvenna vita að þau eru engu líkari en haus á hyrndum nautgrip (sjá mynd). Þegar nautið braust upp úr jörðinni í draumi mínum var búið að taka úr mér legið

vegna góðkynja bandvefsæxlis sem orsakaði miklar blæðingar. Læknirinn sem ég leitaði til tjáði mér að legnám væri lausnin. „Og svo tek ég úr þér eggjastokkana og leghálsinn líka til að fyrirbyggja að þú fáir krabbamein síðar,“ tilkynnti hann. Varð mér þá hugsað til fornra sagna af hetjum sem ruddust með rupli inn í móðurlíf jarðar eða lögðu sig í háska til að „bjarga“ meyjum úr greipum dauða og djöfuls undir yfirskini góðverks. Ég var stödd í háborg kapítalismans og vissi að gjald kæmi fyrir sérhvert líffæri sem fjarlægt yrði úr mér. Þótt ég óttaðist ekkert meira en að mín kvenlegu líffæri yrðu krabbameini að bráð, enda hafði sá háski vofað yfir og allt um kring frá því að ég vígðist til kvendóms, ákvað ég að axla ábyrgðina á að eiga ekki við neinn að sakast nema sjálfa mig ef slík örlög biðu mín. Ég sneri baki við þessum bjargvætti, fann mér annan lækni og hélt mínum heilbrigðu líffærum. Nú hefur verið sýnt fram á að fólk sem hefur misst lim eða líffæri heldur áfram að hafa tilfinningu í þeim líkamshlutum sem það hefur glatað. Er þá talað um draugalimi (phantom limbs). Ef legið í mér gengur aftur, væri það óhjákvæmilega kollótt því eggjaleiðararnir fylgdu því ekki í gröfina! Og svo háttaði einmitt til með nautið í draumi mínum, ég tók sérstaklega eftir að það var ekki með horn.  

Hvers vegna skyldi hornaleysi þessarar ábúðarmiklu skepnu hafa grópast svo sterkt í vitund mína? Það var eitthvað við þessa mynd sem gekk ekki upp og olli því að ég staldraði við. Ásgeir Blöndal Magnússon telur að e.t.v. þýði Auðhumla kollótt kýr þar eð ‚hin kollótta‘ er ein merking orðsins humla.[3] Vel má vera að þessi skýring, sem ég þekkti en var ekki fyllilega sátt við, hafi smogið inn í myndmál draumsins. Humla gæti líka verið dregið af humall sem þýðir ‚hunang‘ og var hann m.a. notaður til ölgerðar. Mjöður og hunang voru guðafæða og er Seifur sagður hafa nærst á slíku góðgæti sem ungabarn.[4] Samkvæmt Snorra-Eddu runnu hins vegar fjórar mjólkurár úr spenum Auðhumlu og á þeim fæddi hún Ymi, goðveru sem tók á sig mannsmynd þegar hrím norðan úr Niflheimi og heitur gustur sunnan úr Múspellsheimi mættust í Ginnungagapi svo úr bráðinu draup. Ymir þýðir ‚tvíburi‘ og bendir sú nafngift til að í öndverðu hafi maðurinn gert sér Guð í hugarlund sem tvíkynja veru. Sama hugmynd kemur fram í Genesis 1: „Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.“ Þetta var áður en Drottinn Guð lét sér detta í hug að búa konuna til úr rifbeini karlsins. Hugsanlega hefur lýsing Snorra á kúamjólkinni átt sinn þátt í því að Ásgeir hneigðist til að álykta að Auðhumla væri kollótt kýr.

En Auðhumla var náttúrulega engin venjuleg kýr. Hún var goðvera til orðin úr sama hrímbráðinu og Ymir: „Næst var það þá er hrímið draup að þar varð af kýr sú er Auðhumla hét.“ Eins og Ymir bar Auðhumla andstæðurnar í sér, bæði eldinn og ísinn, lífið og dauðann. Með því að svipta hana höfuðdjásni sínu, hornunum, væri kraftur hennar smættaður og hún gerð að auðsveipri mjólkurkú. Mér býður í grun að með lýsingu sinni hafi Snorri viljað gera greinarmun á hinni gjöfulu móðurmynd og hinum illa, óséða, sem hlotnuðust hornin og olli því að óborið líf sundraðist svo úr leginu draup.[5] Þeirri skuggamynd, ranghverfunni á Auðhumlu sem karllæg menning hefur gert sér far um að bægja inn í myrkur fáfræðinnar, virðist þjóðsagan hafa varpað yfir á Þorgeirsbola. Í þessum tveimur vættum er sem persónugerist fyrstu rúnirnar í fúþarkinum, sem stendur fyrir búsmala og uruz sem var táknmynd fyrir hinn villta úruxa. Kann það að vera til marks um firringu mannskepnunnar frá uppruna sínum að hún hefur gengið af úruxanum dauðum. En þótt dýrið sé útdautt, þýðir það ekki að orkan sem það var táknmynd fyrir hafi þurrkast út, heldur hefur hún fundið sér annan farveg.

Fehu / Fé
Uruz / Úr

Í bók Matthíasar Viðars, Galdrar á Íslandi, kemur fram að þessar hliðstæðu en andstæðu rúnir hafi verkað saman til heilunar í rúnalækningum.[6] Frá sálfræðilegu sjónarhorni er rökrétt að álykta að villtur krafturinn sem u-rúnin stóð fyrir frjóvgi menningarlegt skipulag og stuðli að nauðsynlegri framþróun þess. Forsenda heilbrigðs þroska er að jákvæð tengsl við þennan frumkraft séu fyrir hendi. Sé honum úthýst til að viðhalda ófrjóu kerfi, er hann vís til að umturnast í neikvætt niðurrifsafl eins og Þorgeirsboli er dæmi um.

Í heimspeki formæðra okkar og feðra var maðurinn örheimur sem laut sömu lögmálum og alheimurinn. Heimsmynd þeirra einkenndist af samsvörunum þar sem hvað speglaði annað. Jörðin var lifandi vera sem átti sér samsvörun í líkama mannsins. Þetta kemur skýrast fram í lýsingunni á sköpun heimsins úr sundruðum líkama Ymis.[7] Það sem vekur athygli í þeirri sundurliðuðu lýsingu er að æxlunarfæra Ymis skuli að engu getið. Í þessu hugmyndakerfi væri rökrétt að gera ráð fyrir að legið samsvaraði Ginnungagapi þar sem líf kviknaði og hvarf aftur til, sem var í senn vagga þess og gröf. Rúnastafrófið leiðir okkur fyrir sjónir að menning og villt náttúra þurfa að lifa í jafnvægi hlið við hlið, jafnt innra sem ytra. Slíkt sambýli skilar okkur að endingu í þann áfangastað sem síðasta rún fúþarksins, o-rúnin, stendur fyrir, heimkynnin sem við lögðum upp frá. Óðalsrúnin er okkar Íþaka.

Legnámið opnaði augu mín fyrir viðhorfi menningarinnar til æxlunarfæra konunnar sem má bara urða á haugunum þegar þau þjóna ekki lengur því hlutverki að fjölga mannkyninu. Síðar hlýddi ég á andófsræðu amerískrar kynsystur minnar gegn því gengdarlausa legnámi sem tíðkaðist á hennar heimagrund og hún líkti við geldingu. Mér brá við. Hvað hafði ég í fáfræði minni gengist inn á að væri frá mér tekið? Orð hennar tóku sér sér bólfestu í huga mínum og knúðu mig til að horfast í augu við sektarkenndina og söknuðinn yfir að hafa gengið í gegnum lífið án þess að þekkja mitt innsta eðli.

Eflaust átti þetta brottnám, og eftirsjáin sem ég upplifði í kjölfarið, ríkan þátt í leit minni að andlegu sambandi við kvenlæga náttúru mína. Latneska orðið fyrir leg er volva, vulva og nokkuð ljóst að orðið völva er þaðan runnið.[8] Sama gildir um hið víðkunna aðsetur véfréttarinnar, Delfí, en það er dregið af gríska orðinu delphus sem þýðir leg.[9] Séra Páll Björnsson í Selárdal (1621-1706) vissi gerla að spádómsgáfa völvunnar tengdist kvenlægri náttúru hennar: „Svo er skrifað Pythea í Delphis, hvar er var hið sérlegasta hof, hafi setið yfir tripode með útvíkkuðum lærleggjum og spáð svo með leyndarlimnum.“[10] Sú staðreynd að véfréttin í Delfí starfaði einn dag í mánuði hefur gefið þeirri hugmynd undir fótinn að hún hafi tengst blæðingum hofgyðjunnar.[11]

Ég trúi að við séum hér til að þroska eðlislægar gáfur okkar svo að við getum lagt af mörkum til að lyfta hulunni af margbrotnu undri sköpunarverksins. Völuspá hefur lifað með þjóðinni í meira en þúsund ár. Þó hefur innsæi völvunnar ekki verið ræktað í afkomendum hennar heldur lögð áhersla á að gera kvæðið skiljanlegt með hliðsjón af skýringum sem óhjákvæmilega eru litaðar af viðtekinni söguskoðun og lífsreynslu skýrendanna. Sjálft ritúalið, seiðurinn, sem hjálpaði völvunni að komast í tilskilið hugarástand, er gleymt og grafið. Í Eiríks sögu rauða er að finna frásögn af spásögnum Þorbjargar sem kölluð var lítilvölva.[12] Í þeirri lýsingu, sem er sviðsett á Grænlandi, kemur fram togstreita á milli heiðni og kristni og kann viðurnefni Þorbjargar að vera til marks um víkjandi stöðu völvunnar sem heiðnir forfeður okkar höfðu í hávegum. Þorbjörg var ein eftirlifandi tíu systra sem allar voru spákonur. Þetta gefur til kynna að hefðin sé að deyja út. Og þegar hún kallar eftir konum sem „kynni fræði það er þyrfti til seiðinn að fremja og Varðlokur heita,“ fundust þær engar fyrr en Guðríður Þorbjarnardóttir, sem var kristin, gefur sig fram og kveðst hafa numið umrætt „fræði“ af fóstru sinni á Íslandi. Lætur Guðríður til leiðast að „kveða  kvæðið“ en Þorbjörn faðir hennar fór af bæ því hann vildi ekki vera heima meðan slík heiðni var framin. Er það með öðru til marks um gleymskuna, að uppruni orðsins varðlokur er mönnum óljós og upphaflegt form þess óvíst. Á hinu hefur ekki verið legið að seiðurinn þótti smánarleg athöfn og körlum ósamboðin.[13] Þá vekur það athygli mína að Þorbjörg, sem var farandvölva, vildi ekki tjá sig um málefnið sem brann á gestgjafa hennar fyrr en hún hefði sofið þar um nóttina. Þorbjörg hefur viljað sjá hvað draumarnir legðu til málsins. Fyrir völvunni var draumur ekki „bara draumur“ til að troða í glatkistuna og kaupa sér stundarfrið. Í honum birtist rödd sannleikans sem linnir ekki fyrr en hlustað er og erindi hans léð brautargengi.

Má það þykja óskiljanlegt í ljósi þeirrar óskoruðu virðingar sem Völuspá nýtur, af hve mikilli harðneskju sú kvenlæga viska sem kvæðið færir okkur var kveðin niður. Að fremja seið mun hafa talist glæpur þegar í heiðni, „og var þá tíðast að lemja seiðkonur grjóti í hel og stundum er getið um galdrabrennur.”[14] Glæpur þessara kvenna var andlegt framhjáhald sem fólst í samneyti við aðra guði en ríkjandi öfl aðhylltust. Fyrir þeim var Guð í allri náttúru, lífrænni og ólífrænni, bæði í stokkum og steinum. Gjörvallt sköpunarverkið var helgaður bústaður Guðs.

Nú kann einhver að spyrja hvaða tengsl séu á milli 18. aldar uppvaknings og kvenlægrar reynslu. Því er til að svara að í þjóðsögnum um Þorgeirsbola brjótast fram goðsöguleg minni um aðförina sem haldið var úti á hendur konum, og kvenlægri náttúru almennt. Höfundur bola er sagður hafa verið Þorgeir nokkur, kallaður Galdra-Geiri. Kom þá óðar í hugann hið göldrótta ófriðargoð og einkennisgripur þess, geirinn Gungnir, sú sending sem aldrei geigaði. Þegar dýpra var grafið, reyndist myndmálið þó flóknara en í upphafi sýndist. En áður en ég sný mér að Þorgeirsbola ætla ég að rýna lítillega í Gullveigu og völvuna Heiði.

 

Gullveig

Það er naumast tilviljun að draumurinn minn skuli vera sviðsettur í Valhöll á Þingvöllum og læðist að mér sá grunur að hann hafi viljað minna mig á tvö atriði úr fortíðararfinum sem hafa lengi staðið í mér, annað er úr Íslandssögunni en hitt úr goðsögunni og eru þó bæði af sama meiði.

Ung lærði ég af skólabókum níðkviðlinginn sem Hjalti Skeggjason, lögmaður og kristniboði, sendi Freyju á Þingvöllum árið 999:

Vil ek eigi goð geyja (spotta, lasta) / grey þykki mér Freyja. 

Ég skildi að þetta var alvarlegur áburður því kristniboðinn var dæmdur í þriggja ára útlegð fyrir guðlast. Mig rekur hins vegar ekki minni til að þessum sögulærdómi hafi fylgt útskýring á orðinu grey. Í barnsvitund minni var grey notað um þann sem átti um sárt að binda og var á einhvern hátt aumkunarverður eða utangarðs. Það var ekki fyrr en ég fór að grafa í þetta efni á fullorðinsárum að ég áttaði mig á að merkingarlega samsvarar grey enska orðinu bitch með öllum þeim neikvæðu blæbrigðum sem því eru léð í útmálun á konu sem er ekki eins og hugur karls. Grey merkir sem sagt upprunalega ‚tík‘. En líkt og Auðhumla varð að kollóttri kú hefur ásýnd Freyju mildast í tímans rás eins og lofsöngur séra Matthíasar til Freyju, blítt brosandi í gegnum gullin tár, ber vitni. Ljóð Matthíasar, „Fósturlandsins Freyja,“ er tileinkað minni kvenna og því jafnframt hylling konunnar sem ber gyðjuna í sér. Er þá skylt að spyrja hvort þessi ummyndun úr skassi í ljúfling hafi orðið á forsendum kvenna sjálfra eða hvort sú hjartnæma mynd sem skáldið málar sé draumsýn kristins karls.

Síðarnefnda atriðið varðar Gullveigu sem ég hafði einungis léð rými í neðanmálsgrein í M.A.-ritgerðinni minni. Eftir á að hyggja átta ég mig á að þar hneigðist ég til að samsama mig sjónarhorni hetjunnar í átökum hennar við viðsjál náttúruöfl, þótt vissulega fyndist mér framganga hennar á stundum orka tvímælis. Nú virðist mér náttúrukrafturinn sem býr í Gullveigu gera kröfu til þess að fá sess í meginmálinu.

Í 21. erindi Völuspár er lýst ítrekuðum morðum sem voru framin á Gullveigu í Valhöll:

 
Eddukvæði I, ritstj. Ólafur Briem

Myndin af Gullveigu með öll spjótin í sér er lýsandi fyrir það sem á máli sálfræðinnar kallast frávarp og er „varnarháttur, fólginn í því að eigna öðrum miður æskilega eiginleika í sjálfs fari.“[15] Ef Gullveig er persónugervingur fyrir gullgræðgi eins og sumir ætla, gefur myndmálið til kynna hún hafi verið gerð að blóraböggli fyrir ágirnd ása, og birtir Völuspá okkur þar gömul sannindi og ný.[16]

Þó okkur sé tamast að nota orðið veig um ‚drykk‘ þýðir það einnig ‚kraftur‘. Þessi kraftur, sem er konum eðlislægur en kapp hefur verið lagt á að svipta þær með hræðsluáróðri og háðsglósum, er frumefni (prima materia) sem ummynda má í andlegt gull. Fyrir þessu hef ég orð 17. aldar alkemistans Eirenaeusar Philalethes sem sagði gullgerðarmennina búa yfir þekkingu til að vinna hina „konunglegu kórónu“ úr tíðablóði hóru.[17]

Í Hyndluljóðum[18] lýsir Freyja því að Óttar, sem kallaður var heimski, hafi roðið hörg sem hann hlóð henni í nautablóði:

Eddukvæði, ritstj. Gísli Sigurðsson

Sé flett upp á orðinu hörgur í orðsifjabókinni er það fyrst og fremst skilgreint sem ‚heiðið blóthús eða blótstallur‘. Hvað orðsifjar varðar er talið að það kunni að vera skylt fír. carn sem þýðir ‚steinhrúga‘. Í ljóðinu er hörgurinn sagður hlaðinn steinum. Jungíski sálgreinirinn George R. Elder hefur bent á að upphafleg mynd gríska guðsins Hermesar, sendboða guðanna, hafi verið „stór steinhrúga“ sem vísaði veginn úti í sveitum þar sem engar götur er að finna og kunni menn að hafa skynjað þessa steinhrúgu sem reðurtákn.[19] Penelope Shuttle og Peter Redgrove, höfundar The Wise Wound: The Myths, Realities, and Meanings of Menstruation, benda aftur á að í hinum forna heimi hafi leghálsinn (birth-cone) verið algengt myndefni sem hluti af helgri náttúru en karllæg fræðimennska hafi gleymt fyrir hvað hann stendur og kallar hann omphalos, þ.e. ‚nafla‘, en stundum lim Guðs eða völsa (phallus). Oft og tíðum standist þetta ekki skoðun heldur sé greinilega um að ræða myndgervingu hins kvenlega líffæris, sem spýtir blóði þegar kona er á túr.[20]

Frá þessu sjónarhorni séð varpar vísan í Hyndluljóðum ljósi á frjóvgandi frumkraftinn sem tíðablóðinu var eignaður. Kemur þessi kraftur hvað gleggst fram í sögunni af Gefjun sem dró hluta af Svíþjóð út á haf með plógi sínum, en fyrir hann hafði hún beitt fjórum uxum sem að sögn voru synir hennar og jötuns. Gefjun þýðir ‚hin gjöfula‘ og er sömu merkingar og Gefn sem var eitt af nöfnum Freyju. Styrk stjórn ástar- og frjósemisgyðjunnar á nautinu á sér hliðstæðu í stjörnuspekinni þar sem plánetan Venus ríkir yfir nautsmerkinu.        

Í vísu eftir Braga skáld gamla sem ég lærði menntaskóla segir að uxar Gefjunar hafi borið „átta ennitungl“ (báru öxn og átta ennitungl). Samkvæmt skólabókarskýringunum þýddi ennitungl ‚auga‘. Þetta hefur setið í mér. Er ekki einkennilegt að segja uxana bera augu? Væri ekki nærtækara að ætla að hér sé átt við ‚átta horn‘? Óvefengjanlega draga nautshornin dám af niðum og nýjum, enda er nautið goðsögulega nátengt tunglinu og hljóðfalli kvenlægrar náttúru. Eins og horn nautsins endurspegla þverrandi og vaxandi tungl, tengdist fórn þess endurnýjun lífsmagnsins. Sami kraftur felst í tíðablóði konunnar sem ber í sér frjómagn fyrir nýjan frjósemishring. Líkt og blæðingarnar var nautablóðið álitið hafa hreinsandi mátt. Louis Charbonneau-Lassay nefnir dæmi úr Míþrasar- og Orfeusartrú þar sem talið var að í því fælist slíkur hreinsandi og friðþægjandi kraftur að fórnfæringin tók á sig mynd eins konar blóðskírnar. Hann getur þess að í fornöld hafi hvarvetna verið litið á nautið sem frjósemistákn vegna þess hve hornin líkjast mánasigðinni og hafi Egyptar fórnfært höfði þess sér á parti í blótathöfnum sínum.[21]

Gildi nautsins í árdaga menningar fólst einkum í frjóvgunarkrafti þess, segir Charbonneau-Lassay. Í Asíu var litið á það sem líkamningu þeirrar andlegu og líkamlegu orku sem knýr allar verur. Hjá Grikkjum varð það tákn fyrir sköpunarkraftinn og Egyptar gerðu það að myndleturstákni fyrir frjósemi.

Heiður

Eins og segir í 22. erindi Völuspár var völvan Heiður birtingarmynd Gullveigar í mannheimum:

Eddukvæði, ritstj. Gisli Sigurðsson

Völvur voru mennskar konur sem miðluðu tíðindum úr brunni hins andlega seims[22] sem ímyndaðist í Gullveigu. Heiður er nafn sem völvum var gefið í fornum sögum, karlkyns orð sem þýðir tign, haft um konu. Ég ímynda mér að Heiður sé nafnbót fremur en sérnafn og vísi í ópersónulegt ástand völvunnar í seiðnum. Þar er hún hlutlaust tæki sem skýlaust miðlar skilaboðum almættis til samfélags síns. Nærri má geta að heiður hefur þótt að vera útvalin til slíks hlutverks. Tákngripur völvunnar var stafur og hann kallaðist gandur. Stafurinn er fallískt tákn, og hann er líka valda- og virðingartákn, t.d. í höndum biskupa og páfa. Stafur Þorbjargar lítilvölvu gaf slíkum virðingartáknum ekkert eftir: „Staf hafði hún í hendi og var á hnappur. Hann var búinn messingu og settur steinum ofan um hnappinn.“ Í veraldlegum skilningi er stafurinn hjálpartæki sem maðurinn styðst við til að komast leiðar sinnar á viðsjálli grund. Ef til vill býr þessi grundvallarmerking að baki tákngrip þess sem í krafti hlutverks síns er farvegur fyrir guðlega handleiðslu. Sem táknmynd ljær stafurinn óbeisluðum krafti farveg og jarðtengingu. Í grein sinni „Woman Carrying a Phallus“ bendir George R. Elder á, að með því að höndla viðsjála orku í tákn og gera hana sýnilega, sé sjálfsvitundin aðskilin frá erkitýpunni og hinni síðarnefndu léður farvegur fyrir lotninguna sem ber að auðsýna henni.[23] Fyrir tilstilli táknmálsins er gerður skýr greinarmunur á manneskjunni og orkunni sem hún er talsmaður fyrir, hvort sem um er að ræða völvu, biskup eða páfa.

Í ljósi þess að hugtakið völva vísar að líkum í móðurlífið (sbr. lat. volva, vulva), má ætla að stafur í hendi völvu skírskoti til tvíkyns guðdómsins. Minnir þessi tvennd á yoni-lingam táknið í hindúatrú sem sýnir órjúfanlega einingu hins karllæga og kvenlæga sem allt líf á uppruna sinn í. Í norrænni heimsmynd var Ymir táknmynd fyrir þessa einingu. Í seiðnum hvarf völvan aftur til upphafsins: „Eg man jötna / ár um borna / þá er forðum mig / fædda höfðu,“ kveður hún í upphafi spárinnar sem við hana er kennd. Ætla má að Gunnlöð sem gætti skáldamjaðarins í Hnitbjörgum hafi verið völva. „Ill iðgjöld / lét ég hana eftir hafa / síns hins heila hugar,“ er haft eftir Óðni þegar hann hefur svindlað sér inn til hennar undir fölsku flaggi og rænt miðinum. Gunnlöð var jötnadóttir og þar af leiðandi afkomandi hins tvíkynja Ymis svo sem segir í Völuspá hinni skömmu: „Eru … jötnar allir / frá Ymi komnir.“[24] Hugur völvunnar er heill og óskiptur en Óðinn var aftur á móti tvöfaldur í roðinu. Skáldin jöfnuðu rödd jötna til gulls, enda lutu þeir hrynjandi náttúrunnar og kunnu ekki að ljúga.[25]

Niðurlag vísunnar um Heiði hefur kallað á heilabrot. Eins og ég lærði hana fyrst var völvan sögð angan „illrar brúðar“ og Freyja gjarnan nefnd í því sambandi því hún var völva og vanabrúður og hún kenndi Óðni og ásum seið. Þótti þó sumum fara illa í munni völvunnar sem mælir fram spána að úthrópa svo gyðju seiðsins. Síðar þótti sýnt að réttari lesháttur væri illrar þjóðar. Í gegnum óræð orð („seið hún leikinn“) grillir í erótískan leik gyðju og guðs sem völvan gefst á vald og berst með að brunni upphafs og endis.

„Heilagt brúðkaup“ (hieros gamos) er ekitýpa, mynstur sem liggur handan mennskrar vitundar og myndgerist í samræði andstæðna sem elur af sér nýjan veruleika í vitund einstaklings eða heildar. Um þetta er tilurð Ymis fyrir samruna elds og íss erkidæmi. Þegar eitthvað nýtt kom fram á sviðið í hefðbundnu samfélagi var sköpunarsagan ævinlega endurtekin í einhverri mynd. Upp af þessu mynstri rís frásögnin „Frá Freyju og dvergum“ í Sörlaþætti þar sem greint er frá hvernig Freyja öðlaðist Brísingamen. Í hnotskurn hljóðar sagan á þessa leið: Freyja kemur að steini sem stendur opinn. Inni fyrir eru fjórir dvergar að smíða gullmen.  Hún dregst að meninu, hana langar í það og hún býður fram gull og silfur og góða gripi. Dvergunum finnst hún að sama skapi hrífandi og vilja þá borgun eina að hún sofi sína nóttina hjá hverjum þeirra. Freyja gefur sig og kemur til baka í skemmu sína með hnossið.

Brísingamen ber andstæðurnar í nafni sínu en það er samsett úr brísingur sem er eldsheiti og men sem er sam­hljóða indó-evrópsku rótinni men sem þýðir máni.[26] Ég var að skrifa um Freyju fyrir táknfræðibók þegar ég sá í sjónhending að sögnin um Freyju og dverga hlyti að eiga rætur í sólmyrkva. Eins og ég orðaði það svo skáldlega, vekur hún upp mynd af sólinni sem geng­ur undir og gefst fereinum mána sem sökkvir sér í eldheitt skaut hennar svo rauðar glæðurnar blæða undan bik­­svörtum lim hans og mynda log­andi djásnið. Himneskt samræði guðs og gyðju er dregið niður á jarðneskt plan í samræmi við spakmælið „svo á jörðu sem á himni.“ Um þetta fjalla ég ítarlega í grein minni „En er hún fer…“ og vísa í hana.

Frásögnin Frá Freyju og dvergum var skráð undir lok fjórtándu aldar af tveimur kaþólskum prestum en slitringur úr fornum kveðskap þykir benda til að hún eigi rætur í glataðri goðsögn og glötuð goðsögn vekur óðar grun um þöggun og bælingu. Ímynda ég mér að á bak við þessa goðsögn búi reynsla formæðra okkar af fyrstu blæðingum þótt frá hendi prestanna sé hún gersneydd helgiblæ.             

Óður hét eiginmaður Freyju en hann hvarf úr goðsögunni, er þar ekki nema nafnið eitt sem þýðir ‚skáldskapur‘ og vísar jafnframt til villtrar náttúru sem er hráefni skáldskapar. Þessi villta náttúra endurspeglast í blæðingunum sem guðir og kóngar ævintýranna hafa í aldanna rás reynt að ná valdi yfir. Dóttir þeirra Freyju og Óðs hét Hnoss og „hún er svo fögur,“ segir Snorri, „að af hennar nafni eru hnossir kallaðar það er fagurt er og gersemlegt.“[27] Vel má hugsa sér að mynstrið sem býr að baki undirheimaför Freyju hafi verið mótað í ritúal í kvendómsvígslum ungra stúlkna sem á þessum tímamótum urðu holdgervingar gyðjunnar og eftirsóttar hnossir sem hetjur lögðu sig í háska til að vinna. Jafnframt varpar sagan jákvæðu ljósi á blæðingarnar sem glæða gáfur gyðjunnar í konunni og er líkt við gullmen.

Kona á blæðingum: indversk tréskurðarmynd frá 18. öld

Indverska tréskurðarmyndin hér að ofan sýnir nakta konu á blæðingum með tilkomumikið hálsmen sem er auðsæilega meira en skrautið eitt.[28] Útlínur þess skírskota nokkuð ljóslega til innri kynfæra hennar en sólstafirnir umhverfis hálsinn mjög líklega til tíðablóðsins sem leghálsinn spýtir. Sé þessi mynd skoðuð með hliðsjón af uppdrættinum af æxlunarfærum konunnar, sjáum við samsvörun á milli hálsins og leghálsins, á milli andlitsins og legsins, og laufskrúðið sem bylgjast út frá höfðinu, líkt og tilkomumikil horn á nautgrip, endurspegla eggjaleiðarana. Hlutlaus en athugull svipur stúlkunnar, galopin augun, sólstafirnir sem prýða eyrun, benda til að athygli hennar beinist inn á við. Hvað sér hún? Hvað heyrir hún? Bygging verksins leiddi mér fyrir sjónir að andleg blómgun konunnar, sem tákngerist í blóminu fyrir ofan höfuð hennar, á rætur í jarðvegi tíðablóðsins. Hún situr í fæðingarstellingu á hækjum sér eins og hún sé að fæða sjálfa sig sem kynþroska konu. Falin kynfæri hennar eru afhjúpuð í formi gersemar, en Gersemi nefndist einmitt dóttir Freyju öðru nafni. – Myndin er fengin úr Kali: The Feminine Force eftir Ajit Moorkerjee (útg. Thames & Hudson Ltd., London).

Samkvæmt helgiritum hindúa eru kýrin og nautið frumforeldrar mannkynsins og þar af leiðandi helgar skepnur.[29] Hugsanlega býr þessi sama hugmynd að baki tveimur fyrstu rúnum rúnastafrófsins, og urus. Rúnastafrófið, sem kallaðist fúþark, endurspeglaði heimsmynd forfeðra okkar og bendir forstaða þessara rúna til að á þessum skepnum hafi menning og mannlegt samfélag grundvallast. Í myndverkinu virðist helgin sem á þeim hvíldi vera yfirfærð á kynveru konunnar sem þar er hyllt opinskátt. Þótti mér verkið renna stoðum undir þá túlkun mína að sögnin um Freyju og Brísingamen væri vígslusaga og hálsmenið myndgerving fyrir hið rauða gull sem umlykur legháls konunnar.

Í meðförum kaþólsku prestanna er Freyja hóra sem selur sig fyrir gullmen og minnumst við þá orða Philaletesar sem sagði gullgerðarmennina búa yfir þekkingu til að vinna hina konunglegu kórónu úr tíðablóði hóru. Andstætt kennisetningu kirkjunnar sem beitti öllum ráðum og sumum misjöfnum til að beina sjónum hjarðarinnar til himins, lögðu gullgerðarlistin og stjörnuspekin (sbr. Venus og Nautið) sig fram um að viðhalda veginum til náttúrunnar og ókannaðra innri lenda. Í stað þess að fara að fyrirmælum kirkjunnar og feta í fótspor hins sögulega Krists, leituðu gullgerðarmennirnir að hinu guðdómlega leyndarmáli í efninu. Að dómi Carls Jung, sem fann hliðstæðu við kenningu sína um þróun einstaklingsvitundar í ritum þeirra og torræðum táknum, vörpuðu þeir leitinni að sínu innra sjálfi yfir á efnið sem þeir unnu með í tilraunastofum sínum. Viskusteinninn, sem einnig gekk undir heitinu filius philosophorum eða ‚sonur vitringanna‘, var hliðstæða Krists. Gullgerðarlistin jaðraði því við trúvillu frá sjónarhóli kirkjunnar og kann það að skýra hve torráðin rit alkemistanna hafa reynst.[30]

Ránsför Óðins inn í Hnitbjörg til Gunnlaðar er hliðstæð en þó andstæð för Freyju inn í steininn til dverga. Í þeirri sögu er konan rænd náttúrugáfunni sem Brísingamen var táknmynd fyrir. Tengsl hennar við uppsprettuna umturnuðust í böl og þjáningu. Í þrjár nætur lá Óðinn í gervi Bölverks hjá Gunnlöðu sem hafði verið falin varsla yfir skáldamiðinum í Hnitbjörgum. Í frásögn Snorra svindlaði hann sér inn í bjargið til hennar í ormslíki og skyldi fá að drekka þrjá sopa af miðinum, einn fyrir hverja nótt sem hann lægi hjá henni. En Óðinn lét sér ekki nægja minna en að svolgra upp allan mjöðinn. Er á Hávamálum að skilja að hann hafi jafnvel haft á brott með sér ílátið sem hefðin hefur karlkennt og kallar Óðreri. Óneitanlega lætur sú hugsun á sér bæra að á milli þessa sögulega brottnáms og legnámsáráttu nútímans liggi leyndir þræðir!

Út úr þessari frásögn má lesa að Óðinn hafi með slægð yfirtekið hlutverk eldri guðs sem hann kallar Suttung: „Suttung svikinn / hann [Óðinn] lét sumbli frá / og grætta Gunnlöðu.“[31] Að því hníga rök að marglofuð hetjudáð Óðins sé hliðstæð yfirtöku gríska guðsins Apollons á spásögninni í Delfí sem áður var helguð jarðargyðjunni Gaiu. Samkvæmt Shuttle og Redgrove eru til frásagnir af því að hofgyðjurnar í Delphi hafi leyft hof-snákum að drekka fyrsta blóðdreitilinn úr leghálsinum. Draga þau þá ályktun að þessi athöfn hafi haft „trúarlegan og að öllum líkindum shamanískan, þ.e., skapandi tilgang.“[32] Sýnist þessi lýsing varpa ljósi á ormslíkið sem Óðinn brá á sig til að komast að hinni dýru veig.[33]

Blæðingar konunnar eiga rætur í frumstæðri náttúru og má með rökum leiða getum að því að þær séu sá „hornsteinn“ sem menningin hvílir á. Ef einhver skyldi sjá mótsögn í því að tala um fljótandi upplausnarástand sem stein má benda á að markmið gullgerðar-mannanna fólst í að búa til yfirskilvitlegt töframeðal sem gekk ýmist undir nafninu steinn vitringanna, lífselexírinn eða allra meina bót.[34] Steinn þessi var rauður eins og litur uppleysiefnisins sem var notað við gerð hans og gullgerðarmennirnir kölluðu „Rauða hafið okkar.“[35] Uppleysiefnið nefndist tinctura á latínu en það þýðir ‚litur‘. Í Hávamálum eru Óðni lögð þessi orð í munn þegar hann hefur komist á brott með skáldamjöðinn úr Suttungssölum: „Vel keypts litar / hefi eg vel notið, / fás er fróðum vant.“ Orðalagið bendir til að hann hafi keypt sér aðgang að Gunnlöðu sem hann lá hjá í þrjár nætur. Gunnlöð var með öðrum orðum hóra. Það sem Óðinn sýnist hafa verið á höttunum eftir var hið dýrmæta frumefni gullgerðarmannsins, tíðablóð hóru sem úr mátti vinna hina konunglegu kórónu. Í skýringum sínum við kvæðið telur Gísli Sigurðsson að litur eigi við Gunnlöðu og nefnir til samanburðar orðalagið að „kaupa konu“ en sumir líti svo á að för Óðins inn í Hnitbjörg, eins og henni er lýst í Hávamálum, hafi verið hefðbundin bónorðsför.[36] Er þá ómaksins vert að velta fyrir sér hvað slíkt orðalag segir um stöðu giftra kvenna.

Goðsagnirnar um Freyju og Brísingamen og stuld Óðins á skáldamiðinum endurspegla ólíkt viðhorf til náttúrunnar. Freyja gefst náttúru sinni og uppsker hnoss. Þetta hnoss ásældust guðirnir, ef marka má brotakenndar vísanir í Brísingamen í arfinum. Freyja verður fyrir opinberun, treystir innsæi sínu og þorir að fylgja hvöt sinni. Atvikið, eins og því er lýst í Sörlaþætti, þ.e., hún kemur að steini sem á því augnabliki reynist vera opinn, flokkast undir það sem á grísku kallast kairos og þýðir að vera á réttum stað á réttum tíma. Hún lætur augnablikið ekki ganga sér úr greipum. Sem völva var Freyja verkfæri og bandamaður æðri máttar. Hún samstillti sig kosmískum rytma, hinu stærra samhengi.

För Óðins inn í steininn til Gunnlaðar var á hinn bóginn þaulskipulögð hetjuför. „Hætta ég höfði til,“ segir hann í Hávamálum. Ránsför hans ber öll merki taumlausrar græðgi og arðráns mannsins á náttúrunni sem hann tekur sér herradóm yfir. En eins og völvan í kvæðinu boðar, þegar hún hefur séð fyrir endalok heimsmyndar Óðins og nýja rísa upp af rústunum, kemur „hinn ríki… öflugur ofan, sá er öllu ræður.“[37] Þótt Alföður kallist er Óðinn ekki alvaldur. Sýnir kvæðið að óhóf og ofmetnaður (hubris) af því tagi sem hann gerist sekur um er vís vegur til glötunar.

Á einhverju skeiði hafa menn ugglaust séð hliðstæðu á milli fyrstu blæðinga og blæðinga við fyrstu kynmök og því gert sér í hugarlund að þær hafi orsakast af samförum við andlegan brúðguma. Þekkist sú trú enn meðal frumstæðra að máninn sé „drauma-eiginmaður“ konunnar og hafi við hana samfarir þegar hún er á blæðingum.[38]

Í Hávamálum gengst Óðinn við því að hafa grætt Gunnlöðu og valdið henni óhamingju. Ég skil þessa goðsögn svo að hún lýsi hvörfum í sambandi kvenna við tíðanáttúru þeirra og endurspegli bölvunina sem Drottinn Guð lagði á konuna í aldingarðinum, eins og greint er frá í Genesis 3. Ber sú saga einnig öll merki umpólunar á gildum.[39] Bölverkur vísar að mínum dómi ekki einungis í verknað Óðins heldur líka í bölverkinn sem herjar á konur þegar þær vinna gegn kraftinum sem óboðinn sækir þær heim á mánaðarfresti. Með stuldi Óðins á skáldamiðinum urðu blæðingar kvenna merkingarlaust böl. Mætti ekki hugsa sér að þessi saga varpi ljósi á hverjum völvan sendir tóninn þegar hún segir Gullveigu / Heiði æ hafa verið „angan illrar þjóðar?“

Og víkur þá sögunni að Þorgeirsbola sem Galdra-Geiri skóp og sendi til höfuðs konum.

Þorgeirsboli

Þorgeir, höfundur bola, mætti með réttu kallast Bölverkur en uppvakningi hans tengjast fæðingarþrautir, fósturlát, dauði, hatur og hefndarhugur og eru fórnarlömb hans einkum konur og kýr. [40] Segja sumir að Þorgeirsboli hafi verið búinn til í byrjun 18. aldar en aðrir nálægt miðri þeirri öld.

Sérhver þjóðsaga er barn síns tíma og endurspeglar í senn hið persónulega og hið almenna eða tíðarandann sem hún er sprottin úr. Virðist mér einsýnt að í uppvakningi Þorgeirs kristallist draumur hins kúgaða um guðlegt vald, nærður af harðvítugri bælingu, harðindum og hallæri. Líkt og sá guð sem lúterska kirkjan beitti fyrir sig til að halda alþýðunni í skefjum var Þorgeir „tryggur og blíður við vini sína, en harður og hefnigjarn við þá sem gjörðu móti skapi hans.“ Lýsing Matthíasar Viðars á 18. öldinni ber vitni nístandi vanmætti alþýðunnar gagnvart veraldlegu og klerklegu yfirvaldi: „Réttarfarið byggðist á skilyrðislausri hlýðni, bælingu þess sem mannlegt er […]; menn voru sviptir valdi yfir eigin tilveru og reyndu að fanga það sem þeim var skylt að forðast í kuldahlátri þjóðsögunnar.“[41] Eflaust hafa prestar þessa tíma verið ósínkir á söguna um gullkálfinn sem markaði afturhvarf Ísraelsmanna til heiðinnar trúar og kallaði sú synd yfir þá heiftarreiði Guðs.[42] Ekki er ósennilegt að sú varnaðarsaga sé ofin inn í margbrotna mynd Þorgeirsbola. Í einni útgáfu af tilurð hans segir að Þorgeir hafi fengið sér kálf nýborinn hjá konu einni í Hrísey, 

skar hann síðan þar sem honum þótti hentast, fló hann aftur á malir, sumir segja aftur af mölum svo hann drægi skinnið allt á rófunni, og magnaði hann með fjölkynngi.

Í kjölfar siðaskiptanna 1550 höfðu orðið djúpstæð menningarskil á Íslandi. Sitthvað úr hinni fornu heimsmynd heiðninnar sem hafði fengið að lifa óáreitt við hlið kaþólskunnar var nú bannfært og djöflinum eignað. Kirkjan var ekki lengur sá tengiliður milli manns og almættis og verið hafði, heldur kom lúterskan á beinu sambandi milli manns og Guðs sem með sívökulu alsjáandi auga gat lesið sérhverja sauruga hugsun sem fjandinn læddi í huga hans. Út í þetta varnarleysi, þar sem djöfullinn var sínálægur og, svo notuð séu orð séra Páls í Selárdal, „hrærir upp vorrar spilltrar náttúru losta, svo vér í svefni og vöku mættum sökkva í vors holds óhreinindum,“ var hinum lúterska Íslendingi varpað.[43]

Endurspeglast óöryggið í látlausum myndbreytingum bola sem gegnsýra veruleika fólks:

Oftast þóttust menn sjá hann í nautslíki og svo útlítandi sem fleginn væri bæði hausinn og svo allur skrokkurinn og lefði húðin öll aftan við hann og sýndist holdrosan jafnan snúa út, og dróst svo þessi dræsa á eftir honum þar sem hann fór… stundum var hann í mannslíki eða hunds… stundum þótti mönnum hann vera í ær- eða kýrlíki með ýmsum litum; var hann þá oft að bera kálfi eður lambi og komst mjög við í hríðunum og emjaði sárt, en færi menn að forvitnast um þetta var allt á sama augnabliki horfið.

Eitt sinn sást hann jafnvel sem þokubelti í fjallahlíðum:

Þorgeir var eitt sinn kominn að Hallgilsstöðum og var þar um lestur, en gekk oft út undan lestrinum. Þegar búið var að lesa kom bóndi út með Þorgeiri og sáu þeir þá sem þokubelti norður til fjallsins, en annars var heiðskírt veður. Þá sagði Þorgeir: „Djöfull getur hann orðið langur núna.“ Ætluðu menn að hann ætti við bola og neytti hann þá þess að ein náttúra hans var af lofti. En litlu síðar rak á grenjandi byl og hugðu menn að boli hefði vitað það fyrir, og oft urðu menn slíks varir fyrir illvirðum og öðrum tíðindum.

Húslesturinn reynir greinilega á þolrifin í Þorgeiri. Jafnframt setur sviðsetning frásagnarinnar bola í trúarlegt samhengi. Athygli vekur að boli var talinn búa yfir forskynjun og virðist þar ýjað að mikilvægi þess að kunna að lesa í náttúruna. Eins og nærri má geta hefur hverjum bónda verið mikilvægt að rækta með sér slíkt næmi. Af lýsingum á aldarandanum má hins vegar ráða að kirkjan hafi lagt ofuráherslu á að kveða samband mannsins við náttúruna niður. „Bæn þína aldrei byggðu fast / á brjóstvit náttúru þinnar. / Í guðs orði skal hún grundvallast,“ uppáleggur Sr. Hallgrímur Pétursson (1614-1674). Persónulegum þrám og löngunum skyldu menn bægja frá sér: „Vér vitum ei, hvers biðja ber,“ segir Hallgrímur enn, „blindleikinn holds því veldur.“ En eins og tröllið sagði við Guðmund góða, „einhvers staðar verða vondir að vera.“[44] Þorgeirsboli lætur sér ekki duga afmarkaðan blett eins og tröllið í Drangey, heldur smýgur hann um gjörvallt sköpunarverkið, er alls staðar og þó hvergi. Hverfulleiki hans er í andstöðu við massívan, jarðbundinn kraft nautsins. Hann var skuggahliðin á frjóvgunarkraftinum sem nautið var í öndverðu táknmynd fyrir og alþýðan hafði misst tengslin við. Útskúfunin umturnaði krafti sem er í eðli sínu jákvæður í meinvætti sem minnir einna helst á sektarkennd sem skýtur upp kolli þegar minnst varir og verður ekki umflúin fyrr en horfst er í augu við glæpinn.

Þótt lúterskar guðsorðabækur 18. aldar hafi gengið hart fram gegn náttúrunni sem, svo vitnað sé aftur í lýsingu Matthíasar, „var eitruð og full og freistinum, andstyggileg og háskaleg, ofurseld satan og djöflum hans,“ á bæling og afskræming á tíðanáttúru konunnar sér mun lengri sögu. Þorgeir kom sér upp bolanum til að ná sér niðri á konu sem hafnaði bónorði hans. Heitingar hans við konuna og galdrabragðið sem hann neytti til að fá svalað ófullnægðri þrá sinni eru sem sprottin úr jarðvegi Skírnismála þar sem Skírnir hótar að rista Gerði meinrúnir ef hún neiti að gefast Frey:

Eddukvæði I, ritstj. Ólafur Briem

Sagnaarfur okkar geymir ófá dæmi um kvenhetjur sem tregðuðust við að afsala sér sjálfstæði og gerast undirgefnar eiginkonur. Skaði var ein og segir nafn hennar meira en mörg orð um viðhorf feðraveldisins til einlífis kvenna, en Skaði „gekk frá Nirði,“ eins og Snorri kemst að orði, og settist að á föðurleifð á fjöllum.[45] Meint samband slíkra kvenna við hinn illa þurs hefur án efa sumpart helgast af því að þær fóru oftar á túr en eiginkonan sem var barnshafandi lungann úr sinni stuttu ævi.           

Carl Jung hefur bent á að því harðsvíraðri sem bælingin er, þeim mun frumstæðari mynd taki hin bælda orka á sig. Um þetta er Þorgeirsboli lýsandi dæmi. Eins og hæfir niðurrifsaflinu sem ímyndaðist í uppvakningi Þorgeirs eru frásagnir af honum brotakenndar og má úr brotunum lesa að Geiri sé knúinn af hamlaðri kynhvöt. Þetta kemur hvað gleggst fram í mynd sem vitraðist ungum dreng:

… sýndist honum grár hestur standa á hlaðinu; honum sýndist hann hryggbrotinn svo kviðurinn náði ofan að jörð og skorin af honum bæði eyrun og svo sterturinn og væri hann svo blóðugur bæði aftan og framan.

Drengurinn varð hræddur og hljóp inn og sagði frá en eins og vænta mátti var allt saman horfið þegar heimilisfólkið kom út. Í sama vetfangi kom dóttir Þorgeirs og baðst gistingar. Þóttust menn þá vita að þetta hefði verið Þorgeirsboli.           

Hér er sem ýjað sé að tengslum á milli bola Þorgeirs og dóttur hans. Segir líka sagan að Þorgeir hafi ekki þorað annað en láta dætur sínar, sem báðar hétu Ingibjörg, bera „rúnstafi“ [sic] í svuntum sínum til varnar sér fyrir bola. Tvítekningin á nafninu Ingibjörg kallar á athygli en rætur þess liggja í vanatrú þar sem „leyft var að byggja … náið að frændsemi,“ svo notað sé orðalag Snorra.[46] Forliður nafnsins Ingibjörg er rakinn til Yngvi, sem er talið að sé fornt heiti á Frey, og hefur sú hugmynd komið fram að það þýði spjót og sé vísun í getnaðarlim gróðrarguðsins.[47] Þetta varpar nýju ljósi á Geira-nafngiftina og bendir til að vopn Óðins og tákngripur eigi rætur í frjósemistrú. Forliðurinn í nafni Þorgeirs er hins vegar dreginn af Þór. Þótt frjósemishlutverk þrumuguðsins hafi fallið í skuggann fyrir bardagaglöðum jötnabana, hefur sú saga geymst á klettaristum frá bronsöld þar sem Þór sést framkvæma hjónavígslu sem reðurmikið frjósemisgoð.[48] Er sem í persónu Þorgeirs líkamnist þrír guðir með rætur í grárri forneskju sem nú runnu saman við djöful kristinnar kirkju og hans ískalda, ófrjóa lim.     

Allt frá Norður-Ítalíu til Skandinavíu er skráð í dómskjöl, að konurnar sem rannsóknarrétturinn pyntaði til sagna á tímum nornaveiða 16. aldar lýstu meintu samræði sínu við djöfulinn á einn veg, sem kvalafullu. Þetta reyndist eiga sér þá einföldu skýringu að spyrjendurnir voru búnir út með kennslubækur sem kváðu á um hvers spyrja skyldi.[49] Eins og í okkar eigin sögu réði bráðsmitandi óttinn en ekki sannleiksleitin þegar hinu „illa“ skyldi útrýmt. Eigum við þó söguna af Gullveigu sem kennir okkur að því sem við óttumst verður ekki útrýmt, heldur er einungis hægt að ummynda það. Sýnist mega draga þá ályktun af gildishlöðnu nafni Þorgeirs að erktýpan sem það rís upp af fái ekki gegnt náttúrulegu hlutverki sínu í þágu lífs og grósku. Vel mætti hugsa sér að kyrrstæður grár hesturinn á hlaðinu sé vísun í hinn goðkynjaða Sleipni sem fyrrum brunaði á milli uppheima og undirheima á sínum átta fótum en lúterskur rétttrúnaður hafði nú gelt. Samskiptarásinni á milli sjálfsvitundar og dulvitundar hafði verið skellt í lás. Menn skyldu ganga veginn sem kirkjan hafði fyrir þá lagt. Ekki fara út af honum eins og Rauðhetta litla sem fyrir vikið hafnaði í dimmum kviði úlfsins.

Blóðug hrollvekjan á hlaðinu endurspeglar jafnframt hryggbrotið sem atti Þorgeiri út í að búa til bolann:

… eitt sinn bað hann [Þorgeir] sér konu… en konan vísaði honum frá; varð honum skapþungt af þessu og heitaðist við hana. Eftir þetta er mælt hann hafi fengið sér flegið kálfshöfuð, sumir segja nautsklauf, og komið þar í hundslöpp, en hvort sem var kvað hann þar yfir galdur og magnaði það svo með fjandans krafti að af því átti að verða draugur sá í nautslíki sem síðan var kallaður Þorgeirsboli.

 Hér gef ég mér að sögumaður bregði á leik. Ef Guð gat búið konuna til úr rifbeini karlsins því skyldi öflugur galdramaður ekki getað komið sér upp bola úr þessum efniviði? Og hann heldur áfram:

 Er svo mælt að hann hafi átt að senda þenna [svo] ófagnaðargest konu þeirri er honum synjaði ráðahagsins við sig og hafi boli átt að eiga við hana þar til hún hafi dáið af viðureign hans. Sumir segja það hafi komið niður á systur hennar og vitum við eigi hvort sannara er.

Í annarri útgáfu sögunnar sem er stílfærðari og öllu léttúðugri í tóni hafa fórnarlömbin bæði öðlast nafn. Heitir sú fyrri Guðrún en hin Helga, sögð náskyld Guðrúnu.

Einu sinni var Guðrún stödd við kirkju; kvaldi þá boli hana svo í kirkjunni að hún hafði engan frið og fékk svo hörð flog að henni lá við meiðslum. Gekk þá maður út úr kirkjunni og sá hvar boli lá á húshlið: önnur hlið hússins sneri að kirkjunni, en á hliðinni sem frá sneri lá boli og hafði granirnar upp á húsmæninum svo maðurinn sá í opnar nasir hans. Sýndist honum leggja gráan streng úr nösunum og út að kirkjunni… 

… lá hann á baðstofunni uppi yfir Helgu og kvartaði hún mjög um hvað þungt væri ofan á sér, einkum á fótunum þó þeir væru naktir; enda lá boli rétt uppi yfir þeim… 

Naumast eru nafngiftir þessar tilviljun og dreg ég þá ályktun að konurnar, sem báðar biðu bana af völdum bola, séu persónugervingar fyrir guðdómlegt eðli sem laut í lægra haldi fyrir yfirgangi Geira. Inn í þessar lýsingar, eins og víðar, smýgur kynferðislegur tónn. Er þess m.a. getið að „oft sendi Þorgeir bola sinn til að ríða kúm annara [svo] manna“ og frá því sagt að einhverju sinni þegar maður var að reka kýr seint um kvöld

sýndist honum koma gráskjöldóttur nautkálfur hlaupandi og í sömu svipan ríða annari [svo] kúnni. Hann sá kúna fara saman í hnipur og heyrði hana reka upp ógnarlegt og ámátlegt öskur, en um nóttina lét kýr þessi kálffangi sínu með miklum býsnum. Snemma um morguninn kom að þessum bæ mágur Þorgeirs og fór sömu götuna og hinn maðurinn rak kýrnar kvöldinu áður og eignuðu menn þá þetta Þorgeirsbola.

 Hér kemur fram andhverfan við æxlunarkraft nautsins sem léði skepnunni frjósemisgildi í árdaga. Þegar boli náði ekki að koma fram erindunum sem hann átti að vinna fyrir höfund sinn snerist hann gegn honum sjálfum og þótt Þorgeir væri vel fær í galdri gat hann átt í mestu erfiðleikum með að verjast honum:

Einu sinni sótti boli svo fast eftir að ná lífi Þorgeirs að hann flúði ráðalaus undan honum inn í bæ til konu sinnar. Konan hélt á ungbarni sem þau áttu og ætlaði Þorgeir að taka það í þessum vandræðum og fá bola til að sefa hann með því. En konan bað hann í öllum bænum að gera það ekki, heldur skyldi hann taka kvígu sem þau áttu úti í fjósi og gefa honum hana. Það gerði Þorgeir, leysti kvíguna og hleypti henni út. En að stundu liðinni fannst kvígan öll sundur tætt í smástykki nálægt bænum.

 Í Kennimarki kölska lýsir séra Páll barnaáti galdrakvenna að undirlagi djöfulsins sem hann tekur upp úr Nornahamrinum (Malleus malificarum), riti sem var lagt til grundvallar fyrrnefndum nornaveiðunum.[50] Shuttle og Redgrove leggja til að þessi áburður sem lá á „nornum“ kunni að skýrast af þeirri hugmynd að blæðingarnar væru blóð og líkami barns sem kom ekki undir.[51] Legið fyrirkom lífi sem ekki varð. Glæpurinn var yfirfærður á konuna sem bar legið í sér. Ungabarnið sem kona Þorgeirs heldur á í fangi sér og hann hyggst friða bola með, ýjar að tengslum við þessa hugmyndafræði sem séra Páll gleypti hráa og rannsóknarrétturinn byggði dóma sína á.            

Í afdrifum kvígunnar birtist sundrunarkrafturinn í hnotskurn. Virðist sem boli rústi hér grundvelli norrænnar heimsmyndar sem ímyndaðist í Auðhumlu, hinni gjöfulu móðurnáttúru. Þótt skopið smeygi sér víða inn í sagnirnar af Þorgeirsbola, sýnast þær umfram allt endurspegla ótta alþýðunnar við að missa fótanna í nýrri heimsmynd þar sem kunnuglegur veruleiki er leystur upp og fornum átrúnaði sökkt í víti kristinnar hugmyndafræði.

Uruz

Úruxi: hellamynd frá Lascaux

Sem fyrr segir var u-rúnin, uruz, upphaflega tileinkuð úruxanum, villtri tegund sem nú er útdauð. Í bók sinni Galdrar á Íslandi vísar Matthías Viðar í Edred Thorsson sem telur að rúnin sé „sniðin eftir“ sögninni um Auðhumlu. Í íslenska rúnakvæðinu kallast rúnin hins vegar úr og er tengd við „regn eða skýfall: [52]

Það sem vekur sérstaka athygli mína í kvæðinu er lykilorðið umbre sem þýðir ‚skuggi‘ leitt af terra di ombra sem þýðir bókstaflega ‚skuggajörð‘ og er þar átt við brúnjárnstein sem mýrarrauði er afbrigði af en úr honum var unnið járn með blæstri.[53] Þessi merking kemur fram í norska rúnakvæðinu þar sem segir: „Úr er af illu járni.“[54]

„Myrkt er úti, / mál kveð eg okkur fara / úrig fjöll yfir,“ segir Skírnir við reiðskjóta sinn þegar hann ríður erinda Freys í jötunheima til að fá Gerðar. Í yfirfærðri merkingu gæti umbre vísað í skugga jarðar sem máninn hverfur inn í á milli niðs og nýs og kemur út þaðan aftur endurborinn. Einangrun kvenna meðan á blæðingum stóð byggðist að líkum á þessu mynstri. Jarðneskt ritúal endurspeglaði samruna gyðju og guðs á bak við svarta hulu hins nýja tungls sem ól af sér nýjan hring og nýja möguleika.

Umbre beinir sjónum okkar að Satúrnusi sem „fann … rauða þann í jörðu, er hann blés af gull.“[55] Íslenska rúnakvæðið um þursinn tengir Satúrnus við blæðingar:

Frá jungísku sjónarhorni stendur skugginn fyrir eitthvað í eðli okkar sem við erum okkur ekki meðvituð um eða viljum ekki kannast við og vörpum þess vegna frá okkur út í heim og yfir á annað fólk. Í andlegri gullgerðarlist er skugginn frumefnið. Án frumefnisins getur vinna við gullgerðina ekki hafist. En það getur reynst þrautin þyngri að finna það vegna þess að það hefur jafnan til að bera satúrnískt eðli eða er eitthvað sem við fyrirlítum í sjálfum okkur og viljum ekki sjá.[56] Vandfundið er það í menningu okkar sem þykir auvirðilegra en blæðingar og hórur. Konum blæðir. Kjósi þær að samstilla sig tunglnáttúru sinni og draga af henni lærdóm um sjálfar sig og heiminn sem þær byggja fremur en að beygja sig í blindni undir álögin sem Drottinn Guð lagði á konuna í Genesis 3, gera þær sig sekar um óhlýðni og andlegt framhjáhald samkvæmt ritningunni. Verkefni sérhvers manns er að horfast í augu við skuggann sinn og gangast við honum, til góðs eða ills. Jung bendir á að skugginn sé ekki einber illska, heldur eitthvað sem við höfum ekki þroskað með okkur vegna þess að það fellur ekki að forskriftum samfélagsins sem hefur mótað okkur. Hann er hið frumstæða í eðli okkar, hellisbúi, tímaskekkja, og þess vegna getur reynst óyfirstíganlega erfitt að gangast við honum og leyfa honum að koma fram í dagsljósið. Við óttumst aðhlátur, útskúfun, og eyðum orku í að bæla niður það sem þráir að komast út úr dimmum skúmaskotum veru okkar. Þegar við vingumst við skuggann endurheimtum við orkuna sem bælingin útheimti.            

Satúrnus var rómverskur guð sáningar sem ríkti á gullöld í árdaga menningarinnar. Hann var hliðstæða hins gríska Krónusar. Ljárinn var einkennisgripur beggja og báðir voru persónugervingar tímans. Í rúnakvæðinu er honum gefin nafnbótin þengill, þ.e. „sá sem stendur fyrir vexti og velferð samfélagsins,“ og rímar sú skilgreining vel við lýsingu Snorra á ágæti Satúrnusar sem hann hefur til skýjanna fyrir visku, brautryðjendastarf og forspárgáfu. Virðast mér rætur okkar sem dauðlegrar tegundar liggja í rauðanum sem Satúrnus blés af gull.

En skyldu þá vera tengsl á milli Satúrnusar og úruxans sem u-rúnin, uruz, var upphaflega nefnd eftir? Kannski svarið sé að finna í sögu hjá Snorra:

Einn tíma fór hann [Satúrnus] skipi til Grikklands, því að þar var konungsdóttir sú, er hann hafði hug á. Hann fekk með því náð henni, að einn dag, sem hún var úti með þjónustukonum sínum, þá brá hann á sig líki graðungs eins og lá fyrir henni í skóginum, og svo fagur, að gulls litur var á hverju hári. Og sem konungsdóttir sér hann, þá klappaði hún um granirnar. Hann sprettur upp og brá af sér graðungs líki og tók hana í fang sér og bar hana til skips og flytur heim í Krít.[57]

Matthías segir að það sé ekki með vissu vitað hvers vegna úruxanafnið var tekið upp í rúnastafrófið. Hann vísar í Ralph W.V. Elliott sem álítur margt benda til að úruxinn hafi verið fórnardýr meðal germanskra þjóða og að líkindum talið heilagt dýr. Þá hafi veiði hans haft á sér manndómsbrag og ungir menn reynt afl sitt með því að veiða hann. Matthías nefnir einnig, og ekki get ég neitað að það slær mig í ljósi draumsins míns, að Sesar hafi fjallað um úruxann í riti sínu Gallastríðin, þar sem segir að fræknir menn hafi getið sér frægðar fyrir að veiða þessa aflmiklu skepnu sem þyrmdi hvorki mönnum né dýrum. Bók Matthíasar hafði ég vissulega lesið átta árum áður en Sesararnir þrír og nautið sóttu mig heim í draumi en ég var mér engan veginn meðvituð um að þessi frásögn hefði haft sérstök áhrif á mig. Það er ekki fyrr en nú að ég átta mig á samhenginu svo hugsanlega hefur hún síast inn í undirvitund mína og beðið þar síns tíma. Í ofangreindum lýsingum helst hetjuhugsjónin í hendur við útrýmingu dýrsins. Ímynda ég mér að ógnvekjandi styrkur þess hafi þótt réttlæta vægðarlausa aðförina sem að því var gerð. En úruxinn var líka búinn djásnum sem hetjurnar ásældust og þar á ég við horn dýrsins sem þóttu dýrgripir og voru notuð sem bikarar við helgiathafnir. Óneitanlega minnir þetta á  útrýmingarvána sem nú vofir yfir ýmsum dýrategundum jarðar vegna ásælni í horn þeirra og bein.           

Manndómsbragurinn sem tengdist veiði úruxans hjá Germönum hefur leitt til þeirrar uppástungu að u-rúnin tákni karlmennsku eða líkamlegan styrk. Að dómi Matthíasar fellur sú túlkun að „‚fallísku‘ útliti stafsins og styðst að auki við afl skepnunnar.“ En hvað með yfirnáttúrulegan styrk tröllkvenna sem, eins og blæðingarnar, voru fyrir utan samfélag manna? Þótt þessar kvenpersónur hafi ekki haft sýnilegan lim, voru þær gæddar ‚fallískum‘ krafti sem ímyndaðist í reiðskjótum eins og úlfi.

Hörgur Freyju

Hlutverk hörga í trú Germana er sveipað hulu. Fundist hafa leifar slíkra fórnaraltara frá síðari hluta steinaldar en hver upprunaleg merking þeirra var er hins vegar byggt á getgátum. Óttar hlóð Freyju hörg úr steinum og rauð hann í nautablóði og Matthías getur þess að úruxinn hafi að líkindum verið heilagt fórnardýr meðal germanskra þjóða. Þetta vekur spurningu um hvort samband hafi verið á milli hörgsins og uruz-rúnarinnar sem táknmyndar fyrir fallískan kraft. Sé flett upp á orðinu hörgur í orðsifjabókinni er talið að það megi m.a. rekja til fhþ. harug sem þýðir ‚helgur steinn‘. Í Delfí er að finna stein sem er álitið að hafi staðið í helgasta hluta hofsins, nærri hofgyðjunni Pýþíu, og mun því hafa verið trúað að í gegnum slíkan stein mætti öðlast beint samband við guðina.           

Áður var drepið á tengsl hörgs og vörðu í gegnum orðsifjar og eins hitt að varðan er sögð hafa verið upphafleg mynd hins gríska Hermesar, sendiboða guðanna sem leiðsagði sálum framliðinna til handanheims. Ef tengsl eru á milli hörgsins, sem var roðinn í nautablóði, og vörðunnar hefur hann væntanlega verið hugsaður sem leiðarvísir á veginum til endurfæðingar og hefur myndlíkingin þá vísað í leghálsinn eða innri lim konunnar sem spýtir blóði þegar hún er á túr. Er nokkuð sýnt að þannig er ástatt fyrir Freyju í Hyndluljóðum þar sem hún vekur upp Hyndlu og talar hana inn á að koma með sér á gandreið til að grafast fyrir um uppruna og ætt Óttars:

Og Freyja bætir við:

Í formála að þjóðsögunni Gandreiðin, getur Jón Árnason þess að gandreið þýði „eftir uppruna sínum úlfareið.“[58] Gandreiðin er eina sagan í gjörvöllu safni Jóns Árnasonar þar sem fjallað er um tíðablóð umbúðalaust.[59] Goðsögulegt samband úlfs og mána er kunnara en frá þurfi að greina en gölturinn Gullinbursti, sem er reiðskjóti Freyju í Hyndluljóðum, er hins vegar táknmynd fyrir sólina. Freyja leitar á náðir Hyndlu sem blundar í skuggaveröld undirvitundarinnar til að fá upplýsingar sem geti dugað Óttari. Yfir þessu tvísæi býr sérhver kona. Úlfurinn er dýr dauðlegrar náttúru en Gullinbursti er tákn fyrir náttúrulegt fyrirbæri smíðaður af dvergum. Náttúran er uppspretta sköpunar. Án sambandsins við Hyndlu væri Freyja ófrjó, sköpunargáfa hennar geld. Galdurinn liggur í systurþeli og samstillingu. Freyja nálgast Hyndlu af alúð en Hyndla er vör um sig enda utangarðs og óvinur í ljósheimi menningarinnar. Útreiðin sem Gullveigu hlotnaðist í Valhöll forðum er eflaust skráð í óbrigðult minni hennar sem og barsmíðar Þórs á „brúð[um] bölvís[um] / er til bjargs gengu.“[60] Til að laða hana til liðs, kveðst Freyja munu blóta Þór og biðja þess að hann sýni henni elskusemi þótt honum sé reyndar lítt um „jötuns brúðir“ gefið.

„Nú er rökkur, rökkra,“ segir Freyja þegar hún vekur Hyndlu. Tvítekningin bendir til að tíminn sé hagstæður, hugsanlega er nýtt tungl og nóttin myrk. Eðlunarfýsn er innbyggð í orðið runi í merkingunni ‚göltur‘. Skylt því er runi í merkingunni ‚rennsli‘. Rannsóknir sýna að kynhvöt konunnar rís hvað hæst í kringum blæðingar. Sá háttur formæðra okkar að draga sig í hlé frá hjónasænginni á þessum tímapunkti bendir til að þær hafi fundið kynorku sinni annan farveg en hjónabandsstofnunin kvað á um. Almennt hefur verið talið að karlar hafi þröngvað einangrun upp á konur vegna þess að þær væru óhreinar en nú vex þeirri skoðun fylgi að ritúal-einangrun sé runnin undan rótum kvenna sjálfra sem samstilltu sig hljóðfalli mánans og hurfu inn í skemmur sínar þegar máninn hvarf af himni, ýmist einar eða í hópum, og helguðu sig andlegum og skapandi verkefnum. Um þetta höfum við ótal dæmi í fornum sögum okkar. Lýsingin sem dregin er upp af Freyju í Sörlaþætti styður þessa kenningu:

Hún átti sér eina skemmu. Hún var bæði fögur og sterk, svo að það segja menn að ef hurðin var aftur og læst, að enginn maður mætti koma í skemmuna án vilja Freyju.[61]

Í aðdragandi þessarar lýsingar er tekið fram að Óðinn hafi verið afar ástfanginn af Freyju og þá jafnframt gefið í skyn, undir rós, að skemma hennar hafi ekki ávallt staðið honum opin. Í kjölfarið kemur svo frásögnin af undirheimaför Freyju inn í steininn til dverga og endurkomu hennar með gullmenið.

Í Hyndluljóðum leitar Freyja að svörum sem geti dugað Óttari í veðmáli gegn Angantý:

Telur hún sér skylt að styðja hinn unga Óttar svo hann „föðurleifð hafi / eftir frændur sína.“ Ljóðið sýnir hve mikilvægt er að muna uppruna sinn til að ná settu marki. Síðasta rúnin í rúnastafrófinu er o-rúnin, oþila eða óðal. Í veraldlegum skilningi má lesa þessa rún inn í Hyndluljóð sem tákn fyrir föðurleifðina sem Óttar á á hættu að missa til Angantýs. Í andlegum skilningi er hún vísun í hin innri heimkynni. Hér lokast hringurinn, leitandinn er kominn heim. En til þess að náð sé í þennan áfangastað má þráðurinn til upprunans ekki rofna.

Óttar var kallaður „heimski.“ Til viðbótar ýjar nafn hans að hugleysi sem hugsanlega er ætlað að varpa ljósi á andhetjuskap hans og trú á ásynjur. Líkast til er Óttar kolbítur. Í ævintýrunum hreppir kolbíturinn hnossið vegna þess að viðhorf hans til heimsins einkennist af fordómaleysi og gefur niðurlag ljóðsins vísbendingu um að stuðningur Freyju leiði Óttar í örugga höfn. Nafn mótaðilans tengist aftur á móti stríðsguðinum Tý og bendir til að Angantýr sé hetja. Týr sýndi þá hetjudáð að leggja hægri hönd sína í gin úlfsins svo unnt væri að leggja á skepnuna álagaband og vernda Óðin fyrir sköpum sínum.[62] Þar eð úlfurinn var reiðskjóti tröllkvenna, eins og Hyndluljóð sýnir gerst, fól binding hans í sér þvingaða bælingu á tíðanáttúru konunnar af hendi ása sem, með Alföður í hásæti, voru fulltrúar feðraveldismenningar. Með þessum gjörningi voru ráðin tekin af konum og þær sviptar valdi yfir eigin náttúru. Er það með öðru til marks um ósýnileika álagafjötursins að fræðimenn eiga erfitt með að skilja að slefan sem rennur úr munni úlfsins skuli vera „sú á er Vón heitir.“[63] Andstætt hetjunni hyllir Óttar hina kvenlægu sköpunarlind með því að gera Freyju hörg og rjóða hann í nautablóði. Þar með gengur hann á skjön við karlmennskuhugsjón feðraveldisins.           

Elder rekur að með tímanum hafi varðan, hin upprunalega ímynd Hermesar, breyst í ferhyrndan steinstöpul sem karlmannshöfuð sat jafnan ofan á en var að framan búinn reistum lim og eistum af venjulegri stærð. Er ekki úr vegi að ætla að yfirtaka karla á kvenlægum veruleika búi að baki þessari umbreytingu eins og lýst er hjá Shuttle og Redgrove. Rómversk hliðstæða Hermesar var guðinn Merkúríus sem Óðinn er talinn eiga um margt skylt við, m.a. er miðvikudagur helgaður báðum. Eins og kvikasilfrið er síkvikt, skiptir sendiboðinn Merkúríus hömum til að koma skilaboðunum sem hann ber, t.d. inn í drauma fólks, sem best á framfæri. Slík skilaboð eru í vissum skilningi vörður á lífsbraut manneskjunnar og vísa henni veginn til blómgunar og þroska í þágu sjálfs og heims. Merkúríus lýtur vilja æðri máttar. Sjálfur er hann hlutlaus samskiptarás á milli hins efra og neðra, á milli Guðs og manns. Þannig þjónar Merkúríus hlutverki sínu af heilindum. Eins og Merkúríus gat Óðinn skipt hömum en mörg eru dæmin um óheilindi hans og valdafíkn sem ganga aftur í sögunum af Galdra-Geira og bola hans.

Erindi draumsins

Að leiðarlokum er skylt að spyrja um erindi draums míns. Mér varð ljóst að viðhorf mitt til kvenlægrar náttúru minnar hafði einkennst af sofandahætti og þekkingarleysi og að ég yrði að taka það til róttækrar endurskoðunar. Slík endurskoðun kallaði á að ég kafaði djúpt í arfinn sem mér hafði verið miðlað í uppeldi og á langri skólagöngu. Róttæk gat breytingin ekki orðið nema með því að ég aflaði mér skilnings á í hvaða jarðvegi rætur mínar liggja. Þessi grein er tilraun til glöggva mig á hvar mitt sanna sjálf er að finna í þeirri flóknu mynd sem menning mín hefur gert sér af því hvernig lífi skuli hagað á þessari jörð. Þar eð ég er hluti af heild kunna hugleiðingar mínar að eiga erindi við aðra sem deila arfinum með mér.         

Við hæfi er að enda á niðurlagi engilsaxneska kvæðisins um úruxann: „it is a creature of mettle.“ U-rúnin er með öðrum orðum áskorun um að sýna hvað í manni býr. Kannski var þetta einmitt erindi draums míns, að blása mér í brjóst kjarki til að hleypa ágengum þönkum fram í dagsljósið.  

Tilvísanir

[1] Þótt ég hafi ekki fjallað um nautið í fyrri skrifum, að undanskilinni B.A.-ritgerð árið 1992, byggist þessi grein að miklu leyti á „Freyja“ sem ég skrifaði fyrir Archive for Research in Archetypal Symbolism (ARAS) 2003, „Menstruation“ í The Book of Symbols: Reflections on Archetypal Images, útg. af Taschen 2010 (báða textana er að finna á vefsíðu minni http://www.hallfridur.is/), og bók minni Quest for the Mead of Poetry: Menstrual Symbolism in Icelandic Folk and Fairy Tales, útg. af Chiron Publications 2016. 

[2] Gylfaginning: VI.

[3] Orðaskýringar í þessum texta eru teknar upp úr Íslenskri orðsifjabók e. Ásgeir Blöndal Magnússon nema annað sé tekið fram.

[4] Hans Biederman. Dictionary of Symbolism: 175.

[5] Sjá grein mína „Helgar tíðir“ í Lesbók Morgunblaðsins 3. apr. 2004, þar sem segir: „Í frumstæðri heimsmynd var því trúað að barnsfóstur væri ‚mótað‘ úr blóðinu sem hættir að flæða meðan á þungun stendur. (Neumann: 1991, 31) Í því ljósi séð fela blæð­ingar í sér dauða og upplausn formgerðar og mynda frjósaman jarðveg fyrir nýtt skeið og nýja möguleika. Þær bera í sér þróunarkraft sem goðsögur gefa okkur til­efni til að ætla að hafi þrýst manneskjunni út úr meðvitundarleysi dýrs­legrar náttúru.“

[6] 130-136.

[7] Gylfaginning: VIII.

[8] „volva or vulva… in partic., the womb, matrix of women and she-animals (syn. uterus).“ Lewis og Short. 1879. A Latin Dictionary. Oxford at the Clarendon Press.

[9] Shuttle og Redgrove. The Wise Wound: 179; Jean Shinoda Bolen. Crossing to Avalon: 117.

[10] Bls. 23; breski listmálarinn John Collier hafði aðra og ólíka sýn á Pythíu. Á samnefndu málverki hans frá 1891, sem sjá má á http://en.wikipedia.org/wiki/Pythia, trónir rauðklædd hofgyðjan hátt „gullnum stóli á“ (sbr. Hávamál: 105) sem vissulega er þrífótur og kunna ljónsfæturnir að vísa í hinn villta, þ.e. ómennska, kraft sem hún léði rödd sína. Sótt 5. 9.14.  

[11] Shuttle og Redgrove: 147; 208.

[12] 4. kafli.

[13] Ynglinga saga: VII.

[14] J.Á. II: xvii. „Formáli 1. útgáfu,“ eftir Guðbrand Vigfússon.

[15] Orðaskrá úr uppeldis- og sálarfræði: 48.

[16] Rudolf Simek. Hugtök og heiti í norrænni goðafræði: 99-100; Sigurður Nordal. Völuspá: 63.

[17] „For there are in our initial material many superfluities of various kinds which can never be reduced to purity. Therefore it is advantageous to wash them all out thoroughly, but this cannot be done without the theoria of our secrets, in which we give instructions for extracting the Royal Diadem from the menstruum of a whore“ (tilv. Carls Jung í Eirenaeus Philalethes í Psychology and Alchemy, mgr. 403, nmgr. 3). Jung er hér að fjalla um hugtakið theoria í samhengi gullgerðarlistarinnar en beinir ekki sjónum að hinni sláandi myndhverfingu „menstruum of a whore.“ Menstruum þýðir ‘leysiefni’ (solvent) eða ‘tíðablóð’ (menstrual discharge) og er svo skilgreint í TheFreeDictionary: „From Medieval Latin, from Latin mēnstruus monthly, from mēnsis month; from an alchemical comparison between base metal being transmuted into gold and the supposed action of the menses“ (http://www.thefreedictionary.com/menstruum). Í „Decknamen or pseudochemical language? Eirenaeus Philalethes and Carl Jung“ e. William R. Newman, er hið eftirsótta frumefni tilgreint berum orðum sem „tíðablóð hórunnar okkar“ (the menstrual blood of our whore) eða jafnvel „siðlausrar hóru“ (of a sordid whore) (http://www.persee.fr/web/revues/home/prescript/article/rhs_0151-4105_1996_num_49_2_1254), bls. 181-182; sótt 11. jan. 2015.

[18] Hyndla þýðir ‘tík’.

[19] The Body. An Encyclopedia of Archetypal Symbolism: 333.

[20] 179; sjá nmgr. 34 hér að aftan.

[21] Louis Charbonneau-Lassay. The Bestiary of Christ: 16-19.

[22] Í jólasálmi Sveinbjörns Egilssonar, „Heims um ból“, er Jesús kallaður „lifandi brunnur hins andlega seims.“ Þegar rýnt er í merkingu og sifjar orðsins seimur hlýtur sú spurning að vakna hvað ráði för þegar merking orðs er ákvörðuð. Eflaust hafði skáldið í huga hið andlega gull sem leit gullgerðarmanna miðalda beindist í æðsta skilningi að, þ.e. leitinni að hinu ódauðlega sjálfi. Þannig er 1. merking orðsins seimur k. skilgreint sem ‘auðæfi, gull’; eiginl. (gull)þráður; sk. sími. – Í Helgakviðu Hundingsbana I er sími notað um um örlagaþræði sem nornir sneru hetjunni: „Þær um greiddu / gullin símu…“ – 2. merking sama orðs er ‘hunangskaka, vaxkaka’, skylt fhþ. og mhþ. seim k., seime kv. ‘slímhimna, seigur vökvi’ sbr. jó. sime av ‚drjúpa niður‘, lþ. sêmig ‚slím- og maukkenndur‘ og gr. (h)aima ‚blóð.‘ Af ie. *sei ‘drjúpa, renna’. Þessu skylt er físl. simi sem er sjávarheiti en 2. merking sama orðs er uxaheiti og þá rakið til simul kv. sem er úrelt orð og merkir ‘hreinkýr; tröllkona’ og er að því leitt getum að síðari merkingin „hafi æxlast af ‘hreinkýr’ sem einsk. lastyrði.“ 3. merking orðsins seimur k. (15. öld) er ‘ymur af hljóði; langdreginn syngjandi’. Skylt seimur (1) er seimir k., úrelt orð sem þýðir ‘ormur, slanga’. Í gegnum þennan frumskóg má, ef vilji er fyrir hendi, sjá grilla í kvenlægan veruleika blæðinga og seiðs þar sem söngurinn gegndi lykilhlutverki í að framkalla hugarástand sem gerði völvunni kleift að sjá í hulda heima. Á kenningin seima Gerður ugglaust rætur í þessum veruleika. Slangan var gerð að viskutákni um víða veröld í hinum forna heimi og er jafnan sú (eða ættingi hennar drekinn; draco þýðir ‚slanga‘) sem gætir fjársjóðsins torsótta í ævintýrum. Fornleifauppgröftur hefur leitt í ljós að slangan var tengd gyðjudýrkun og kann það að eiga rætur í því m.a. að hvort tveggja legið og slangan losa sig við gömlu húðina til að yngja sig upp. Í hofinu í Delfí voru haldnar slöngur og mun ég fjalla nánar um það í meginmálinu síðar.  

[23] 335; Jung hefur skilgreint erkitýpu sem áskapaða hneigð mannshugans til að fella goðsöguleg mótíf í myndir. Þótt þessar myndir haldi sínu grundvallarmynstri, geta þær tekið á sig mjög svo breytilegan búning. Sjá http://aras.org/

[24] Sbr. Hyndluljóð: 32 (hjá Gísla Sigurðssyni); Völuspá hin skamma: 5 (hjá Ólafi Briem).

[25] Sbr. Skáldskaparmál (46) þar sem segir að kenna skuli gull svo „að kalla það… munntal og rödd og orð jötna.“

[26]Af ie. men er leitt lat. mensis og gr. men ‚mánuður‘ og mene ‚máni‘. Úr þessum jarðvegi eru sprottin e. menstruation og menses sem standa fyrir blæð­ingar kvenna. Í ritgerð sinni „On the Moon and Matriarchal Consciousness“ hrekur Erich Neumann við­leitni orðsifjafræðinnar til að aðgreina rætur men ‚máni‘ og mens ‚hugur‘, sem rakið er til skrt. manas og flokkast undir hið andlega merkingarsvið. Rekur hann hvort tveggja merkingarsviðið aftur til einnar og sömu rótar, þ.e. skrt. mati-h sem er annars vegar skilgreind sem ‚hugsun, ásetningur‘ en hins vegar ‚mæling, vitneskja eða fróð­leikur‘. Sú fjölþætta merking sem þaðan hefur kvíslast er runnin af einni erkitýpískri rót, segir Neumann, og sú rót er mána-andinn („the single archetypal root underlying these meanings is the moon-spirit, which expresses itself in all of the diversified branchings, thus revealing to us its nature and its primal meaning.“): Spring 1954, published by The Analytical Psychology Club of New York, bls. 85 og bls. 90.

[27] Gylfaginning: XXXV.

[28] Texti minn um blæðingar, „Menstruation“ í The Book of Symbols, er grundvallaður á þessari mynd. Síðar útfærði ég túlkun mína frekar í fyrirlestri sem ég kallaði „Threshold Experience of the Girl-Child“ og flutti á ráðstefnu hjá háskólanum í Turku árið 2015 undir yfirskriftinni „Fragile Subjects“.

[29] http://en.wikipedia.org/wiki/Cattle_in_religion: „According to smṛti regulation, the cow is the mother and the bull the father of the human being. The cow is the mother because just as one sucks the breast of one’s mother, human society takes cow’s milk. Similarly, the bull is the father of human society because the father earns for the children just as the bull tills the ground to produce food grains. Human society will kill its spirit of life by killing the father and the mother.“ Sótt 3. mars, 2015.

[30] Jung: 1993, 33-37 (mgr. 40-43); 389 (mgr. 474).

[31] Hávamál: 110. Er hér ómaksins vert að minna á að í Gylfaginningu (XXXV) segir að tár Freyju sé „gull rautt.“

[32] 148. Þau segja: „There are reports that the Sibyls, just as they allowed temple snakes to lick into their ears to clear them for prophecy, allowed each snake their first seep of blood at the cervix. This intimate and to us almost inconceivable event would have had a religious and probably shamanistic, that is, a creative purpose. Perhaps later it was replaced by blood-sacrifice at the so-called omphalos or navel-stone, which we believe it is more natural to see as the cervix of the earth-mother’s womb.“ Ég bendi hér á hörg Freyju sem Óttar rauð í nýju nautablóði.

[33] Skáldskaparmál: 6.

[34] Edinger: 9.

[35] Sama heimild: 72; sjá einnig amgr. 17.

[36] Hér er skylt að nefna túlkun Svövu Jakobsdóttur (1988) en hún telur að litur vísi í írskan konungsdrykk, derg flaith, sem þýðir „hið rauða öl,“ og hafi gyðjan Sovereignty eða persónugervingur hennar veitt konungsefni umboð til að ríkja með því að samrekkja honum og skenkja honum ölið. 

[37] 65. vísa hjá Sigurði Nordal.

[38] Shuttle og Redgrove: 98-99.

[39] Um þetta fjalla ég í 9. kafla bókar minnar, Quest for the Mead of Poetry.  

[40] Sagnir af Þorgeirsbola eru teknar úr Þjóðsögum Jóns Árnasonar I, bls. 334-338 og III, bls. 401-402.

[41] 1996: 30.

[42]  Mósebók 2:32.

[43]  81.

[44] „Vígð Drangey.“ J.Á. I: 140.

[45] Skáldskaparmál: 6.

[46] Ynglinga saga: IV.

[47] Af gr. énkhos=‚spjót‘.

[48] Simek: 280.

[49] Irving Smith. 1990. The Burning Times, heimildamynd eftir Donnu Read sem finna má á https://www.youtube.com/watch?v=YizdSL2_pMo

[50] 61-62. Páll birtir hér vitnisburð einnar „galdrakvennanna“ um það hvernig þær ætu börnin: „Vér sitjum um börnin, skírð og óskírð, sérdeilis þau eru ei með bænum og krossum forvöruð, drepum þau með vorum ceremonium, annað hvört í vöggunni eða hjá hlið foreldranna liggjandi, og (við) stelum þeim síðan úr gröfinni, sjóðum svo í potti, þangað til beinin losna frá kjötinu og jukkið verður sem smelt vax drekkandi. En af því þar (það í pottinum) er ei sundurmollað, gjörum vér smyrsl eftir vorum vilja og vorri konst þénanlegt, af vökvanum hinum fyllum vér belg, af hvörjum hvör sem helzt drekkur að tillögðum fáum ceremonium, hann verður strax vorrar konstar meðvitandi og meistari.“ Virðist mér komin hér ein útgáfa af skáldamiðinum! Athyglisvert er að skoða þjóðsöguna „Gandreiðin“ í tengslum við þessa frásögn klerksins en um hana fjalla ég í 6. kafla bókar minnar, Quest for the Mead of Poetry.

[51] 325.

[52] Sjá 132-134.  

[53] http://onlinedictionary.datasegment.com/word/umbre, sótt 25. jan. 2015.

[54] Terra di ombra er líka náttúrulegt brúnt eða rauðbrúnt litarefni, eitt hið fyrsta sem nýsteinaldarmenn notuðu, ásamt svörtu koli og rauðu og gulu okkri, í hellamyndir sínar. Litarefni þetta var upprunalega unnið úr jörðu í Úmbríu. Pliny eldri kvað Grikki hafa kallað hina fornu Úmbríumenn þjóð þrumuveðursins vegna þess að þeir lifðu af flóð af völdum þrumuveðurs. (http://en.wikipedia.org/wiki/Umber, sótt 13. feb. 2015). Hér höfum við tengingu við hvort tveggja „skuggajörð“ og úrkomu að ofan.

[55] Snorri Sturluson. Prologus: 5.

[56] Jung: 1983, 170: „The prima materia is ‚saturnine,‘ and the malefic Saturn is the abode of the devil, or again it is the most despised and rejected thing…“

[57] Prologus: 6.

[58] I: 426.

[59] Í Quest for the Mead of Poetry fjalla ég ítarlega um þessa sögu en þar segir frá 12 prestskonum sem fóru á gandreið hverja jólanótt til að nema galdur hjá fjandanum í Svartaskóla og guldu honum tíðablóð sitt í kennslugjald.

[60] Hárbarðsljóð: 23.

[61] FN I: 367.

[62] Gylfaginning: XXXIV.

[63] Simek: 252.