Hallfridur.is

"En er hún fer..."

Erindi flutt á Leirubakka 19. maí 2017 í tilefni af 80 ára afmæli Davíðs Erlingssonar og síðar birt í TMM 2. 2018. [1]

“Ég ætla að tala um Brísingamen,” sagði ég við læriföður minn, Davíð Erlingsson, þegar hann bauð mér í afmælishófið sitt. “Það líst mér á,” ansaði hann. “Mér finnst þú eigir að taka Brísingamen í botn!” Tilsvarið var mjög í anda Davíðs. Mér er til efs að margir hugsuðir hafi komist nær botninum í viðfangsefnum sínum en hann. Ég tók þessi orð hans sem áskorun. En til þess að komast til botns í Brísingameni þarf ég að hafa Freyju með í för, því Brísingamen var eignað henni.

Freya eftir Anders Zorn (1860-1920)

Mynd sænska listamannsins Anders Zorn af Freyju sýnist nokkuð ljóslega innblásin af lýsingu Snorra Sturlusonar: “En er hún fer, þá ekur hún köttum tveim og situr í reið.”[2] Þetta ræð ég af kattarhöfðunum sem prýða armana á sæti gyðjunnar. Freyja er hér hins vegar ekki að fara neitt, heldur situr hún í stól í hofi sínu eða skemmu. Förin er með öðrum orðum huglæg. Það er völvan Freyja sem er uppspretta andargiftar listamannsins og viðfangsefni.

 Árið sem ég útskrifaðist úr íslenskudeildinni gaf ástsælt skáld mér silfurhálsmen í draumi og lét silfurlyklahring fylgja með. Ég skildi það svo að mitt væri að finna lykilinn. Brísingamen Freyju kom mér strax í hug. Í M.A. ritgerðinni hafði ég tæpt á Gullveigu og Heiði í neðanmálsgrein og haft á orði að ef ég ætti eftir að skrifa doktorsritgerð myndi hún fjalla um þær. Ég hafði raunar engin slík áform í huga, en yfirlýsingin var vísbending um tökin sem þær stöllur höfðu náð á mér. Heiður er algengt heiti á völvum í fornum sögum og er á Völuspá að skilja að völvur hafi verið líkamningar Gullveigar í mannheimum. Þótt ég hafi ekki skilið það þá, kom þessi draumur inn í líf mitt líkt og til að minna mig á að ég ætti verk óunnið.

 Einu heillegu frásögnina af því hvernig Freyja öðlaðist menið er að finna í Sörlaþætti og hún hljóðar í hnotskurn svona: Freyja kemur að steini sem stendur opinn. Inni fyrir eru fjórir dvergar að smíða gullmen. Hún dregst að meninu, hana langar í það og hún býður fram gull og silfur og góða gripi. Dvergunum finnst hún að sama skapi hrífandi og vilja þá borgun eina að hún sofi sína nóttina hjá hverjum þeirra. Hún gefur sig og kemur til baka í skemmu sína með hnossið.[3]   

Í aðdragandanum að för Freyju inn í steininn er lýst styrk hennar og óskoruðum yfirráðum yfir skemmunni: “Hún var bæði fögur og sterk, svo að það segja menn að ef hurðin var aftur og læst, að enginn maður mætti koma í skemmuna án vilja Freyju.” Jafnframt er ást Óðins á henni undirstrikuð og gefið í skyn að honum hafi verið haldið utan við þessi vé þegar Freyja fór á stefnumót við sinn guð.

Ég vek athygli á að Freyja gefur sig á vald náttúru sinni þá fjóra daga sem hún dvelur í steininum og uppsker eitthvað dýrmætt. Svo dýrmætt raunar, að þær örfáu glefsur sem fræðimönnum hefur auðnast að grafa upp um Brísingamen, utan Sörlaþáttar, fjalla um rán þess og sýna að það varð bitbein guða.

Í Sörlaþætti er heiðin heimsmynd afhelguð í gróteskri frásögn og goðin dregin niður á veraldlegt plan. Freyju er þar lýst sem hóru. Einn fræðimann sá ég vísa í orðróm þess efnis að hún hefði selt meydóm sinn fyrir gullmen.[4] Þátturinn var skráður á skinn af tveimur kaþólskum prestum og þarf ekki að fara í grafgötur um að Freyja féll ekki að þeirri kvenímynd sem kristin heimsmynd hélt á loft konum til eftirbreytni. Né sýnist atferli hennar hafa hugnast þeim sem dýrkuðu Óðin, því seiðurinn, sem hún er sögð hafa innleitt í ríki ása, var álitinn glæpur þegar í heiðni og voru seiðkonur þá oftast lamdar grjóti í hel.[5] Enn í dag viðgengst í sumum samfélögum að konum sé hegnt með þessum hætti fyrir framhjáhald. Og hver var þá glæpur seiðkvenna? Jú, þær höfðu samneyti við önnur goðmögn en ríkjandi öfl aðhylltust.           

Átta árum eftir drauminn um skáldið og silfurmenið var mér falið að skrifa um Freyju fyrir táknfræðirit, og þá var það sem lykillinn kom upp í hendurnar á mér.[6] Hann var fólginn í nafninu Brísingamen, orði sem tengir saman ýtrustu andstæður. Brísingur er eldsheiti og men er sam­hljóða indó-evrópsku rótinni men sem þýðir máni.[7] Þar eð men þýðir hálsfesti, hálsbaugur á íslensku, hefur mönnum skotist yfir vísunina í mánann. Í Bjólfskviðu kemur við sögu Brosingamene sem er talið mögulegt að rekja megi nafnið Brísingamen til[8] en mene er gríska orðið fyrir “máni.”

Þótt lítið fari fyrir Sól í norrænni goðafræði og goðsögulegt hlutverk hennar hafi verið yfirtekið af karlkyns guðum á langri leið, getur Snorri þess að hún hafi verið talin með ásynjum. Máni er sömuleiðis lítt áberandi í arfinum. Hjá 10. aldar skáldinu Guttormi Sindra er að finna kenninguna óskkván Mána og lítur Finnur Jónsson svo á að Máni sé þar jötunn og óskabrúður hans “gýgur”. [9] Að öðru leyti þegir arfurinn um samneyti Mána við konur.

Hringmhringmyrkvi
Mynd send frá japansk-ameríska geimfarinu Hinode 4. jan. 2011.

Ég sá í sjónhending að sögnin um Freyju og dverga hlaut að eiga rætur í sólmyrkva. Eins og ég orðaði það svo skáldlega, vekur hún upp “mynd af sólinni sem geng­ur undir og gefst fereinum mána sem sökkvir sér í eldheitt skaut hennar svo rauðar glæðurnar blæða undan bik­­svörtum lim hans og mynda log­andi djásnið.” Himneskt samræði guðs og gyðju er dregið niður á jarðneskt plan í samræmi við spakmælið “svo á jörðu sem á himni.”

Eins og ég sé það, stendur Brísingamen fyrir hneigð til að samþætta það sem var sundur skilið, himin og jörð, anda og efni. Sem slíkt er það lykill að harmoníunni í sköpunarverkinu sem líkamnaðist í frumverunni Ymi, en nafn hennar þýðir tvíburi, skylt ymur sem er eins konar grunntónn í óði verunnar.

Svissneski sálfræðingurinn C. G. Jung bendir á að hin frumlæga hugmynd um tvíkynja uppruna mannsins hafi orðið að tengitákni fyrir skapandi einingu andstæðna sem stefnir í átt að heilleika.[10] Og hér fór ég að skilja erindi draumsins sem hafði laðað mig inn á þessa braut. Hann leitaðist við að leiða mér fyrir sjónir að til þess að gera drauma mína um að skapa að veruleika, þyrfti ég að koma á samhljómi milli vitsmunanna, sem ég hafði hafið á stall, og hvatanna sem voru undir hælnum á mér, óvinir sem fyrir alla muni þurfti að hafa hemil á. Fyrir vikið tókst mér ekki að stýra þeim mér til framdráttar, eins og Freyju köttum sínum, heldur leyfði ég óttanum að ráða för.

Örlögin höguðu því svo að mér var fengin í hendur þessi mynd af fornu silfurmeni sem skyldi liggja til grundvallar texta mínum. Um líkama Freyju hringast ormurinn sem bítur í sporðinn á sér; við sjáum haus skepnunnar hægra megin við höfuð gyðjunnar. Á milli fóta, niðri við pilsfaldinn, er vísað í hyrndan mána sem kallaður er. Örmum sínum vefur Freyja um þungaðan kvið. Móðurhlutverkið var þó ekki

tímabil 800-1050
Statens Historiska Museum, Stokkhólmi.

á hendi Freyju heldur var hún umfram allt völva, þunguð af hinu ókomna og óþekkta sem bíður þess að komast fram í dagsljósið.

 Orðið völva er sýnilega dregið að latneska orðinu volva, vulva, sem þýðir leg.[11] Á sama hátt er Delfí, þar sem hin víðfræga véfrétt hafði aðsetur, dregið af gríska orðinu delphus sem þýðir leg.[12]

Ég starði á víxl á myndirnar tvær og sá í þeim sláandi samhverfu. Bæði sporðbíturinn og vafurloginn, sem ég ætla að eigi fyrirmynd í sólstrókunum sem hvirflast um mánaskífuna, umkringdu meyjarskemmuna í fornum sögum og vörnuðu óverðugum inngöngu. Enduróma þar óskoruð yfirráð Freyju yfir skemmu sinni sem lýst er í Sörlaþætti.

Af men eru leidd ensku orðin menstruation og menses sem standa fyrir blæðingar kvenna. Ég var þarna komin inn á slóð tíðablóðsins og átti ekki annars úrkosti en að elta það hnoða til uppsprettunnar. Hilda Ellis Davidson vekur athygli á kynlegum skorti í norður-evrópskum bókmenntum, listum og alþýðuhefð á vitnisburði um tengsl mánans við vígslusiði kvenna í heiðni.[13] Á öðrum menningarsvæðum er oft litið svo á að vaxandi, fullt og þverrandi tungl svari til þriggja æviskeiða konunnar, meyjar, konu og kerlingar. En þar er hlaupið yfir fjórða fasann, nýtt tungl, þegar máninn hverfur af himni í þrjár til fjórar nætur, sem svarar til tímabilsins sem Freyja

dvaldi hjá dvergum. Við segjum að sól og tungl séu þarna samstæð; á ensku er kallað að þau séu conjunct, þ.e. samtengd. Í Sörlaþætti segir að menið hafi verið “mjög fullgert” þegar Freyja kom að steininum. Ég skil það svo að það hafi verið nánast fullgert. Hringmótífið endurspeglast bæði í tíðahringnum og ferli mánans. Þetta er vísbending um að Freyja hafi farið í undirheimaför sína á nýju tungli, þessum síðasta myrka fasa mánans sem er jafnframt upphaf nýs hrings. Kemur það heim og saman við tilraunir með áhrif ljóss á tíðahringinn sem benda til að við kjöraðstæður ætti egglos að eiga sér stað á fullu tungli en blæðingar á nýju.[14]

Hyrndir hjálmar sem fundist hafa við uppgröft eru vísbending um að forfeður okkar hafi trúað að í gapinu milli niðs og nýs væri ósýnileg kraftuppspretta og að þetta hulduílát væri höfðinu æðra. Og held ég að þar séum við komin nærri Gullveigu. Veig þýðir bæði “kraftur” og “drykkur.” Helgi Hálfdanarson telur að veig þýði “skál” og rekur til bah-weiga í fornháþýsku.[15] Með hliðsjón af merkingu orðsins völva, leg, má telja líklegt að Gullveig sé persónugervingur fyrir hið helga gral og að krafturinn sem kemur fram í nafni hennar vísi í tár Freyju sem var “gull rautt” og skrauthvörf fyrir tíðablóð gyðjunnar.

Í Völuspá er lýst ítrekuðum tilraunum til að fyrirkoma Gullveigu sem samkvæmt vitnisburði völvunnar lifir þó enn. Blæðingar eru náttúrukraftur sem ekki verður eytt en þarf að beina meðvitað í skapandi farveg. Frá þeim sjónarhóli séð bera þær í sér þróunarafl sem kona getur því aðeins léð brautargengi að hún sé í jákvæðu sambandi við þessa náttúru sem tengir hana við forsögulegan uppruna. Tíðablóðið er frumuppspretta. Fyrr en kona byrjar á blæðingum getur líf ekki komið undir. Þarna liggja rætur okkar, handan við upphaf tímans þar sem skil á milli sjálfs og annars eru upphafin. Á blæðingum ber kona sköpunarlindina í sér.

Í heimsmynd Óðins víkur hneigðin til einingar fyrir sundurþykki. “Hann var illur og allir hans ættmenn, þá köllum vér hrímþursa. Og svo er sagt að þá er hann svaf fékk hann sveita.” Þessa afneitun á Ymi leggur Snorri í munn Háum Í Gylfaginningu. Sveiti er skýrt sem blóð og að líkindum vísar svefninn í seiðinn sem gekk í berhögg við þá höfuðskyldu hetjunnar að halda vöku sinni. Sé litið til Delfí, þá starfaði véfréttin þar aðeins einn dag í mánuði sem bendir til að hún hafi tengst blæðingum hofgyðjunnar og eru til frásagnir af því að hofgyðjurnar hafi leyft hof-snákum að drekka fyrsta blóðdreitilinn úr leghálsinum.[16] Virðist þar komin fyrirmyndin að frásögn Snorra á stuldi skáldamjaðarins. Óðinn svindlaði sér í ormslíki inn í Hnitbjörg til Gunnlaðar sem hafði verið falin varsla yfir miðinum. En Óðinn lét sér ekki nægja dreitil heldur svolgraði mjöðinn upp til síðasta dropa og ferjað hann í arnarham til Ásgarðs. Ofangreind afneitun á Ymi er því vísast írónía sem hittir Óðin sjálfan fyrir.

úr Tarot of Northern Shadows

Rúnakvæði frá 15. öld tengir þursinn, eins og þ-rúnin var kölluð, við blæðingar: “Þurs er kvenna kvöl / og kletta búi / og Varðrúnar ver…” Við sjáum þornið á armhring djöfulsins sem á tarot spilinu er lagður að jöfnu við þursinn.

 Á spilinu er þursinn holdgervingur ýtrustu andstæðna sem upp af vex þyrnum settur rósarstilkur. Myndin leiðir hugann að ævintýrinu um Þyrnirósu sem hefur verið túlkað sem vígslusaga. Þrettándu vísindakonunni var úthýst vegna þess að kóngurinn átti ekki nema tólf gulldiska. Gulldiskarnir vísa í sólarárið með sínum tólf mánuðum en þrettánda vísindakonan í tunglárið sem hafði 13 tungl og harmóneraði við tíðahring konunnar sem, ef hún er óþunguð, fer 13 sinnum á túr á ári.[17]

Konan var hrifin, og það með ofbeldi, út úr rytma sem er henni eðlislægur. “Hrímgrímnir heitir þurs / er þig hafa skal / fyr nágrindur neðan…” hótar Skírnir Gerði sem í Skírnismálum er umgirt vafurloga í jötunheimum og neitar að gefast herra hans, Frey. Þegar Skírnir býst til að rista henni þursrúnina til að virkja áhrínsorðin, lætur Gerður loks undan með svofelldum orðum: “Heill ver þú nú heldur, sveinn, og tak við hrímkálki fullum forns mjaðar.” Hér virðist mér Gerður framselja völvuna í sér og afsala sér fullveldi yfir eigin líkama. Hún heitir því að unna Frey gamans í lundinum Barra. Viðskipti þeirra Skírnis bera keim af skírn til rétttrúnaðar sem er keyrð í gegn með hrottaskap og ofbeldi. Það sem sýnist hafa brunnið á körlum var að ná konum undan áhrifavaldi Mána sem virtist stýra tíðahringnum og vera valdur að blæðingum þeirra. Náið samband þeirra við þennan magnaða guð færði þeim ógnvekjandi vald sem þurfti fyrir alla muni að taka frá þeim. Og hingað erum við komin:

Mike Pence og herbergisfylli af hvítum körlum sem vildu taka ákvarðanir um kyn- og frjósemisréttindi í sínar hendur.[18]

En eins og völvan sagði, þá lifir Gullveig, þótt enn sé unnið ötullega að því að útrýma henni. Og minningin um Brísingamen blasir hvarvetna við á kvenmannshálsi, og stundum karlmanns, þótt tengslin við frummyndina kunni að hafa rofnað um hríð. Pendúllinn þokast í átt að miðju.

Tilvísanir

1. Byggt á bók minni Quest for the Mead of Poetry: Menstrual Symbolism in Icelandic Folk and Fairy Tales. Chiron Publications, Asheville, N.C., 2016.

2. Gísli sigurðsson, ritstj.  “Gylfaginning.Úr Mímisbrunni. Mál og menning, 1994, kafli 24.

3. Guðni Jónsson, ritstj. “Sörla þáttr” í Fornaldar sögur Norðurlanda, I. Reykjavík, 1976.

4.  Magnus Magnusson. Viking: Hammer of the North. Galahad Books, New York, 1985, bls. 76.

5. Guðbrandur Vigfússon. “Formáli”. Íslenzkar þjóðsögur og ævintýri, II (1852). Reykjavík, 1961, bls. xvii.

6. Freyja. http://www.hallfridur.is/, 2003.

7. Erich Neumann. “On the Moon and Matriarchal Consciousness.” Þýtt úr þýsku af Hildegard Nagel. Spring, 1954.

8. Rudolf Simek. Hugtök og heiti í norrænni goðafræði. Ritstj. Heimir Pálsson, þýtt úr þýsku af Ingunni Ásdísardóttur. Reykjavík, 1993, bls. 43.

9. Snorri Sturluson. Heimskringla, I. Reykjavík, 1979, bls. 181.

10. Carl G. Jung. The Archetypes and the Collective Unconscious. R. F. C. Hull þýddi úr  þýsku. Princeton University Press, 1990, bls. 172.

11. “volva or vulva… in partic., the womb, matrix of women and she-animals (syn. uterus).” Charleton T. Lewis og Charles Short. A Latin Dictionary. Oxford at the Clarendon Press, 1879.

12. Penelope Shuttle og Peter Redgrove. The Wise Wound: The Myths, Realities, and Meanings of Menstruation. Grove Press, New York, 1988, bls. 179; Jean Shinoda Bolen. Crossing to Avalon. Harper, San Francisco, 1994, bls. 117.

13. Hilda Ellis Davidson. Roles of the Northern Goddess. Routledge, London/New York, 1998, bls. 186.

14. Chris Knight. Blood Relations: Menstruation and the Origins of Culture. Yale University Press, 1991, bls. 251.

15. Helgi Hálfdanarson. Maddaman með kýrhausinn. Mál og menning, 2002, bls. 72.  Til stuðnings máli sínu nefnir Helgi einnig fornenska orðið “wǣge” og hið fornsaxneska “wēgi” sem hvort tveggja merkir bikar. Í því sambandi má benda á að á mynd Anders Zorn hér að ofan heldur Freyja á öfugum bikar. Og ef við viljum teygja okkur að ystu mörkum, getum við spurt okkur hvort rósrauð lýsandi rákin sem lekur niður innra læri gyðjunnar hafi haft tiltekna merkingu í huga listamannsins. 

16. Shuttle og Redgrove, bls. 147-148.

17. Annette Høst. “Blessed by the Moon: Initiation into Womanhood.” http://www.shamanism.dk/.

18.https://www.advocate.com/women/2017/3/24/mike-pence-and-roomful-white-men-tried-take-reproductive-rights. Á myndinni er varaforseti Bandaríkjanna og 30 hvítir karlkyns repúblíkanar. Eins og sést er engin kona í herberginu þrátt fyrir umfjöllunarefnið.

 

Myndin af tarotspilinu með djöflinum er birt með leyfi AGM-Urania/Koenigsfurt-Urania Verlag, Germany, © AGM-Urania Verlag. Endurbirting óheimil.