Hallfridur.is

Fjöðurstafurinn og flautan

Stafadrottning úr Rider-Waite-Smith Tarot

Fjöðurstafurinn og flautan eru fyrir mér táknmynd sem endurspeglar samspil vökuvitundar og draums, menningar og villtrar náttúru. Farsælt samspil þessara vídda í manneskjunni er forsenda frumlegrar sköpunar sem, eins og alkunna er, hefur í sér fólginn lækningarmátt. Músíkin nærir hinn skapandi huga.

Draumar, tarot og ævintýri greiða okkur leið að hinni ljóðrænu vídd verunnar. Vinna með þessa miðla felst í að kanna öræfi og óbyggðir innra með okkur og færa til meðvitundar orku sem þar er bundin í hellum, pyttum og blundandi eldgígum. Markmið hennar er sjálfsþekking. Tilfinningar okkar eru eldsneytið sem knýr á um ummyndun og aukinn þroska persónuleikans. Í gegnum drauma, tarot og ævintýri getum við treyst sambandið á milli hins röklega huga og tilfinningalífsins og verðum fyrir vikið heilli og heilbrigðari einstaklingar.

Rithöfundurinn og skáldið, Rachel Pollack, höfundur The Shining Tribe Tarot, segir frá því að Hermes hinn gríski, guð visku, töfra og vísinda, sem jafnframt var leiðsögumaður framliðinna sálna, hafi fundið upp bæði flautuna og lýruna. Hermes gaf Apolló lýruna en þessi guð skynseminnar hafnaði flautunni vegna truflandi áhrifa hennar. Þá fann guðinn Pan flautuna og komst að raun um að hún væri tjáningarmiðill sem hæfði honum fullkomlega.

Norræni skáldskaparguðinn Óðinn á sitthvað sammerkt með hinum gríska Apolló en hálfnafni hans, Óður, eiginmaður og innblástur ástar- og frjósemisgyðjunnar Freyju, er ugglaust kynbróðir hins villta Pans. Óður hvarf úr sögunni og um hann er ekkert vitað annað en nafnið en það vísar í senn til villtrar náttúru sem er hráefni skáldskapar og hinnar fullgerðu afurðar, ljóðsins.

Flautan, segir Rachel Pollack, hefur fengið á sig háskalegan stimpil vegna þess að hún býður upp í villtan dans. Hún hristir af okkur hömlur regluverksins sem við höfum lært að temja okkur og frelsar okkur undan sjálfsmeðvitund og ótta. Fyrir áhrif frá henni getum við orðið fuglar, ef ekki á flugi, þá í söng. (Lauslega þýtt úr The Shining Tribe Tarot: Awakening the Universal Spirit, bls. 269).

Ég tileinka “fjöðurstafinn og flautuna” ástar- og frjósemisgyðjunni Freyju sem ferðaðist með ókunnum þjóðum í leit að sínum glataða Óði. Megi okkur auðnast að veita henni lið í þeirri leit.

Logo-ið mitt, "fjöðurstafinn og flautuna", teiknaði vinur minn og frábær listamaður, Tryggvi Edwald.