Hallfridur.is

Helgar tíðir

Grein birt í Lesbók Morgunblaðsins 3. apríl 2004

“Vel keypts litar hefi eg vel notið,” eru orð lögð Óðni í munn þegar hann hefur legið þrjár nætur með Gunnlöðu í undirheimum og haft á brott með sér skáldamjöðinn sem henni hafði verið falið að gæta. (1) Svo hljóðar í hnotskurn sögnin af ráni hins “dýra mjaðar”. Æ síðan hefur stuldur Óðins verið lofsunginn sem grundvallardáð og “því köllum vér skáldskapinn feng Óðins og fund og drykk hans og gjöf hans og drykk ásanna,” segir Snorri Sturluson. En hvað með Gunnlöðu, þráspurði ég sjálfa mig. Af hverju hverfur hún gersamlega úr sögunni? Þetta stóð í mér.

Í Völuspá er sögð athyglisverð saga af Gullveigu sem var lögð spjótum og margbrennd í höll Óðins, en þó lifir hún enn. Veig þýðir hvort tveggja ‘drykkur’ og ‘kraftur’ sem bendir til að Gullveig sé persónugerving fyrir kröftugan safa sem er gulls ígildi. Mætti þá sýnast nærtækt að tengja hana hinum “dýra miði”. Holdgerving hennar í mannheimum er völvan Heiður, úthrópuð sem angan illrar brúðar og er þar bersýnilega vísað til frjósemis- og ástargyðjunnar Freyju sem var lærimóðir Óðins og kenndi honum seið.

Hver var þessi leyndardómsfulla Gullveig sem ýmist er talin fórnarlamb eða orsök fyrsta “fólkvígs í heimi”? Fyrir hvað stendur hún? Svarið tel ég að sé að finna í Brísingameni Freyju sem felur í sér táknmynd af samræði sólar og mána. Nafngiftirnar Gullveig og Heiður, sem báðar tengjast Freyju, eru sveipaðar ljóma sem undirstrika samsömun hennar við sólina. Hvað Mána varðar lifir sú trú enn meðal frumstæðra að hann sé valdur að blæðingum konunnar. Gullveig hin ódauðlega væri þá persónugerving fyrir eilífa framrás tíðablóðsins sem hvorki spjót né eldur fá stöðvað.

Þessi opinberun leiddi af sér aðra: hrópandi þögnina sem ríkir um svo mikilvægan þátt í lífi hverrar konu sem blæðingarnar eru. Í þjóðsagnasafni Jóns Árnasonar er að finna eina sögn sem fjallar umbúðalaust um þetta efni og ber hún yfirskriftina Gandreiðin. Hér er sagt frá tólf prestfrúm sem fara gandreið í Svartskóla hverja jólanótt að nema galdur hjá fjandanum. Þegar kemur að því að greiða kennslugjaldið tekur hver og ein upp hjá sér glas með tíðablóði sínu en kölski sýpur úr og skilar svo glösunum aftur. Þegar upp kemst um eina lærimeyna og þá sem skaraði fram úr í fræðunum er hún ekki tekin neinum vettlingatökum fremur en Gullveig forðum, heldur eru henni “goldin makleg málagjöld sinnar illsku.” Gandreiðin endurspeglar viðleitni kvenna til að endurheimta náttúrulega gáfu tengda blæðingum þeirra sem hefur verið afskræmd og frá þeim tekin með hræðsluáróðri og bælingu,

Goðsögur eru sálarspegill þess samfélags sem þær eru sprottnar úr. Að tíðablóð skuli þar ekki nefnt sínu rétta nafni á eflaust rætur í bannhelgi sem tengdist ótta frumstæðrar vitundar við að kalla yfir sig blóð frumverunnar Ymis eða Aurgelmis. Í dag stöndum við frammi fyrir þeim öndverða háska að rofna frá náttúrulegum uppruna okkar. Goðsögurnar glæða skilning okkar á því hvaðan við komum og hvert við stefnum. Og þær geta jafnframt hjálpað okkur að ná tengslum við hvatir okkar og tilfinningar, því að gyðjur þeirra og guðir eru lifandi öfl í sálarlífi okkar enn í dag þótt í nýjum búningi sé.

Freyja

Freyja

Freyja silfurmen frá 800-1050. Í eigu Statens historiska museum í Stokkhólmi.

Freyja umvefur þungaðan kvið sinn örmum. Þemað endurtekur sig í Miðgarðsormi sem hringar sig utan um líkama gyðjunnar og myndar umgjörð mensins. Um hálsinn ber hún sitt nafntogaða Brísingamen. Eins og slangan sem endurnýjar sig með því að kasta gamla hamnum er Brísingamen tákn fyrir eilífa hringrás dauða og endurnýjunar. Hringar og men tengjast innsæi völvunnar í Völuspá. Freyja er formóðir völva. Af henni námu æsir hinn helga seið sem opnaði hlið hulinna heima.

Í leit sinni með ókunnum þjóðum að eiginmanni sínum, Óði, er hún orkan sem knýr okkur áfram í sársaukafullri leit að ást og uppfyllingu sköpunargáfu okkar. Yfirgefin, grætur hún tárum úr rauðu gulli. Um Óð er ekkert vitað annað en nafnið. Það þýðir í senn skáldskapur og þær áköfu hræringar sem hann er sprottinn úr. Dóttir þeirra nefnist Hnoss.

Hún ekur í vagni sem er dreginn af tveimur köttum. Og hún er líka tvírætt tákn þar sem saman fara heilandi kraftur hvíta kattarins sem er kenndur við sól og ókennileiki hins svarta sem tengist mána og landi dáinna. Óhrædd gefur hún sig kattareðlinu á vald, lætur það leiða sig inn á myrka stigu hins ókunna og ber þaðan gersemar inn í heim ljóssins. Kötturinn er sjálfstæð skepna. Hún bendir okkur á að treysta honum. Ratvísi hans er óbrigðul, hann veit hvert halda skal.

Sögnin af tilurð Brísingamens er lýsandi fyrir hlutverk hennar sem miðlara. Hún kemur að steini sem stendur opinn. Inni fyrir eru fjórir dvergar að smíða gullmen. Hún dregst að meninu, hana langar í það og hún býður fram gull og silfur og góða gripi. Dvergunum finnst hún að sama skapi hrífandi. Þeir gera henni skiljanlegt að þá skorti ekki gull og vilja þá borgun eina að hún sofi sína nóttina hjá hverjum þeirra. Hún gefur sig og kemur til baka með hnossið.

Brísingur er eldsheiti en men er samhljóða indó-evrópsku rótinni men sem þýðir ‘máni’. Af sömu rót er runnið latneska orðið mens sem á merkingarlega skylt við þann óð sem sungið er um í Völuspá og við köllum sál. (3) Ævintýri Freyju vekur upp mynd af sólinni sem gengur undir og gefst “fereinum” mána sem sökkvir sér í eldheitt skaut hennar svo rauðar glæðurnar blæða undan biksvörtum lim hans og mynda logandi djásnið. Séð í þessu ljósi er Brísingamen táknrænt fyrir heilagt brúðkaup (4) Freyju og Óðs sem á sér samsvörun í sólmyrkva á himni. Heilandi orka sameiningarinnar er undirstrikuð af tölunni fjórir sem er algilt tákn fyrir heilleika.

Máninn hafði töframátt og það höfðu konur einnig þegar þær voru á blæðingum en þær tengdust jafnan nýju tungli, þegar sól og máni eru samtengd sem kallað er og nóttin dimm. Tíðablóð gyðjunnar seytlar í feluorðum og hálfkveðnum vísum um goðsagnir feðraveldisins. Í þjóðsögum síðari tíma hefur gullin uppspretta hennar umbreyst í staðnaðan pytt, sem vekur ugg og laðar í senn. Í því djúpi liggur fólginn lykill að sköpunarkrafti kvenna og sjálfi.

Undirheimaför Freyju, sem hefðin hefur túlkað sem birtingarmynd lostasemi og græðgi, er táknræn fyrir andlegan getnað sem boðar ummyndun og endurfæðingu. Hún sýnir aðdráttarafl undirvitundarinnar sem knýr á og konuna sem náttúrulegan miðil á milli hins óborna og heims vitundar og ljóss.

Blæðingar

Kona á blæðingum. Máluð tréskurðarmynd eftir óþekktan 18. aldar listamann frá Suður-Indlandi.

Tilkomumikil hálsfestin á nöktum líkama hennar er sýnilega meira en skrautið eitt. Í táknmáli sem tengist blæðingum verður hálsinn gjarnan staðgengill fyrir ósýnilegan leghálsinn. Hér skírskota útlínur djásnsins til innri kynfæra hennar og helgidóms en sólstafirnir umhverfis hálsinn til frumlægrar, lífgefandi orku tíðablóðsins.

Laufið sem bylgjast líkt og gróskumikill haddur út frá blóminu yfir höfði hennar, kveikir tilfinningu fyrir andlegri vídd blæðinganna og blæðandi skautinu sem uppsprettu grósku og gnægðar. Verkið vekur okkur til skilnings á að blómgun konunnar á rætur í jarðvegi tíðablóðsins. Það afhjúpar það sem henni hefur verið kennt að fela: blóðið sem fossar út skauti hennar. Lífgefandi orku þess hefur menning okkar gert útlæga og hrakið inn í uggvekjandi óbyggðir sálarlífsins.

Kynngimagn tíðablóðsins vakti tvíræðar tilfinningar í brjósti mannsins. Á aðra hönd var það talið hafa lækningarmátt og gróðrarmegin auk þess að vera kröftugur ástardrykkur en á hina var það álitið óhreint og mengandi. Og sama gilti um konuna meðan hún var á blæðingum. Hvaðeina sem hún komst í snertingu við var álitið mengað og eyðileggingu undirorpið. Og með því að hún var óhrein í augum umheimsins var henni hætt við að slitna úr tengslum við sköpunarlind sína.

Í frumstæðri heimsmynd var því trúað að barnsfóstur væri “mótað úr blóðinu sem hættir að flæða meðan á þungun stendur.” (Neumann [1991]: 31) Í því ljósi séð fela blæðingar í sér dauða og upplausn formgerðar og mynda frjósaman jarðveg fyrir nýtt skeið og nýja möguleika. Þær bera í sér þróunarkraft sem goðsögur gefa okkur tilefni til að ætla að hafi þrýst manneskjunni út úr meðvitundarleysi dýrslegrar náttúru.

Blæðingarnar tjá sig á myndmáli drauma. Orka þeirra íklæðist gjarnan gervi reiðskjótans, einkum hestsins sem rennur fram eins og ólm og hraðskreið aldan. Eiginmaður Sólar nefndist Glenur en það er hestsheiti. Í þessum jarðvegi liggja rætur Freyju-Mardallar (5) sem sökkti sér í rauðgullinn sæ og leitaði brúðguma síns Óðs, en Óður er í senn tákn fyrir þær ástríðufullu hræringar sem eru hráefni skáldskapar og hið fullgerða verk, sjálft ljóðið. Um þetta sungu skáldin og kölluðu tíðablóð gyðjunnar tár.

Tónninn sem sleginn er við fyrstu blæðingar ungrar stúlku endurómar í hvert sinn sem ferlið endurtekur sig. Hann getur orðið henni lykill að ómkviðu verunnar eða stuðlað að ósamhljómi hennar við eigið sjálf. Í fjölmörgum ættbálkasamfélögum eru viðhafðir sérstakir helgisiðir þegar stúlka stendur á þessum miklivægu mótum barns og konu. Oft þjóna þeir þeim tilgangi að “móta” hana fyrir hefðbundið hlutverk eiginkonu og móður en í öðrum tilvikum er tekið mið af andlegum þörfum hennar sem einstaklings. Er hún þá látin vera ein með sjálfri sér, stundum í kofa úti í skógi, svo að mikilvægur draumur eða sýn sem kynni að vísa henni veginn eigi greiðan aðgang að henni. Við þessar aðstæður getur hún líka öðlast tiltekinn verndaranda, eða dýrafylgju sem miðlar henni krafti sínum og eiginleikum. Hún gæti verið kölluð til að verða læknir eða shamani, en í öðrum samfélögum og hjá öðrum einstaklingum kemur slík köllun ekki fyrr en við tíðahvörf. (Høst: 4). Sú trú hefur verið lífseig að þegar kona hættir á blæðingum beri hún hið vísa blóð í æðum sínum. Nornaveiðar miðalda, sem beindust að öldnum jafnt sem ungum konum, hafa verið raktar til óttans við þetta blóð. (Grahn: 262; Shuttle og Redgrove: 6. kafli)

Sá siður að konan færi afsíðis meðan hún var á blæðingum, hvort heldur í sérstakan kofa eða myrkan kima hússins, hefur verið tíðkaður um víða veröld frá ómunatíð. Myrkur var lykilatriði, því að á þessu skeiði frjósemishringsins er hún hrifin inn í röklausan heim handan vitundarmarka, læst í dularfull armlög við svartan mána. Hér kemst hún í snertingu við kveikjuna að ljóðinu sem er innblásið af hennar sanna sjálfi, er hún eins og hún getur fullkomnust orðið. Þetta er gjöf sem gerir kröfu til að hún sé þegin. Viðhorf menningarinnar, mótað af arfi fortíðar, gerir nútímakonunni erfitt um vik að svara erótísku ákalli sköpunarlindar sinnar og meðfæddrar gáfu. Ef hún bælir þessa gjöf og forsmáir, ríður hún óskáldlegri tuskunniog blessun umhverfist í bölvun.

Völva

Sýrlenska gyðjan Atargatis (Dea Syria). Museo Nazionale delle Terme í Róm.

“Svo er skrifað Pythea í Delfis, hvar er var hið sérlegasta hof, hafi setið yfir tripode með útvíkkuðum lærleggjum og spáð svo með leyndarlimnum.” Þannig lýsir séra Páll Björnsson hofgyðjunni Pýþíu í bók sinni Character Bestiæ (bls. 23). Ég reyni að lifa mig inn í hatrið í sál hans. Hlusta á guðinn í brjósti hans kveða upp sinn dóm: Brenna hana, brenna hana! Það er meðalið sem dugir til að skíra jörðina af þessum óhreinindum, þessum sora!

Sjö manns fuðruðu upp á bálinu fyrir tilstilli séra Páls sem var talinn einn lærðasti Íslendingur 17. aldar. Python er eitt þeirra nafna yfir þjóna satans sem prófasturinn tínir upp úr heilagri ritningu en það “merkir belg eða flösku meðal hebreskra og þá djöfla, sem af leyndum pörtum mannsins líkama gáfu andsvar.” (Sama rit og bls.) Eitri þessu spúðu púkarnir einkum úr “kvenmannsins leyndarlim”. Gróteskar lýsingar séra Páls kunna að varpa ljósi á hvers vegna konur eiga í svo stríðu sambandi við blæðandi legið í sér.

Lítum á Python, en svo hét slangan sem guðinn Apolló drap í Delfí til að ná véfréttinni sem hún réði yfir á vald sitt. Upprunalega var slanga þessi nafnlaus og kvenkyns en öðlaðist síðar nafn og varð karlkyns. Náttúran var spegill sem gerði frumstæðu fólki kleift að glöggva sig á atferli sínu og innri hræringum. Í henni leitaði það að samsvörun við kvenlíkamann til að finna lykil að leyndardómsfullri starfsemi hans. Og það hefur séð tiltekin samkenni með slöngunni sem eyðir drjúgum líftíma sínum í jörð, falin, líkt og legið í líkama konunnar. Hvort tveggja slangan og legið endurnýjar sig, yngir sig upp, með því að losa sig við gömlu húðina. Líku gegnir um mánann sem skerðist og kviknar nýr. Þess vegna urðu slangan og máninn samtvinnuð í hugum fólks og hvort tveggja tengt blæðingum kvenna.

Eins og konan dró sig í hlé þegar hún var á blæðingum og gafst á vald draumum sínum og sýnum, skríður slangan í jörð og leggst í dvala og máni hverfur inn í skugga sinn á himni. Og eins og völvan sækir visku sína inn í annan heim var slangan talin kunna skil á öllum leyndardómum jarðarinnar, enda jafnan sú sem gætir töframeðalsins í ævintýrunum.

Völvan var kölluð Heiður eins og fram kemur í Völuspá og fornum sögnum. Orðið ber með sér birtu og tign en vísar jafnframt til villtrar lyngi vaxinnar heiðarinnar með vötn sín full af undri. Sagnir segja að völvan hafi borið staf. Hann var kallaður gandur og er þess vegna gæddur táknrænni merkingu. Völur er líka heiti yfir staf og hefur þar verið leitað að uppruna orðsins völva. Stafur er gróið veldistákn sem okkur er tamt að tengja við hinn karllega getnaðarlim. Ekki þarf að fara í grafgötur um að vald hefur völvan haft og það mikið. Og eins og fram kemur í orðum séra Páls um Pýþíu hefur konan lim ekki síður en karlinn. Munurinn er sá að hann er raunverulegur leyndarlimur, falinn í helgum véum hennar. Ógn og lotningu hefur sá hulduheimur vakið í brjóstum þeirra sem ekki höfðu af honum beina reynslu. Sumir tala um öfund.

Völva hefur verið rakið til latnesku sagnarinnar volvere ‘snúa, velta’ (4) en af henni er leitt volva, vulva sem upprunalega þýðir ‘leg’ en færðist síðar yfir á ytri sköp konunnar. Sögnin volvere er notuð um snúning himintungla á braut sinni og einnig um hringferli atburða, árstíða o.s.frv. og tengist þannig bæði tunglmánuði og tíðum kvenna, og hún vísar líka til bugðóttrar hreyfingar slöngunnar. Enn fremur er hún notuð um öldótt eða ákaft rennsli og eru sagnirnar vella, velta(st)(byltast fram), valla (vella, sjóða) runnar af sömu rót. Allt bendir það til að völva eigi rætur í launhelgum konunnar sem er á bullandi túr.

Eins og volvere hefur orðið túr í sér fólgið hringferli og því skylt er sögnin að turna sem, eins og volvere, gefur til kynna umsnúning. Þar með er því gefið undir fótinn að þegar konan er á mánaðarlegu “ferðalagi” sínu sjái hún hluti og fyrirbæri frá sjónarhorni sem er öndvert venjubundinni sýn. Hún losnar úr viðjum takmarkaðs rökheimsins og kemur til baka með dýran fróðleik í farteskinu. Hnossin, Gersemin, það er hún sjálf endurborin.

Það heyrist haft í flimtingum að konan sé öfug og snúin þegar hún er á túr. Hún er utan við sig og henni er hættara en ella við slysum. Hún er skapstirð og pirruð. Það er togað í hana innan frá en hún þarf að standa sig í mannheimum og streitist gegn þessu innra ákalli sem hún veit ekki hvaðan kemur né hvert erindi á við hana. Einhvers staðar djúpt inni í sér veit hún það eitt að umfram allt má hún ekki feta í fótspor Evu sem dirfðist að fylgja sinni innri rödd og gerði mannkynið þar með útlægt úr paradís meðvitundarleysisins. En nú er björg í sjónmáli. Lyfjaframleiðendur eru að markaðssetja pillu sem á að bjarga henni frá sjálfri sér. Með Seasonable þarf hún ekki að fara á túr nema fjórum sinnum á ári! Þetta eru heiðarleg vísindi. Nú verður hún loksins til friðs á heimilinu, atvinnurekendur fá stöðugri vinnukraft og lyfjafyrirtæki munu moka til sín auði. Á meðan hleðst upp í hellum og afkimum undirheima gullið rauða sem náttúran ætlaði til andlegrar framþróunar mannkynsins. Þar blundar þessi orka í strangri vörslu forynja sem við óttumst, meðal hinna ósnertanlegu sem við fyrirlítum.

Tilvísanir:

1) Hávamál, v. 107.

2) Viðtekin skilgreinining á Gunnlöðu er ‘sú sem laðar til orrustu’ en gunnur þýðir ‘orrusta, bardagi’. Hitt kann að skipta máli í samhengi hlutanna að gunnur er skylt gandur sem var heiti á spástaf völvunnar. Í ritskýringum er fólkvíg ýmist talið eiga við víg Gullveigar eða svo litið á að dráp hennar hafi leitt til orrustu.

3) Af ie. men er leitt lat. mensis og gr. men ‘mánuður’ og mene ‘máni’. Í hinu fornenska söguljóði Bjólfskviðu kemur við sögu Brosingamene sem er jafnan nefnt í sama orði og Brísingamen Freyju. Úr þessum jarðvegi eru sprottin ensku orðin menstruation og menses sem standa fyrir blæðingar kvenna. (Webster’s New World Dictionary, 1978).

Í grein sinni “On the Moon and Matriarchal Consciousness” hrekur jungíski sálfræðingurinn Erich Neumann “viðleitni” orðsifjafræðinnar til að aðgreina “mána”-rótina men frá latneska orðinu mens sem stendur fyrir andann (spirit) og stilla þeim upp sem andstæðum. Neumann rekur hvort tveggja merkingarsviðið aftur til sömu frumrótar í sanskrít, mati-h, sem annars vegar þýðir ‘hugsun, ásetningur’ en hins vegar ‘mæling, vitneskja, fróðleikur’, og hann hnykkir á því að sú margþætta merking sem þaðan hefur kvíslast eigi sér eina óskipta rót. Sú rót sé “mána-andinn” og jarðvegur hennar hjartað. (Spring 1954, bls. 84-85; 90).

“Óð gaf Hænir,” segir í Völuspá (v. 18) þar sem greint er frá sköpun mannsins. Í útskýringum á þessu vísuorði telur Sigurður Nordal orðið óðr “samsvara alveg” latneska orðinu mens og hann skýrir það svo: “Óðr er ‘guðsneistinn’ í manninum, sem verður fyrir áhrifum æðri afla… Því heitir skáldskapur óðr, og því er skáldamjöðurinn varðveittur í Óðreri (Óð-hræri).” (Völuspá, bls. 73).

4) Heilagt brúðkaup (hieros gamos) er sálræn formgerð (erkitýpa) sem stuðlar að skapandi einingu andstæðna og myndar þannig brú á milli undirvitundar og hins meðvitaða huga. (Jung: 174)

5) Döll er ‘hin bjarta, sú sem ljómar’. Mar þýðir hvort tveggja ‘hestur’ og ‘sjór’, þá skylt fær. marra ‘mýri, fen, for’ og fleiri orðum áþekkrar merkingar, enda er það talið ólíklegt “að orðstofninn hafi í öndverðu átt við sjó eða úthaf.” (Ásgeir Blöndal. Íslensk orðsifjabók. Rvk. 1989) Líkingin við tíðablóð er auðsæ í þessari merkingu orðsins.

6) Lotte Motz telur að völva sé skylt indó-evrópsku rótinni uel– sem er samstofna latnesku sögninni volvere. (“Sister in the cave.” ANF 95 [1980]: 180) Helga Kress tekur í sama streng í bók sinni Máttugar meyjar og telur að merkingin ‘velta, snúa’ vísi til leiðslunnar sem völvan fellur í, hæfileika hennar til að sjá yfir í annan heim. Hún bendir jafnframt á það í aftanmálsgrein að orðið kunni einnig “að standa í einhverju sambandi við e. vulva sem merkir ytri sköp kvenna.” (1993: 35)

Ásgeir Blöndal. Íslensk orðsifjabók. Reykjavík, 1989.

Encyclopædia Britannica. University of Chicago, 1984.

Encyclopedia of Taboos: “Menstruation.” Oxford, 2000.

Grahn, Judy. Blood, Bread and Roses: How Menstruation Created the World. Boston, 1993.

Guðni Jónsson, ritstj. “Sörla þáttr.” Fornaldar sögur Norðurlanda, I. Reykjavík, 1976.

Høst, Annette. “Blessed by the Moon: Initiation into Womanhood.” Á vefsíðu Scandinavian Center for Shamanic Studies – http://www.shamanism.dk/.

Jung, C. G. The Archetypes and the Collective Unconscious, CW. 9, I (1959). Þýtt úr þýsku af Ralph Mannheim. Princeton, N.J., 1991.

Neumann, Erich. “On the Moon and Matriarchal Consciousness.” Þýtt úr þýsku af Hildegard Nagel. Spring, 1954.

Neumann, Erich. The Great Mother (1955). Þýtt úr þýsku af Ralph Mannheim. Princeton, N.J., 1991.

Oxford Latin Dictionary. Ritstj. P.G.W. Glare. Oxford, 1982.

Páll Björnsson. Kennimark kölska (Character Bestiæ). Útg. annaðist Lýður Björnsson. Reykjavík, 1976.

Shuttle, Penelope og Peter Regrove. The Wise Wound: The Myths, Realities, and Meanings of Menstruation (1978). New York, 1986.

Sigurður Nordal. Völuspá. Reykjavík, 1952.

Snorri Sturluson. Edda. Ritstj. Guðni Jónsson. Reykjavík, 1935.

Von Franz, Marie-Louise. The Cat: A Tale of Feminine Redemption. Toronto, 1999.

Weideger, Paula. Menstruation and Menopause: The Physiology and Psychology, the Myth and the Reality. New York, 1976.