Hallfridur.is

Skugginn í draumum okkar

Útvarpsþáttur fluttur á Rás 1 á sumardaginn fyrsta 2018

Við heyrðum upphafsstefin, Weronika og Véronique, úr kvikmyndinni Tvöfalt líf Veroníku eftir pólska kvikmyndaskáldið Krzysztof Kieslowski. Landi hans Zbigniew Preisner samdi músíkina sem við munum heyra meira af hér á eftir.

Á þessum orðum hóf ég þennan þátt og hvet ykkur til að láta undurfagra tóna Preisners hljóma í gegnum lestur þess sem hér fer á eftir.

En ég ætla að tala við ykkur um drauma; nánar tiltekið um “Skuggann í draumum okkar.”

Það var vel liðið á ævina þegar ég fór að veita draumum mínum athygli. Þá vakningu á ég að þakka svissneska sálfræðingnum Carl Jung, sem sagði að innra með sérhverju okkar sé annar sem við þekkjum ekki. Þessi annar talar til okkar í draumum og leiðir okkur fyrir sjónir hve sýn hans á okkur er frábrugðin sjálfsmynd okkar.

Ég vek athygli á að hér tekur tungumálið af okkur völdin og karlgerir þennan ókunnuga part af sálarlífi okkar sem getur tekið á sig margvíslegar myndir í viðleitni til að tengjast okkur og verða hluti af sjálfsvitund okkar. Við fæðumst inn í tungumálið, leggjum okkur fram við að tileinka okkur það en erum okkur ekki nema að litlu leyti meðvituð um mótandi áhrif þess á sálarlíf okkar og menningu. Í draumum okkar tekur myndmálið yfir og mætti því segja að tvítyngi sé okkur eðlisborið. Við lærum það hinsvegar fljótt að Orðið sé Guð en draumarnir fjarstæðukennd hugarsmíð sem ekki beri að taka alvarlega. Við hneigjumst því til að vanmeta þessa innri rödd og teljum okkur vita betur.

Um drauma sagði Jung einnig þetta: “Draumurinn er leikhús þar sem dreymandinn er sjálfur leiksviðið, leikarinn, hvíslarinn, leikskáldið, framleiðandinn, áhorfendur og gagnrýnandinn.” Í þessari lýsingu felst hylling sköpunargáfu hins dreymandi sjálfs. Hún gefur tilefni til að ætla að við búum yfir meiri hugvitssemi en við gerum okkur grein fyrir.

Frá mínum sjónarhóli séð eru draumar leiðbeinendur, leiðarljós sem leitast við að greiða okkur dreymendum leið til sjálfsþekkingar og stuðla að því að við náum fram því besta í okkur. Þetta ferli er í senn persónulegt og sammannlegt. Einstaklingur sem nær að blómgast auðgar samfélag sitt og menningu, sem aftur skilar sér út í hið stærra samhengi. Að því leyti eru draumar mikilvægur þáttur í framþróun mennskunnar sem takmörkuð rækt hefur verið lögð við í okkar vestrænu menningu.

Sr. John Sanford, prestur í bandarísku biskupakirkjunni og jungískur sálgreinir, skrifaði bók um drauma sem ber undirtitilinn “hið gleymda tungumál Guðs,” eða eins og hún heitir á frummálinu, Dreams: God’s Forgotten Language. Sanford, sem lést fyrir nokkrum árum, efaðist ekki um að það væri rödd Guðs sem talar til okkar í draumum og hann harmaði að starfsbræður hans skyldu ekki færa sér drauma sóknarbarna sinna í nyt í sálgæslunni. Ég segi starfsbræður, því þegar bókin kom út árið 1968 var ekki farið að vígja konur til prests í biskupakirkjunni, ekki frekar en í íslensku þjóðkirkjunni þar sem fyrsta konan, Auður Eir, var vígð árið 1974.

Sanford gerir hvatningu Jesú í Matteusarguðspjalli að yfirskrift upphafskafla bókar sinnar: “Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn.” Það sem Jesús átti við með andstæðingi hér, segir hann, var ekki einfaldlega óvinveittur nágranni heldur okkar innri andstæðingur. Að fordæmi Jungs, kallar Sanford þennan innri andstæðing Skugga. Ef við náum ekki sáttum við skuggann okkar, er borin von að við getum sæst við nágranna okkar, því við munum ávallt varpa yfir á þá því sem við viljum ekki kannast við í sjálfum okkur. Það má því kallast siðferðisleg skylda hvers manns að ganga á hólm við skuggann sinn í stað þess að gera náungann að blóraböggli fyrir eigin lesti.

Jakobsglíman er að dómi Sanfords erkidæmi um slík átök. Jakob stendur á þröskuldi endurfunda við Esaú tvíburabróður sinn sem hann hefur haft frumburðarréttinn af með brögðum og heyr næturlanga glímu við ókunnan mann. Samkvæmt túlkun Sanfords, þröngvaði Guð Jakobi þarna til að takast á við sitt brotlega sjálf. Jakob stóðst raunina og kom frá henni umbreyttur maður eins og endurspeglast í nýrri nafngift sem andstæðingurinn skenkti honum: “Eigi skalt þú lengur Jakob heita,” sagði hann, “heldur Ísrael, því þú hefur glímt við Guð og menn og fengið sigur.” Ísrael er “sá sem glímir við Guð.” Jakob þýðir aftur á móti “sá sem heldur um hælinn,” og er það vísun í fæðingu þeirra bræðra og þá staðreynd að Jakob kom á eftir Esaú í heiminn. Sanford dregur þá ályktun af biblíusögunni að það að glíma við sinn “annan” (þ.e. sinn óþekkta innri mann) jafngildi því að glíma við Guð. Frásögnin er að hans dómi lýsandi fyrir sálrænan veruleika sem er jafngildur nú og á dögum Jakobs, nefnilega að Guð gerir áhlaup á okkur í lífinu sem skuggi okkar og virðist vera andstæðingur en þráir í raun (svo notuð séu hans eigin orð) að við undirgöngumst róttæka umbreytingu.

Skugginn er eitthvað sem við bælum, útilokum. Eins og í dæmi Jakobs getur það verið sektarkenndin sem tekur á sig mynd óvinarins í martraðarkenndum draumum. En hann getur líka verið eitthvað sem okkur finnst einfaldlega ómerkilegt, frumstætt, taktlaust eða klaufalegt. Eins og Jung orðar það, ber skugginn jafnvel í sér bernsk eða frumstæð einkenni sem myndu glæða mannlega tilveru lífi og fegurð. Við sjáum þetta í söguhetjum eins og Hans klaufa, sem var forsmáður af föður sínum og aðhlátursefni lærðra bræðra sinna en heillaði kóngsdótturina með hugviti sínu og hreppti hnossið. Og þá vaknar spurningin: Hverju höfum við útskúfað í okkur og bolað inn í skuggann og hvernig getum við endurheimt þennan hluta af sjálfi okkar? Ein leið til þess er að horfast af einurð í augu við spegilmyndina sem draumarnir halda upp fyrir okkur. Ef okkur finnst hún framandi og fjarstæð, er það vegna þess hve takmörkuð sjálfsþekking okkar er.

Amerískur draumasérfræðingur, Montegue Ullman, lýsir djúplægum heiðarleika hins dreymandi huga þá lund, að það sé eins og í barnsleika sínum og sakleysi hafi hann ekki um annað að velja en að segja okkur sannleikann um líf okkar, án tillits til þess hvort við höfum áhuga á því í vöku að þekkja þann sannleika. Hér kemur í hugann stjúpa Mjallhvítar sem átti sér “fáránlegan” spegil, eins og það er orðað í einni útgáfu sögunnar, og fór sá spegill aldrei með ósannindi. Drottningin hins vegar hafði engan áhuga á að sjá í honum sannleikann heldur einungis það sem hún vildi sjá. Það er auðvelt að túlka drauma sína sér í vil, þess vegna er hjálplegt að deila þeim með öðrum sem kunna að sjá það sem dreymandinn sjálfur snýr blindu auga að.

Ég freistast til að leiða hér fram minn eigin skugga eins og hann birtist mér í draumi fyrir röskum tuttugu árum:

Ég kem inn í kirkju. Geng að altarisgrindum. Andspænis mér, fyrir innan grindurnar stendur svört kona í bláum síðkjól. Ég krýp fyrir framan hana. Svo stend ég upp og dansa í átt að dyrum á rauðum skóm.

Þótt draumurinn sé stuttur má greina í honum þá dramatísku byggingu sem almennt einkennir drauma. Hann hefst á kynningu aðstæðna: ég er inni í guðshúsi. Þá tekur við þróun atburða: ég geng að altarisgrindunum; fyrir innan þær stendur svört kona. Hápunkturinn er þegar ég krýp fyrir framan konuna. Lausnin felur í sér léttleika og gleði þegar ég dansa á leið minni út á rauðum skóm.

Mikilvægt er að hafa í huga að sviðsetning draums vísar ávallt í vandamálið sem leitað er lausnar á. Draumurinn setur mig í trúarlegt samhengi og knýr þar með á um að ég taki fordóma mína til endurskoðunar. Ég var ekki trúuð, eða svo hélt ég, heldur þótti mér skylt og sjálfsagt að hafa greind og rökvísi að leiðarljósi í verkum mínum og viðfangsefnum. En þarna knékrýp ég fyrir framan svarta konu sem stendur fyrir innan altarisgrindur. Þótt umfjöllunin sem hér fer á eftir sé stutt hefur ferlið sem liggur að baki henni verið langt og strangt, og það hefur verið varðað draumum sem hafa vísað mér veginn hingað.

Þegar ég var lítil telpa óttaðist ég skuggann minn. Ég kallaði þennan tvífara minn Huldu. “Hún Hulda er komin að taka mig,” er mér sagt að ég hafi kjökrað þegar skugginn elti mig. Sjálf man ég ekkert eftir þessum hremmingum. Hulda fylgdi mér í gegnum lífið í frásögnum annarra. Ég var yfirmáta hlýðið barn sem kunni ekki skil á viðurkenningu og ást. Lífið var mér sem línudans þar sem minnsta feilspor gat jafngilt heimsendi. Og þarna stóð ég, fullorðin kona, andspænis skugganum sem mér stóð slík ógn af sem barni.

Draumar koma inn í tilteknar aðstæður í lífi okkar og þurfa að skoðast í því samhengi. Þeir benda ávallt til einhvers sem dreymandinn er sér ómeðvitaður um. Markmið þeirra er að bæta upp einsýni dreymandans, meðal annars með því að sýna andstæðuna við meðvitaða afstöðu hans. Þeir leitast með öðrum orðum við að koma á jafnvægi, að stýra dreymandanum inn á hinn gullna meðalveg.

Ég var í andlegri kreppu á þessum tíma, nýbúin að ljúka meistaraprófi í íslenskum bókmenntum og vissi ekki hvernig ég átti að nýta menntun mína. Í bernsku dreymdi mig um að verða rithöfundur, og sú löngun brann mér enn í brjósti, en ég var í viðjum fræðanna sem ég hafði tileinkað mér af inngróinni samviskusemi og fann ekki mína eigin rödd. Í M.A.-ritgerðinni hafði ég fjallað um goðsögur og ævintýri. Þessar sögur, sem ég hafði drukkið í mig sem barn, fylgja jafnan sjónarhorni karllægrar hetju í viðskiptum hennar við viðsjál náttúruöfl. Og í þeim átökum helgar tilgangurinn ævinlega meðalið, að sigrast á náttúrunni og brjóta hana undir sig.

Þarna dró draumurinn fram hina hliðina, þá kvenlægu. Í þjóðsögum er huldufólkið bláklætt. Hér var því sem komin væri Hulda bernskunnar, ímynd óþekku telpunnar sem ég bældi niður með hörku ef hún stríddi gegn vilja mínum. Ég vildi vera þæg og góð svo allir ynnu mér hugástum eins og Þyrnirósum ævintýranna. En í stað þess að reka hana niður á hafsbotn, eins og mér var tamt þegar mér þótti hún hafa brugðið fyrir mig fæti í lífsins línudansi, votta ég henni lotningu í draumnum. Draumurinn leiddi mér fyrir sjónir að þessi svarta draumkona sem hafði dúkkað upp úr undirvitund minni væri sjálfsvitund minni æðri. Hún kunni skil á launmálum minnar innri veru sem mér voru lokuð bók.

Það er fyrst þegar ég rýni í þessa mynd nú að ég átta mig á að svarta bláklædda konan sameinar í sér frjóa jörð og heiðan himin. Mikilvægt er að huga að litum í draumum því þeir eru að segja má músíkin í sköpunarverkinu og tjá tilfinningar dreymandans. Ég tengi svart við myrkur og dulúð en blátt við svala firð. Aðrir kunna að leggja ólíka merkingu í þessa liti. Kyn orðanna jörðog himinn endurspegla heimsmynd forfeðranna; hún, jörðin, var álitin kvenlæg vera en hann, himinninn, var karllægur. Þessi kyngreining er djúprætt í vitund okkar og hefur verið heimfærð upp á líkamann og efnisheiminn annars vegar en hugann og andlega heiminn hins vegar. Það segir sig sjálft að þessi hugmyndafræði hefur leitt til misjafnrar stöðu kynjanna sem litar umræðu dagsins í dag. En eins og segir orðrétt í sköpunarsögu Biblíunnar, Genesis 1, skapaði Guð manninn “eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu.” Þetta skil ég svo að maðurinn, af hvaða kyni sem er, hefur til að bera bæði karllæga og kvenlæga orku eins og Guðinn sem skóp hann. Að við séum, hvert og eitt, heil í sjálfum okkur. Þess vegna leggur Jungísk sálfræði áherslu á heilleika fremur en fullkomleika. Og heilleiki felur í sér nauðsyn þess að innlima skuggann í vitund okkar og veru.

Þegar ég horfi á drauminn úr fjarlægð sé ég margt sem þá var mér hulið en það sem skipti máli á þessum tíma var að hann líkt og leysti mig úr álögum. Ég fann ástríðuna vakna innra með mér og vissi hvert halda skyldi á mínum dansandi rauðu draumaskóm. Ég tók þjóðsagnaarfinn til endurskoðunar og rýndi í skuggahliðina, hina bældu kvenlægu hlið. Sú rannsókn leiddi af sér bók sem ég kallaði Quest for the Mead of Poetry (“Leitin að skáldamiðinum”) og var gefin út í Ameríku fyrir tveimur árum. Undirtitill bókarinnar er “táknmál tíða í íslenskum þjóðsögum og ævintýrum,” og fór ekki hjá því að ég sæi viðhorfið, sem ég þóttist greina í arfsögunum gagnvart tíðanáttúru kvenna, koma fram í vitnisburði kvenprests í tengslum við #metoo byltinguna, þar sem hún segir karlmann hafa spurt sig “hvernig prestur gæti blessað söfnuðinn þegar hún væri á túr.”

Ein sagan sem ég fjalla um í bókinni kallast Fossvallabóndinn og er talin vera frá 18. öld. 18. öldin var íslenskri alþýðu þungbær sakir harðæris og bælingar. Guðsorðabækur ólu á ótta við náttúruna, bæði þá innri og ytri, og í prédikunarstólum var hamrað á reiði Guðs fremur en elsku. Líkt og gildir um draumana okkar, eiga þjóðsögurnar uppruna sinn í dulvitund alþýðunnar og endurspegla áhrif ytri aðstæðna á sálarlíf fólksins.

Sagan hefst á kynningu aðstæðna sem hljóðar svo: Í fyrri daga bjó bóndi einn á Fossvöllum á Langanesi. Sá bær stóð nokkrum spöl innan við Sauðanes, en er nú eyðijörð. Hér gildir hið sama og um draumana okkar, að sviðsetningin vísar í vandamálið sem glímt er við: ástæðu þess að jörðin Fossvellir fór í eyði. En sagan hefur að mínum dómi mun víðtækari skírskotun og gefur hugboð um háskann sem jörðinni okkar stafar af hugarfarinu sem setti svip á 18. öldina. Í henni sjáum við endurspeglast togstreitu á milli lúterskrar kristni og lífseigrar heiðni sem kirkjan leitaðist við að kveða niður með valdboði.

Í hnotskurn segir sagan frá því að dóttur Fossvallabóndans var rænt af bergrisa sem hafði hana með sér heim í helli sinn. Stúlkan hafði á hendi það hlutverk að reka kvíféð út undir Fossána á kvöldin. Þar kemur sögu seint um sumarið að hún kvartar yfir því við föður sinn að hún hafi verið elt af risa tvö kvöld í röð og biður hann grátandi um að láta sig ekki reka féð þriðja kvöldið. Faðir hennar bregst reiður við og brigslar henni um að vilja koma sér undan verkinu. “Skaltu,” sagði hann, “engu að síður reka féð í kvöld.” Átti hún þá ekki annars úrkosti en að hlýða.

Þegar stúlkan skilar sér ekki heim úr fjárrekstrinum, áttar bóndi sig á að dóttir hans hefur sagt satt. Til að gera langa sögu stutta, leitar hann í örvilnan til prestsins á Sauðanesi, sem var næsti bær við Fossvelli eins og greint er frá í sviðsetningu sögunnar. Sauðanessprestur kveðst ekki geta náð stúlkunni frá þeim tröllum sem hún sé “heilluð til” en sendir í skyndingu mann með bréf til bróður síns, sem var prestur að Múla í Aðalreykjadal. “Mun honum takast að ná dóttur þinni,” segir prestur. Þegar Múlaprestur hefur lesið bréfið, segir hann sendimanni að þeim sé ekki til setunnar boðið: “Verðum við ei komnir áður þrjár sólir eru af himni að Sauðanesi munu óvættir þessir verða búnir að trylla hana svo magnlega að ei mun hægt aðgjörða.” Búast þeir til brottfarar hið snarasta. En þótt þeir legðu nótt við dag, náðu þeir ekki að Sauðnesi fyrr en að þrem dögum liðnum og þá var orðið of seint að bjarga bóndadóttur.

Fyrir þrábeiðni bónda fara prestarnir þó báðir með honum út að Fossánni, og þegar þeir koma að fossinum sem er í ánni, tekur Múlaprestur upp hjá sér sprota og slær á bergið. Opnast þar stórar hellisdyr og, eins og segir orðrétt í sögunni,

særir prestur þann sem þar ráði fyrir að koma í augsýn, og jafnsnart kemur til dyra ógurlegur tröllkall. Prestur spyr hvort hann hafi stolið bóndadóttur. Hinn kvað það satt vera. “Lát oss sjá hana!” segir prestur og létu tröllin hana fram í hellisdyrnar með járnfesti um sig miðja. Þykir prestum hún orðin óttaleg ásýndum, stór sem tröll og blá sem hel. Sást ei önnur mannsmynd á henni nema skírnarkrossinn á enni hennar var hvítur og með náttúrlegum holdslit. Og sem hún sér nú föður sinn biður hún tröllin að lofa sér að drepa hann því honum sé öll sín ógæfa að kenna. En Múlaprestur skipar henni að fara inn í hellinn og láta engan mennskan mann sjá sig framar.

Laukst síðan aftur hellirinn.

Það var mér ekki sársaukalaust að sjá í bannfæringu Múlaprests höfnun mína á óþekku telpunni, sem ég hafði bolað inn í skuggann af vægðarlausri grimmd. Í fornum sögum voru blökkumenn kallaðir blámenn og þótti mér sýnt að hin ógæfusama bóndadóttir ætti skylt við svörtu prestynjuna í draumi mínum. Þema þjóðsögunnar bendir til að dóttir Fossvallabóndans hafi verið holdgervingur Freyju, sem býr í hverri konu eins og ljóð Sr. Matthíasar Jochumssonar, Minni kvenna, gefur í skyn. Skáldið ávarpar Freyju sem vanadís en vanir voru frjósemisgoð sem einkum voru dýrkuð af bændafólki. Það er þó ekki hin fagra og brosmilda Freyja sálmaskáldsins, sem mætir sjónum prestanna í hellisdyrunum, heldur Hel, gyðja dauðraheimsins, og þeim þykir hún óttaleg.

Hvergi er gróskan sem leiðir af samspili lífs og dauða sýnilegri en í hrynjandi náttúrunnar sem frjósemishringur konunnar lýtur. Ég sá að það var rökrétt að líta á Hel sem skugga lífgefandi frjósemisgyðjunnar. Án vitundar um dauðann, er ekki líf. Ef Freyja býr í hverri konu, hlýtur hið sama að gilda um Hel. Hér fór ég að sjá Huldu bernsku minnar í nýju ljósi, tvífarann sem ég óttaðist að myndi hrifsa mig inn í skuggann. Togstreitan á milli okkar helgaðist af því að hún vildi að ég tæki áhættu. Léti á það reyna hvort ég yrði gerð útlæg, ef mér yrðu á mistök. Ég vissi að hún vildi út, en mig skorti áræði til að standa með sjálfri mér og spennan jókst. Það var því ekki að ástæðulausu að ég fann til samkenndar með bóndadóttur, sem Múlaprestur skipar að fara inn í hellinn og láta engan mennskan mann sjá sig framar.

Atburðir sögunnar eiga sér stað seint um sumar. Þetta er sá tími þegar gróður tekur að sölna og jörðin býst til að leggjast í dvala. Virðist þar lagður grunnur að hliðstæðu gróðurmagns jarðar og bóndadóttur sem hverfur niður í undirheima. Sauðanessprestur segir hana heillaða til tröllanna og ýjar þar að goðsögulegu ístöðuleysi konunnar, sem Eva varð fulltrúi fyrir þegar hún lét höggorminn tæla sig til óhlýðni. Bóndadóttur er rænt en þó lætur prestur í það skína að hún sé ekki saklaus af eigin ráni. Hún lætur heillast, veitir ekki mótspyrnu. Karlkynspersónur sögunnar sjá hana sem fórnarlamb náttúrunnar, en svo kynlega bregður við að hatur hennar og hefndarhugur beinast ekki gegn risunum heldur föðurnum, sem lagði ekki trúnað á varnaðarorð hennar. Grátbænir hennar til hans um að láta sig ekki reka féð þriðja kvöldið hljóma sem endurómur af ákalli Jesú í Getsemane-garðinum: “Faðir, ef þú vilt, þá tak þennan kaleik frá mér!”

Faðirinn setur traust sitt á prestana til að bjarga dóttur sinni úr tröllahöndum en lyktirnar verða þær að Múlaprestur kviksetur hana í hellinum með göldrum. “Er það […] fróðra manna sögn,” segir sagan, “að rauðir rúnastafir sjáist enn á berginu þar sem hellisdyrnar voru.” Væri ég illa svikin ef þar væri ekki að finna þurs-rúnina, þornið, sem tengdist blæðingum kvenna, svo sem segir í íslensku rúnakvæði: “Þurs er kvenna kvöl / og kletta búi.” Eða, eins og það er orðað í öðru norsku: “Þurs veldur kvenna kvillu.” Þótt blæðingar hafi löngum verið hjúpaðar grafarþögn í menningu okkar, hafa þær fundið sér leið upp á yfirborð arfsagnanna í táknum sem afhjúpast af samhenginu sem þau eru grópuð í. Formæður okkar drógu sig í hlé frá heiminum þegar þær voru á blæðingum, líffræðilega ófrjóar líkt og jörðin í vetrardvala, en helguðu sig andlegum hugðarefnum og sköpun eins og lesa má út úr fornum sögum. Eru konur nú óðum að átta sig á að farsælla er að vinna með náttúrunni en á móti þegar þær eru á blæðingum. Í breyttu hugarfari liggur lykillinn að því að umbreyta bölvuninni, sem við blæðingarnar hefur loðað, í blessun.

Þegar upp er staðið er það Tíminn sem ræður úrslitum en ekki galdrakunnátta prests. Í hinu forna bændasamfélagi miðaðist tímatal við tunglár sem hafði þrettán tungl og harmóneraði við tíðahring konunnar sem, ef hún er óþunguð, fer þrettán sinnum á túr á ári. Í þessari heimsmynd var talan fjórir undirstaða skipulags og heilleika, eins og kristallast í fjórum kvartilum mánans, fjórum árstíðum, fjórum höfuðáttum, o.s.frv. Í Fornaldarsögum Norðurlanda er sögð saga af því að Freyja hafi fengið Brísingamen að launum fyrir að sofa hjá fjórum dvergum í steini, sína nóttina hjá hverjum þeirra. Frásögnin, sem talin er byggð á glataðri goðsögn, var skráð á skinn seint á 14. öld af tveimur prestum og ber þess merki að gyðjan hefur ekki þótt kristnum konum heppileg fyrirmynd. Þarna er dregin upp mynd af Freyju sem andlegri hóru en jafnframt er lögð áhersla á styrk hennar og sjálfstæði. Það er naumast tilviljun að í Fossvallabóndanum eru þau múruð fimm inni í hellinum, bóndadóttir og fjögur tröll. Meninu var síðar stolið frá gyðjunni og hefur fræðimönnum sýnst sitt hverjum um merkingu þess og afdrif.

Þegar tunglár vék fyrir sólarári varð talan þrír ríkjandi eins og heilög og karllæg þrenning er gleggstur vitnisburður um, enda tekur Múlaprestur mið af sólargangi þegar hann segir brýnt að ná bóndadóttur áður en þrjár sólir eru af himni, ella verði tröllin búin að trylla hana svo að ekki verði við ráðið. Sögnin að trylla þýðir að gera “óðan eða ævareiðan” og er slíkt ójafnvægi ósjaldan hermt upp á konu á blæðingum. Ugglaust skynja konur djúpt í veru sinni áskapað samræmi sem þeim veitist erfitt að upplifa í menningu sem hefur ekki skilning á eðlislægri náttúru þeirra. Í grunninn þýðir trylla þó að gera að trölli eins og sannast á bóndadóttur sem birtist prestum í hellisdyrunum “stór sem tröll.” En það er ekki bara stærð hennar og styrkur sem vekur þeim óhug, tröllskapur þýðir fjölkynngi og undirokuð kona sem býr yfir fjölkynngi hlaut að vera dauðans ógn. Hana þurfti nauðsynlega að loka inni, ef ekki í sjálfri sér, þá á hæli fyrir andlega villisauði. Um þetta geymir sagan urmul dæma.

Svarta prestynjan kom sem bjargvættur inn í hefta tilveru mína og leiddi mér fyrir sjónir að dauðinn er lífgefandi í raun. Kom mér í skilning um að ef ég ætlaði að halda áfram að reyna að fyrirbyggja hann, myndi ég aldrei getað losað af mér hlekkina og komist út úr hellinum. Ég myndi dæma sjálfa mig til skuggatilveru. Ég varð að leyfa mínu óttafulla sjálfi að deyja ef ég vildi sjá óskir mínar rætast. Leiðin að því marki fólst í að frelsa bóndadóttur úr álögunum sem Múlaprestur hneppti hana í.

Með kristni var hin norræna gyðja ástar og frjósemi látin víkja fyrir Maríu mey. Myndum við ekki líka segja að hinni blítt brosandi Freyju í ljóði Sr. Matthíasar svipi meira til Maríu en þeirrar Freyju sem Hjalti Skeggjason, lögmaður og kristniboði, sendi níðkviðling á alþingi árið 999? Eins og skráð er á spjöld Íslandssögunnar, kallaði Hjalti Freyju þar grey: “Vil ek eigi goð geyja / grey þykki mér Freyja.” Grey þýðir “tík,” og læt ég mér detta í hug að kristniboðinn hafi þarna verið í andsvari við Völuspá þar sem ítrekuð hundgá boðar endalok gjörspillts heims.

Nú hefur það komið á daginn að í mörgum kirkjum í Evrópu, og víðar, fyrirfinnast svartar Madonnumyndir sem talið er að tengist gyðjum fyrri tíma og dragi fram hlið á Maríu sem hefur verið bægt inn í skuggann. Fossvallabóndinn endurspeglar afleiðingarnar af brotthvarfi gyðjunnar úr opinberu trúarlífi á hinni óblíðu 18. öld. Bóndinn veslaðist upp af söknuði og dó og jörðin lagðist í eyði. Ófrjósemi lagðist yfir huga og heim. Þjóðsagan magnar hið ófrjóa ástand upp með heiti prestssetursins Sauðaness, en sauður er geldur hrútur, og virðist þar vegið að sterílli einsýni klerkanna sem hylla skírnarkrossinn á enni stúlkunnar en hafna kvendómnum sem Náttúran vígir hana til og er forsenda nýs lífs, bæði í líffræðilegum og andlegum skilningi. Ungmeyjan þarf að deyja svo konan geti fæðst og full-orðnast á sínum eigin forsendum.

Í Heimskringlu getur Snorri Sturluson þess að Freyja hafi verið hofgyðja, sem þýðir að hún var prestynja. Og hún var völva, sem þýðir að hún var sjáandi. Hafði sú gáfa ljóslega erfst til bóndadóttur, því líkt og völvan í Völuspá sá hún vána fyrir. En faðir hennar lagði ekki trúnað á orð hennar og heimur hans fórst. Montegue Ullman, sem fyrr var nefndur, leit svo á að draumavinna gengi út á að gera hluta af sálarlífinu sem hefur lifað einskonar undirheimatilveru félagslega hæfan. Hlutverk okkar tíma sýnist vera að taka gyðjuna í sinni stórskornu mynd í sátt og gera okkur meðvitaða margþætta orkuna sem hún býr yfir en ekki að smætta hana í móður, konu, meyju sem brosir blítt í gegnum gullin tár.

Svo vikið sé aftur að draumnum mínum, kom maðurinn minn heim frá Afríku skömmu eftir að mig dreymdi hann og færði mér dimmbláan síðkjól prýddan gullbróderaðri svertingjakonu, alls óvitandi um mína svörtu draumkonu. Þegar innri og ytri heimurinn mætast með slíkum hætti er líkast því sem töfrar séu að verki. Mér þótti, þegar ég klæddist kjólnum, sem ég bæri mitt innra sjálf utan á mér. Við urðum nánar sem systur, svarta konan og ég. Draumar urðu mikilvægur þáttur í lífi mínu og starfi. Það var svo árið 2011 að ég fór á draumaráðstefnu sem var haldin í undursamlegu 12. aldar klaustri í Suður Hollandi sem kallast Rolduc. Ég hafði kjólinn með í för. Fólk sem vinnur með drauma er gefið fyrir að bregða á leik og enda slíkar ráðstefnur jafnan á balli þar sem þátttakendur íklæðast gervi eftirlætis-draumapersónu sinnar. Ég klæddist kjólnum góða, lét berast inn í sviðsljósið á rauðum skóm, deildi draumnum mínum með viðstöddum og vottaði svörtu prestynjunni virðingu mína í heyranda hljóði.

Á leið inn í sviðsljósið

En sögunni er ekki þar með lokið. Á umræddri ráðstefnu var haldin svokölluð telepathy-keppni sem fór fram með þeim hætti að ung kona var fengin til að senda huglægt út mynd sem ráðstefnugestir skyldu veita viðtöku í draumum sínum. Fjórar myndir höfðu verið innsiglaðar í brúnum umslögum vestur í Ameríku svo enginn í Rolduc hefði veður af um hvaða myndir væri um að ræða. Þegar komið var að háttatíma dró sendandinn út eitt umslag í viðurvist okkar ráðstefnugesta og hvarf síðan inn á herbergi sitt. Þá fyrst opnaði hún umslagið og einbeitti sér að því að senda myndina út á bylgjum hugans.

Úr Shapeshifter Tarot mynd: Lisa Hunt.

Niðurstaða keppninnar var kynnt á ballinu og hlotnaðist mér viðurkenning fyrir svar mitt við spurningunni hvað heldurðu að sé á myndinni, en það hljóðaði á þessa leið: Prestynja ― kvenkyns eða tvíkynja goðvera. Titillinn sem ég gaf draumnum mínum, Umskipti, hitti í mark sömuleiðis. Viðurkenningunni veittum við viðtöku saman, sú svarta og ég. Ölvandi er orðið sem best lýsir upplifuninni af slíkri staðfestingu á skapandi samspili dulvitundar og sjálfsvitundar.

Úr DreamTime, haust 2011.

Í aðdragandanum hafði ég skynjað að sigurinn lægi í loftinu. Maríuhænur, sem jafnan hitta mig í hjartastað, urðu ítrekað á vegi mínum, bæði úti og inni. Og þegar ég lagði mig áður en ég fór á ballið, dreymdi mig að mér var gefið listilega smíðað gullmen sem einhver óséður lét um hálsinn á mér. Reynslan í Rolduc færði mér skilning á að Brísingamen felur í sér harmóníu á milli sjálfs og heims. Þarna helgaðist sigurinn af eftirgjöf og móttækileika en ekki af þeirri framsæknu kappsemi sem menning okkar hefur í hávegum.

Jafnvel þarna var ég ekki búin að hnýta alla þræðina saman. Það er fyrst núna, þegar ég lít yfir farinn veg, sem mér eru fyllilega ljós tengslin á milli niðurstöðunnar sem ég fékk úr draumunum mínum þessa nótt í Rolduc og draumsins sem mig hafði dreymt meira en áratug áður. Við vitum ekki hvaða krafti við búum yfir. Svört saga formæðra okkar, sem Jóhanna af Örk varð merkisberi fyrir, hefur ekki orðið okkur konum hvatning til að rækta innsæi okkar sem skyldi. Eins og alkunna er, var Jóhanna dæmd fyrir villutrú og brennd á báli. Einhvers staðar í undirvitundinni blundar eflaust ótti við svo skelfilega hegningu ef við stýrum ekki hugsunum okkar í þann farveg sem uppalandinn býður.

Hin bælda kvenlæga náttúra knýr á um að við leitum sannleikans innra með okkur en látum ekki stjórnast í blindni af viðteknum sannindum. Að leggja upp í slíka vegferð felur í sér áhættu og kallar á kjark, því eins og Montague Ullman bendir á “er ekki mögulegt að kanna hinn djúplæga persónulega vettvang draumasjálfsins án þess að hitta endrum og sinnum fyrir efni sem er erfitt eða sársaukafullt að vinna með.” En ef við leyfum óttanum að hindra okkur, glutrum við tækifærinu til að finna meðfæddar gjafir okkar sem bíða eftir að við opnum þær. Og er þá vert að rifja það upp að gjöf er sama og “gáfa.”