Hallfridur.is

Uppgjör

Til mömmu

„Það getur enginn dæmt ykkur nema þið sjálf,“ sagði tarot-kennarinn. Orð hennar tóku sér bólfestu í huga mínum. Þau kröfðust úrvinnslu og luku augum mínum upp fyrir því hversu gagnrýnilaust ég hafði undirselt mig dómum annarra. Sjálfsmynd mín valt á viðhorfi heimsins til verka minna eins og hún hafði byggst á einkunnunum sem ég ávann mér í skóla. Það tók mig langan tíma að tileinka mér lexíuna sem ég lærði í fílunni  forðum, að dómar okkar eru að miklu leyti grundvallaðir á for-dómum sem eru undirliggjandi í menningunni og stýra ómeðvitað hugsun okkar og gjörðum. Þar kom að ég  áttaði mig á hversu óvægin ég var í dómum gagnvart sjálfri mér og ég skildi að sjálf var ég harðstjórinn sem ég hafði komið fyrir úti í óvinveittum heimi. Ógnvaldurinn bjó innra með mér og hindraði að draumar mínir fengju ræst.

Einn góðan veðurdag vaknaði ég upp af draumi sem leiddi mér stöðu mína fyrir sjónir:

Unga konan gengur með barnið mitt og það stendur upp á mig að gefa henni bók. En hvers konar bók ætti það að vera? Ég reyni að sjá bókina fyrir mér framan á maganum á henni – stór, lítil, ljóð, sögur…

Ég er stödd í bókabúð og blaða í listaverkabókum þegar mér er bent á bók sem liggur á kringlóttu borði í miðjum afgreiðslusalnum. Ég kannast strax við höfundinn, Frakka sem hefur helgað sig þýðingum á íslenskum fornbókmenntum yfir á móðurmál sitt. Ég renni í gegnum bókina og nem í svip mynd af konu í bleikum kjól. Ég fletti áfram og aftur ber bleika kjólinn fyrir augu mín. Þegar hann birtist í þriðja sinn staldra ég við. Þetta er greinilega ballettbúningur og ég fæ ekki betur séð en konan sé þunguð. En þegar betur er að gáð er konan í þessum ljósbleika kjól ósýnileg, samrunnin svörtum bakgrunni myndarinnar.

Ég býst til að renna áfram í gegnum síðurnar þegar ég heyri unga kvenrödd hreyfa andmælum fyrir aftan mig, “Þú ferð svo hratt!” Bænin er auðheyrð í rödd hennar. “Ég hef svo lítinn tíma,” ansa ég hlýlega og sný mér við. En þar er engan að sjá. Ég beini athygli minni aftur að myndinni og í einni svipan lýstur erindi ungu konunnar með óvefengjanlegri vissu í huga mér. Svarti svanurinn! Skuggi sem vill ná til mín. Huldukona sem þarfnast hjálpar minnar svo afkvæmið fái litið dagsins ljós. Bókin.

 

 

Ég dvel við þessa þokkafullu, holdlegu mynd af bleikum kjól sem lýsir eins og morgunroði á næturhimni og boðar dögun, þungaða af fyrirheitum þrátt fyrir að framorðið sé í lífinu. Það er satt, mér liggur á, finnst ég hafa lítinn tíma til að hrinda í framkvæmd öllu sem mig langar til að gera. En nú finn ég að ég á ekki annarra kosta völ en að hlusta á þessa ungu rödd sem sárbænir mig að hægja ferðina og ígrunda myndina í þessari frönsku bók. Hvers vegna?

Þegar ég var ung var ég blátt áfram ástfangin af franskri tungu sem lauk upp fyrir mér heimi fegurðar, ljóðs og lista. Svo skýtur því upp í huga mér að á þessum árum þýddi ég franska skáldsögu yfir á íslensku. Sagan fjallaði um eldheitar ástir ungrar franskrar stúlku og kínversks manns sem tilheyrðu gerólíkum heimum og var meinað að eigast. Sagan er byggð á persónulegri reynslu höfundarins og ég ímynda mér að þessi stóra ást, sem aldrei dó þótt heimshöf skildu elskendurna að, hafi orðið hennar skáldskaparlind.

Ég var satt að segja búin að steingleyma þessum afdrifaríka atburði í lífi mínu, eða svo hélt ég. En nú þegar draumurinn stillir mér upp gagnvart honum, minnist ég upphringingar frá mömmu einn sunnudag seint í nóvember. Ég heyri strax að það er eitthvað að. Á daginn kemur að dómur um þýðinguna mína hafði birst um morguninn. „Þarf hún ekki að kunna frönsku?“ spyr mamma. Með „hún“ á hún við bókmenntagagnrýnanda Morgunblaðsins. „Er þetta svona slæmt?“ spyr ég. „Já,“ stynur hún upp og á auðheyrilega erfitt með að láta orðið út úr sér. „En þarf hún ekki að kunna frönsku?“ ítrekar hún. Ég hlýði dofin á þennan örlagadóm sem yfirskyggði á augabragði umsögn ástsæls skálds sem hafði lesið yfir síðustu próförk að bókinni og, að sögn útgefanda, lokið lofsorði á verkið. Orð hans höfðu léð mér vængi sem nú voru á augabragði stýfðir. „Kannski bara finnst henni þetta,“ ansa ég, tilbúin að játa mig sigraða. Tilraun mín til að öðlast inngöngu í þráðan heim hafði mistekist. Ég hafði fallið á prófinu.

Gagnrýnandinn skóf ekki af vanþóknun sinni:

 

Því miður hef ég ekki lesið þessa bók á frummálinu, af þeirri einföldu ástæðu að kunnáttuleysi kemur í veg fyrir það. En ég las hana í norskri þýðingu… eftir að ég fór að skoða íslenzku þýðinguna. Af þeirri einföldu ástæðu, að mér fannst að svo margt fleira byggi í textanum en skilaði sér á íslenzkunni. Íslenzka þýðingin er blæbrigðalaus, þýðingarbragðið rammt, ljóðrænan og angurværðin víkur fyrir lágkúrulegri og sviplausri frásögn. Norska þýðingin virðist mun betur heppnuð. Það er áreiðanlega mikill misskilningur að nægilegt sé að kunna frönsku til að geta þýtt… Enda er þessi útgáfa sorgleg staðfesting þess, að mínum dómi.

 

„Hún kann ekki frönsku!“ sagði franski sendikennarinn sem ég sat námskeið hjá á þessum tíma. Dómurinn var að hans mati ómarktækur. Skömmu síðar birtist í DV úttekt eftir frönskumenntaðan bókmenntafræðing sem fór í saumana á textanum öndvert við gangrýnanda moggans sem lét sér nægja að rekja stuttlega söguþráðinn og feril skáldkonunnar. Hann endar umfjöllun sína á þessum orðum:

 

Þegar ég las bókin fyrst fyrir ári, fannst mér hún fráhrindandi, vegna þess hve kaldur stíllinn væri, oft eins og þurr skýrsla, upptalning. En við seinni lestur kemst maður inn úr þessari skel, og bókin verður enn meira heillandi vegna þess að sögumaður er eins og að sigrast á bælingu, þegar hún skýrir frá innstu hjartans málum sínum. Það er mikill fengur að þessari bók, hafi þýðandi og forlag heila þökk fyrir vel unnin störf.

 

En skaðinn var skeður. Moggagagnrýnandinn hafði sáð efasemdum í huga minn. Ég sá sjálfa mig með augum samborgara minna sem aumkunarverðan tapara. Skömmin var yfirþyrmandi. Þyngst vó þó sektarkennd mín gagnvart höfundinum sem mér fannst ég hafa brugðist. Mér leið eins og ég hefði framið glæp. Neikvæður dómur moggagagnrýnandans yfirskyggði allar jákvæðar raddir. Ó, ég hugsaði henni þegjandi þörfina. Fór ítrekað í gegnum ímyndaða samfundi okkar þar sem ég lét hana heyra hver áhrif úthrópun hennar hafði haft á mig. Ástríða mín fyrir frönskunni dofnaði, ég fjarlægðist höfundinn. Það tók mig ár og daga að komast yfir þessa bitru reynslu sem ung kvenrödd biður mig að horfast í augu við nú. Þótt moggagagnrýnandinn hafi farið um mig miskunnarlausum höndum var ég sjálf margfalt grimmari við ungu óöruggu konuna sem ég var og nú stillir mér upp andspænis svarta svaninum.

Sjaldséðir eru svartir svanir, segir máltækið. Mér er í fersku minni þegar ég sá slíka í fyrsta sinn. Það var í Lissabon. Út um hótelgluggann minn fylgdist ég hugfangin með rauðnefjuðu svörtu svanapari líða í tign sinni á lítilli tjörn við gamlan kastala úr sólgulum steini. Þessi friðsæla mynd sem ég geymi í hugarfylgsnum mínum á lítið skylt við þá sem er dregin upp af svarta svaninum í ballettinum Svanavatninu. Ég man eftir að hafa rekið upp fagnaðaróp við þessa óvæntu sýn á kastalavatninu og magnþrungin áhrif hafði hún í krafti sérstæðis síns og fegurðar. En þótt viðbrögð mín hafi einkennst af undrun, vissi ég að til voru svartir svanir þótt aldrei hefði ég séð þá. Mér er hins vegar kunnugt um að til er kenning kennd við svarta svaninn sem myndhverfingu fyrir eitthvað sem vekur undrun, hefur magnþrungin áhrif og við erum sögð hneigjast til að skýra eftir á með óviðeigandi rökum. Þegar þessi kenning varð til, vissu menn ekki betur en allir svanir væru hvítir. Í henni felst að við eigum almennt erfitt með að þola óvissuna sem fylgir því að mæta einhverju sem fellur utan við kerfið sem við erum hluti af.

Get ég heimfært þessa kenningu upp á draumsýn mína af ósýnilegri þungaðri konu í bleikum ballettkjól sem sárbænir mig um að hægja ferðina og ígrunda sársaukafullt atvik úr fortíðinni? Hver var hún? Hvað vildi hún? Dag einn dró að sér athygli mína mynd af mömmu barnungri sem hékk fyrir ofan höfðalagið á rúminu mínu. Ég horfði á hana hvumsa: Þarna situr hún fyrir í bleikum ballettbúningi og spennir greipar um lítinn blómvönd! Spurning hennar endurómar í huga mér: „Þarf hún ekki að kunna frönsku?“

Í Svanavatninu er svarti svanurinn táknmynd illskunnar sem reynir með ráðum og dáð að fyrirkoma þeim hvíta, prinsessunni sem var fullkomnunin holdi klædd og fyrirmynd ungra stúlkna. Má til sanns vegar færa að með því að láta óvandaða gagnrýni eitra líf mitt hafi ég snúist gegn sjálfri mér og gengið inn í hlutverk svarta svansins. Mig grunar að þar hafi ég endurtekið mynstur sem mamma  lét stjórnast af þegar hún varð ófrísk af mér 17 ára unglingur. Tilhugsunin um að horfast ólétt í augu við samnemendur sína og kennara var henni ofviða. Hún fór ekki út í björtu. „Við mamma gengum saman í fjörunni þegar farið var að skyggja,“ rifjaði hún upp þegar hún deildi með mér þessari upplifun sem við áttum sameiginlega, hún að verða móðir, ég að koma í heiminn. Skömmin hindraði hana í að fylgja eftir köllun sinni og menntast. Nú var hún komin inn í drauminn minn sem skuggi að handan til að fyrirbyggja að sagan endurtæki sig. Hún lætur mér skiljast að ég þurfi að staldra við og horfast í augu við þetta sársaukafulla atvik úr fortíðinni. Það sé hindrun sem þurfi að ryðja úr vegi til að ég geti látið bernskudraum minn rætast. Að skrifa bók.

Draumurinn boðaði hvörf í sálarlífi mínu. Svarti svanurinn sem hafði alið á sjálfshatri mínu hafði umbreyst í ráðgjafa minn og velunnara. Samtímis varð mér ljóst að moggagagnrýnandinn skipti ekki lengur máli. Hún hafði gegnt veigamiklu hlutverki í lífssögu minni án þess að hafa um það minnsta grun.  

Fimmtán árum eftir að þýðingin mín kom út, sat ég í flugvél á leið heim frá New York og rak augun í auglýsingu undir yfirskriftinni Útvarp í dag: „Lestur nýrrar útvarpssögu hefst á Rás 1…“ Það er erfitt að finna orð til að lýsa áhrifunum sem þessi frétt hafði á mig. Leikkonan sem las söguna gerði það af innlifun og tilfinningu. Ég drakk í mig hvert orð og naut þess að tengjast aftur verkinu sem ég hafði snúið baki við og sent inn í skuggann. Mamma fór hins vegar á mis við þessa uppreisn æru minnar, hún var dáin fyrir þremur árum þegar þarna var komið sögu.